05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

1. mál, fjárlög 1926

Jóhann Jósefsson:

Við 2. umr. fjárlaganna tók jeg aftur tillögu mína um 10 þús. kr. hækkun til björgunarskipsins Þórs. Var það gert, eins og jeg lýsti yfir, í samráði við formann fjvn. Nú hefi jeg komið með brtt. viðvíkjandi þessum styrk, um að hækka hann um 5000 kr. frá því, sem ákveðið var í Nd. Háttv. deild hefir svo oft heyrt lýst starfsemi þessa skips, að jeg þarf ekki að lengja umræðurnar til þess að færa háttv. þm. heim sanninn um gagnsemi fyrirtækisins. Jeg get vísað til þess, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði viðvíkjandi þessari brtt. minni, og jeg vil leyfa mjer að benda á, að frá byrjun hefir þetta fyrirtæki haft fylgi manna úr öllum pólitískum flokkum, bæði utan þings og innan, en það á sjer aðeins stað um viðurkend þjóðþrifamál. Fyrir viturlegar ráðstafanir þingsins í fyrra hefir Þór getað aflað talsverðra tekna í ríkissjóð, með því að hafa hendur í hári sökudólga innan landhelgi. Á síðasta ári nam það fje um 100 þús. kr., og það sem af er þessu ári munu komnar inn um 65 þús. kr. En þetta er ekki mikilsverðasta hliðin á starfsemi skipsins, heldur er það björgun mannslífa og eftirlit með veiðarfærum og afla. Í þau 5 ár, sem skipið hefir starfað, hafa komið fyrir mörg meira og minna skýr tilfelli, þar sem það hefir bjargað mönnum úr lífsháska. En það hefir aldrei komið eins skýrt fram og á þessari vertíð, sem nú er að líða, hvernig Þór hefir svo að segja hrifið menn úr dauðans greipum. Bátum, sem gerðir eru út frá Eyjum, er líka mjög að fjölga. Þeir voru um 50 þegar Þór hóf starf sitt, en eru nú um 90. Jeg þarf ekki að orðlengja um þessa sanngjörnu hækkun. Jeg þykist vita, að hv. deild taki þessu máli vel eins og áður. Jeg skal taka fram, út af ummælum hv. 5. landsk. (JJ) um að Þór kynni áður en langt liði að verða eign landsins, að þetta hefir komið til tals, og þá fjelli þessi styrkur vitanlega ekki til útgerðarfjelagsins, heldur yrði hluti af útgerðarkostnaðinum. En af því að þetta er ekki komið í fast form, tel jeg nauðsynlegt, að þingið áætli svo ríflegan styrk, að bæjarfjelag Vestmannaeyja þurfi ekki að leggja fram eins mikið og áður. Bæjarsjóður hefir lagt fram að undanförnu 40 þús. kr., en hann er þess í raun og veru ekki megnugur, því að á honum hvíla miklar skuldir vegna þessa fyrirtækis síðan á árunum 1920–1921, af því að skipið fjekk þau ár engan styrk úr ríkissjóði. Till. mín er fram komin til þess að lina eitthvað á þessu framlagi bæjarsjóðs. En útgerð skipsins er nauðsynlegt að tryggja, því að starf þess er hrein og bein lífsnauðsyn sjómannastjettinni í Eyjunum. Þó að skipið hafi notið styrks úr ríkissjóði, hefði starfsemi þess orðið að leggjast niður, ef ekki hefðu einstakir menn hlaupið undir bagga. Það var nauðsynlegt fyrst, meðan verið var að færa almenningi heim sanninn um gildi þessarar starfsemi. Nú eru allir á einu máli um, að mikil heill leiði af þessu starfi Þórs. Að vísu er ekki hægt að fullyrða, hve mörgum mannslífum hann hefir bjargað síðan hann hóf starf sitt, en enginn dregur í efa, að hefði Þórs ekki notið við í vetur, væri að minsta kosti 2–3 bátum færra þar ofansjávar en nú er. Jeg vona því, að enginn ágreiningur verði um að samþykkja þessa tillögu.

Þá er hin tillagan, sem jeg ber fram, um styrk til að undirbúa vatnsveitu í Vestmannaeyjum. Tillaga, er fór í svipaða átt, var feld hjer við 2. umr., þó að undarlegt megi virðast, þar sem háttv. deild var greinilega bent á, hvílíkt nauðsynjamál hjer væri á ferðinni, ekki einungis af mjer, heldur einnig af hlutlausum mönnum, sem ekki eru búsettir í Eyjum. Eins og háttv. 5. landsk. (JJ) tók fram, er það meira stórmál en svo að hafa gott drykkjarvatn, að rjett sje að horfa í nokkurra þúsunda kostnað, eins og. hjer er ástatt. Mönnum, sem ekki þekkja til í Vestmannaeyjum, verður bylt við að heyra lýsinguna á því vatni, sem Eyjabúar verða að sætta sig við. Vona jeg, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja þessa lækkuðu till. Jeg þarf ekki að fjölyrða um nauðsyn málsins, því að ástandinu í Vestmannaeyjum að því er snertir neysluvatn hefir þegar verið lýst, bæði af mjer og öðrum, fyrir háttv. deild.