26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2262)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Guðmundur Ólafsson:

Háttv. minnihl. mentmn. talaði ekki við umræðuna í gær, fyr en jeg hafði talað fyrir brtt. minni um Blönduósskólann. Jeg sagði í gær, að jeg gæti ekki eftir nál. minnihl. fundið, að þessi háttv. þm. (IHB) væri á móti Blönduósskólanum, þótt meirihtuti nefndarinnar gæti þess í áliti sínu. En eftir að þingmaðurinn hafði flutt ræðu sína, var annað uppi á teningnum, því að þá kastaði háttv. þm. alveg grímunni. Þessi háttv. þm. byrjaði með því, að koma með fæðingarvottorð Blönduósskólans frá fyrv. forstöðukonu hans, frú Elínu Briem Jónsson, og taldi hún hann stofnaðan 1883. En jeg taldi hann, og jeg tel hann enn, stofnaðan 1877, svo þetta vottorð hinnar mætu konu breytir að engu leyti fyrri ummælum mínum um stofnun skólans.

Jeg sje, að háttv. 6. landsk. (IHB) hristir höfuðið. Það fær þessi háttv. þm. eflaust ástæðu til að gera oftar, er hnekt verður ósannindum hans um Blönduósskólann, því að jeg hefi bestu rök frá skólanefndinni fyrir því, að skólinn byrjaði svona snemma.

Þá sagði þessi háttv. þm., að ekki væri hægt að halda því fram, að skólinn hefði byrjað fyr en 1883, af því að áður hefði hann aðeins verið lítilfjörlegur hjeraðsskóli. Hið sanna er, að skólinn tók fyrst til starfa árið 1877, í Ási í Hegranesi, og var rekinn nokkur ár, eða til 1883, á ýmsum stöðum, af Skagfirðingum og Húnvetningum í fjelagi. Það mun vera á þessu tímabili, sem háttv. þm. telur hann hafa verið lítilfjörlegan hjeraðsskóla. En jeg hygg, eftir skýrslunum að dæma, að þá hafi hann á engan hátt verið lítilfjörlegri en kvennaskólinn hjer. Nei, háttv. þm. (IHB) hefir nú kastað grímunni og sýnt hreina afstöðu í málinu, sem sje þá, að ráðast á kvennaskólann á Blönduósi og spilla fyrir honum eftir mætti. Hvort það verður til þess að lyfta kvennaskólanum hjer, skal jeg ekkert um segja. En líklega býst háttv. þm. við því.

Þá talaði þessi háttv. þm. um, að það hefði verið sjer að þakka, að þáverandi þm. Húnv., Björn Sigfússon, hefði fengið styrk handa Blönduósskólanum 1911. Þetta býst jeg við að sje rjett, en þau umskifti til hins verra, sem háttv. þm. hefir tekið síðan, vekja enga ánægju hjá mjer.

Þá sagði þessi háttv. þm., að jeg myndi hafa haft lítið leyfi eða umboð frá kjósendum mínum til þess að koma fram með þessa brtt. (IHB: Ekki rjett hermt). Það er víst rjett. Jeg skrifaði það niður eftir þingmanninum, og sömuleiðis býst jeg við, að háttv. deildarmenn hafi heyrt það. Þegar háttv. þm. kom með þessa firru, datt mjer í hug, að hann hjeldi, að jeg væri kominn í kvennaskólann hjerna, og hann farinn að kenna mjer. Jeg hefi aldrei heyrt áður, að umboð kjósenda þyrfti, til að mega koma fram með brtt. Jeg hjelt og held enn, að engum komi við, hvað jeg flytti, nema mjer sjálfum. Annars hefi jeg ekki sjeð, að þessi háttv. þm. hafi haft hjer neitt skriflegt umboð frá sínum kjósendum, og eru þeir þó fleiri en mínir. Jeg býst því ekki við, að jeg verði ver staddur, þegar jeg fer að afsaka þetta fyrir kjósendum mínum, en háttv. 6. landsk. (IHB) verður gagnvart sínum kjósendum. Því að svo kunnugur er jeg í kjördæmi mínu, að jeg veit, að tillaga mín er ekki flutt í óþökk, hvorki skólanefndar eða annara hjeraðsbúa.

Vel getur verið, að þessi framkoma háttv. 6. landsk. eigi að sanna okkur deildarmönnum hið umtalaða víðsýni landskjörinna þm. fram yfir kjördæmakjörna.

Þessi háttv. þm. hjelt hjer í gær mikla ræðu og skörulega, eins og blað eitt hjer í bænum komst að orði í morgun, blað, sem aldrei má nefna í þessari háttv. deild, án þess að menn sjeu víttir fyrir. Gekk ræða sú mest út á að hæla skóla þeim, sem háttv. þm. veitir forstöðu. En hvort hól það fór sem best í hans munni, er alt annað mál. Varð niðurstaðan sú, að sá skóli væri bestur og ódýrastur, jeg held allra skóla í heimi. Eftir ummælum háttv. þm. hlýtur því að vera hættulegt fyrir kvennaskólann hjer, að breytt sje að nokkru fyrirkomulagi hans. En jeg verð að segja, að fyrsta kastið verður þó að minsta kosti miklu dýrara fyrir ríkið að taka að sjer kvennaskólann hjer, heldur en Blönduósskólann, þar sem skólinn hjer hefir ekki ennþá eignast skýli yfir sig. En háttv. þm. sagði, að aðalástæðan fyrir frv. væri sú, hve dýrt væri að leigja.

