01.05.1925
Neðri deild: 69. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3226 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

111. mál, útvarp

Atvinnumálaráðherra (MG):

Já, það er þó alla daga að tala fyrir þingtíðindin, að segja nokkur orð, því að áheyrendur eru sama sem engir. Hinar geysilöngu umræður um málin valda því, að þm. leita á burt, og er þeim vissulega vorkunn. Jeg vildi, út af því, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, láta þess getið, að mín meining var ekki að hreyta neinum ónotum í nefndina; jeg var henni aðeins ekki samdóma, og ekki heldur meiningin að gefa henni í skyn, að hún hefði unnið slælega í málinu; jeg sagði aðeins, að það virtist svo, sem hún hefði haft betri sjerfræðinga sjer til aðstoðar en jeg, en auðvitað bjó jeg ekki til frv., heldur landssímastjóri.

Það var alveg rjett, sem hv. form. allshn. (MT) sagði, að það fylgja því kostir að hafa aflmikla stöð, og verður þá að meta það, hvort það er ávinningur, samanborið við það, að árgjaldið verður hærra með því. Jeg held nú, að þar verði að fara nokkuð bil beggja, því að það er allhart að leggja það á menn, sem eru nærri stöðinni, að borga mjög hátt árgjald, því að þeir þurfa ekki að hafa mjög dýr móttökutæki. En út af styrkleika stöðvarinnar vil jeg geta þess, að ef sett verður „alt að 1,5 kw.“, þá er stjórninni falið að ákveða styrkleikann innan þessa hámarks, og vitaskuld mundi hún leita álits sjerfræðinga.

Um það, að nöfnin voru tekin út úr frv., skal jeg viðurkenna, að jeg drap á það atriði við 1. umr., en lagði ekki til, að það væri gert, og jeg sagði, að þessir menn hefðu þegar búið málið svo mikið undir, að ólíklegt væri, að aðrir gætu gert það betur. Það er ekki nema allrar virðingar vert, að nefndin hefir snúið sjer til annara en sjerleyfisbeiðenda, en sömu aðferð hefi jeg haft; jeg fór til landssímastjóra og hann talaði við yfirmann loftskeytastöðvarinnar, sem mun vera einhver færasti maður hjer í þessari grein, en frv. var eins og landssímastjóri vildi hafa það, að undanteknu einu einasta atriði. En hvort nöfnin eru tekin upp í frv. eða ekki, hefir ekkert að segja, ef það er tilgangur nefndarinnar, að það megi veita sjerleyfið strax, með því skilyrði, að gjaldskráin verði sett síðar, því að þá hafa þessir menn sömu aðstöðu gagnvart útlendum firmum sem þeir óska eftir. Jeg vildi gjarnan fá að heyra, hvað nefndin segir um þetta, því að ef hún er því samþykk, að þeir fái sjerleyfi, án þess að hafa náð samningum áður, þá hefi jeg ekkert við það að athuga.