04.04.1925
Neðri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3249 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

104. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller:

Mjer skilst, að málið eigi samkvæmt venju að athugast í fjhn. Þetta er skattamál, og jeg veit ekki til, að slík mál hafi nokkurn tíma verið afgreidd án þess að athugast fyrst í nefnd. (Fjrh. JÞ: Það má bíða til 2. umr.). Já, að vísu, en það kemur í bága við þingsköpin. Jeg skil ekki, að svo mikið liggi á, að ekki megi nú þegar vísa málinu til nefndar.

Þetta frv. er, eins og kunnugt er, borið fram í sambandi við frv. um ræktunarsjóð Íslands. Það hefir verið mikið um það talað, að með þessu væri rjett fram hönd sjávarútvegarins til landbúnaðarins. Og því verður ekki neitað, að búnaðarfjelagsnefndin hafi komið með framrjetta hönd, en mjer er nær að halda, að sú hönd verði ekki skoðuð sem hönd alls sjávarútvegarins. Þarna er farið fram á að leggja skatt á útgerðina. Mjer finst undarlegt, að um leið og farið er fram á linun á sköttum, sem á útgerðinni hvíla, skuli vera borið fram frv. sem gengur í þá átt að leggja nýja skatta á hana. Hjer liggur fyrir stjfrv. um linun á tekjuskattinum. Jeg sje ekkert samræmi í því að samþykkja frv. um lækkun tekjuskatts og jafnframt því hækkun útflutningsgjalds. Jeg fyrir mitt leyti get ekki með nokkru móti fallist á þetta. Þetta frv. fer fram á tvent. Í fyrsta lagi að hækka útflutningsgjald á sjávarafurðum, og er ætlast til, að sú hækkun renni í ræktunarsjóð Íslands. Mjer er nú nær að halda, að óhætt væri að fara af stað með það, sem sjóðnum hefir þegar verið sjeð fyrir, meðal annars með framlagi frá Landsbankanum. Þetta var látið nægja í fyrra, og mætti bíða og sjá, hverju fram yndi til næsta þings. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að þetta gjald renni síðar í ríkissjóð, til þess að standast kostnað við strandvarnir. Því verður ekki neitað, að þann kostnað er sanngjarnt að leggja á sjávarútveginn, en jeg held því eindregið fram, að athuga beri, hvort rjett sje að taka kostnaðinn á þennan hátt. Það er töluvert „princip“-mál, hvort byggja eigi á útflutningsgjaldinu sem tekjustofni fyrir ríkissjóð yfirleitt. Ef þetta verður ekki samþykt, yrði vitanlega að taka fje til landhelgisgæslu af öðrum tekjum ríkissjóðs. Þetta er sjálfsagt að athuga á venjulegan hátt í nefnd, án tillits til þess, hvað gert sje ræktunarsjóðsins vegna. Hvað ræktunarsjóðinn snertir, lítur út fyrir, að einu megi gilda, hvað hv. þdm. dettur í hug að fara fram á. Það er alt samþykt. Nú er búið að skylda ríkissjóð til að leggja fram 1 miljón. Svo er miljón tekin af Landsbankanum. Sem sagt virðist þessu engin takmörk sett.

Öðru máli er að gegna með fjárveitingu til sjávarútvegarins, t. d. til vitabygginga. Það var ekki svona ríflegt. Ætti að minsta kosti að fást leyfi til að athuga í nefnd þá hlið málsins, sem eingöngu varðar sjávarútveginn, og held jeg fast við þá till. mína, að málinu verði vísað til fjhn.