Þá kallaði hv. 6. landsk. (IHB) kvennaskólann á Blönduósi hjeraðsskóla, en kvennaskólann hjer landsskóla. Bygði hún það á því, að í einhverri skólaskýrslu hafði háttv. þm. sjeð, að af 34 nemendum á Blönduósskólanum voru 16 úr Húnavatnssýslu. Þegar jeg sá þessi rök, fór jeg og fjekk mjer skýrslu um kvennaskólann hjer, og við athugun hennar kom í ljós, að af 90 nemendum hjer voru 50 úr Reykjavík. Eru því hlutfallslega færri úr Húnavatnssýslu á Blönduósskólanum en úr Reykjavík hjer.

Þá fór háttv. þm. að tala um kostnaðinn á hverja stúlku, og komst að þeirri niðurstöðu, að kostnaðurinn á 1 stúlku á Blönduósi væri jafnmikill og á 3,34 hjer. Þetta er vitanlega alveg í samræmi við það, sem háttv. þm. var búinn að tala svo mikið um áður, að skólinn hjer væri bæði ódýr og góður. Annars held jeg, að þessi útreikningur sje ekki mjög góð undirstaða til að byggja á, því að skólinn á Blönduósi varð dýrari eftir að honum var breytt. Áður sóttu hann um og yfir 50 nemendur.

Jeg gleymdi áðan, þegar jeg var að svara háttv. 6. landsk. um heimildarleysi það, sem þm. kvað mig hafa haft til að koma fram með brtt. mína, að jeg hefi nú í höndunum brjef frá sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu um þetta mál. En úr Austur-Húnavatnssýslu hefir ekkert skeyti komið, og kemur af því, að ennþá er ekki búið að halda þar sýslufund.

Með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp það, sem í brjefi þessu stendur: „4 2. Kvennaskólamál. 6. Út af erindi skólanefndar lagði sama aukanefnd fram eftirgreindar tillögur, er voru samþyktar: 1. Sýslunefndin felur þingmanni kjördæmisins að beita sjer fastlega fyrir því, að Blönduósskólinn verði gerður að ríkisskóla. Verði það ekki gert, felur sýslunefndin honum að beita sjer fyrir því, að ríflegur aukastyrkur verði veittur úr ríkissjóði til aðgerðar á skólahúsinu, og til þess að setja miðstövarhitun í húsið.“

Rjettan útdrátt staðfestir,

p. t. Hvammstanga 27. febr. 1925,

B. Brynjólfsson.

Jeg býst við því, að jeg hafi nú sagt það, sem jeg get látið nægja, út af ræðu hv. 6. landsk. — En þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að hæstv. forsrh. (JM). Hann byrjaði ræðu sína með því að vitna til og ljúka lofsorði á ræðu hv. 6. landsk. (IHB), en mjer finst jeg nú hafa fært nokkur rök að því, að rjett hefði verið fyrir hæstv. forsrh. að fara hægt í það, að lýsa blessun sinni yfir því öllu, svo sem því, að Blönduósskólinn væri hjeraðsskóli en kvennaskólinn í Rvík landsskóli. Jeg hefi nú fært rök áð því, að Blönduósskólann sæki stúlkur hvarvetna af landinu, nema úr Árnes- og Rangárvallasýslum. Að vísu á Húnavantssýsla þar flesta nemendur, hlutfallslega. En hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), sem er formaður skólanefndarinnar, segir, að nemendur sjeu nú í vetur með fæsta móti úr Húnavatnssýslu.

Þá fann hæstv. forsrh. (JM) að því, að jeg hefði gert brtt. við frv., og kvaðst þessvegna verða að vera á móti Blönduósskólanum. En aftur á móti skildi jeg hæstv. forsrh. svo, að ef jeg hefði komið með sjerstakt frv. um, að Blönduósskólinn yrði gerður að landsskóla, þá mundi hann vera því fylgjandi. Jeg skil nú ekki, hví hann gerir svo mikinn mun á brtt. og frv. Jeg finn ekki, að brtt. sje nokkru óheppilegri en frv., er efnið er hið sama, og jeg býst heldur ekki við því, að mjer hefði tekist að ganga svo frá frv., að ekki yrði hægt að segja ýmislegt misjafnt um fráganginn á því, svo sem nú leikur orð á um ýms frv., sem lögð hafa verið fyrir þingið, og það ekki síður frv. frá hæstv. stjórn en einstökum þingmönnum.