02.03.1925
Efri deild: 20. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2207)

19. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Það er ekki ýkjamargt, sem jeg þarf að svara hæstv. forsrh. Jeg tók það fram; að Krabbe hefði mitt fulla traust, og það hefi jeg oft tekið fram áður. En fyrirkomulagið, eins og það er nú, er óþolandi. Sá maður, sem er undirmaður utanríkisráðherrans danska, embættislega sjeð, getur ekki fyrir vora hönd mætt sem samningsaðili við hann. Fyrirkomulagið er því vottur um sljóleik.

Um hið bitra vopn, háðið, talaði jeg í fyrri ræðu minni í sambandi við þjóðleikhúsið, og get jeg vísað til þess.

Það var öldungis rjettmætt, er jeg talaði um sljóleika í sambandi við breytinguna á hæstarjetti, frá síðasta þingi. Jeg hefi ekki lagt marga steina í götu hæstv. núverandi forsrh. sem stjórnarformanns, en jeg verð að játa, að mjer var það stór sorg, er hann bar fram hæstarjettarfrv. sitt, sem honum, illu heilli, tókst að merja gegnum þingið; frv., sem nálega allir helstu lögfræðingar okkar eru mjer sammála um, að sje óverjandi. Hafa síðan margir merkir lögfræðingar vakið máls á því við mig, að nauðsyn væri á að flytja inn á þing aftur frv. um hæstarjett, til að fá þessu kipt í lag aftur. — Hæstirjettur er nefnilega einn hyrningarsteinninn undir þjóðfjelagsskipun vorri.

Þá hefir stjórnin brugðið út af fastri venju, sem áður hefir tíðkast um uppburð frv. fyrir konungi í ríkisráði, sem þó hefir hingað til verið haldið fast við sem nær ófrávíkjanlega stjórnarvenju. Jeg skal að vísu játa, að undantekningar hafa oft átt sjer stað um einstöku frv., bæði í minni stjórnartíð sem annara, en í þessu efni er jeg það íhaldssamur, að jeg vil ekki breyta til frá fastri venju. Það stendur og í stjórnarskrá ríkisins, að bera skuli upp fyrir konungi í ríkisráði lög og allar meiri háttar stjórnarathafnir.

Þá endurtek jeg það enn, að frá mjer hefir eigi fallið eitt einasta orð til niðrunar sparnaðarnefndinni, en mjer er það fullljóst, að ef eigi koma fleiri frv. til sparnaðar en þau, sem nú eru fram komin frá þeirri nefnd, þá þýðir eigi að hafa þá nefnd lengur. Það gladdi mig, sem hæstv. forsrh. lýsti yfir, að hann mundi ekki gera harðar kröfur til flokksmanna sinna, um fylgi við frumvörp hans, og vona jeg, að sú yfirlýsing mætti styrkja að því, að koma þessu frumv. fyrir kattarnef.

Hæstv. forsrh. taldi orðið „vitlaust“ eigi vera þinglegt orð, og má það vel vera, að svo sje; jeg notaði það með varúð, og spurði hæstv. forseta, sem eigi fann ástæðu til þess að vita mig fyrir að viðhafa þetta orð.

Jeg hefi svo eigi mörgu hjer við að bæta, en mjer er það gleðiefni, að stuðningsmenn stjórnarinnar hafa lítt eða ekki lagt henni liðsinni í þessu máli. Jeg álit því rjettmætt af mjer að halda því fram, að stjórnin muni fremur hafa borið þetta frv. fram af kurteisi við háttv. sparnaðarnefnd, en af því, að henni sje þetta áhugamál. Og vilji menn skygnast lengra inn í sálarfylgsni hæstv. stjórnar, munu menn verða þess varir, að vart mun hún kenna mikils sársauka, þótt þetta frv. hennar verði felt.