06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (2278)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Einar Árnason:

Þegar þetta frv. var hjer til 2. umr., snerust umr. aðallega um samnám karla og kvenna, en snertu hinsvegar lítið einstök atriði frv., eins og það lá fyrir. Jeg ætla ekki að fara að vekja þessar umr. upp aftur, sem hjer fóru fram um daginn; aðeins vildi jeg með örfáum orðum láta mína skoðun í ljós á þessu sjernámi eða samnámi karla og kvenna. Í stuttu máli álít jeg sjernám sjálfsagt fyrir konur og karla á vissu sviði, og má þar sjerstaklega benda á húsmæðraskóla fyrir konur og búnaðarskóla, stýrimannaskóla og vjelstjóraskóla fyrir karlmenn, þó að jeg álíti hinsvegar ekki útilokað, að karlar og konur megi taka þátt í þessari kenslu, sem fer fram í þessum skólum. Að öðru leyti álít jeg samnám sjálfsagt, þegar er að ræða um almennar námsgreinar. Það var minst á það við 2. umr., mig minnir af hv. 1. þm. Rang. (EP), að hann taldi, að eðli karla og kvenna til náms væri dálítið ólíkt, og gat þess í því sambandi, að karlmenn hefðu venjulega meiri skarpleika til að bera við nám, en kvenfólk aftur meiri ástundun og skyldurækni. Jeg skal ekkert um það segja, hvort þessi aðgreining er rjett, það má vel vera, en þó að svo væri, eru þessir eiginleikar út af fyrir sig ekki nægileg orsök til þess, að ekki megi hafa samnám, að kynin þurfi sjerskóla út af fyrir sig í almennum fræðum. Það er ágætur kostur, að hafa skarpleika til náms, en það er ekki einhlítt, og það er óhætt að segja, að ástundun og skyldurækni sjeu eins notadrjúg í reyndinni, og að því leyti álít jeg yfirleitt, að kvenfólk geti staðið karlmönnum á sporði í almennum námsgreinum, þótt það geti verið misjafnt eftir námsgreinum. En þegar er að ræða um kvennaskóla, sem aðallega á að vera gagnfræðaskóli, þá álít jeg, að hann geti ekki verið ríkisskóli, svo framarlega sem hann er kvennaskóli eingöngu. En ef kvenþjóðin vill hafa sjerstaka skóla fyrir sig, þá álít jeg, að hún eigi að bera þá uppi, ekki aðeins hvað fjárframlög snertir, heldur líka að hafa stjórn þeirra í sínum höndum. Vitanlega er jeg ekki á móti því, að þeir skólar sjeu styrktir af ríkisfje.

Svo er önnur hlið þessa máls, og það er sú hliðin, sem hv. 1. landsk. (SE) lagði áherslu á, það er aðallega kostnaðarhliðin, og hún er alls ekki lítils verð í þessu sambandi, og jeg er hv. þm. (SE) alveg samdóma um það, að sje kvennaskólinn í Reykjavík færður algerlega yfir á ríkissjóð, þá verði það margfalt dýrara ríkinu. Hv. 1. landsk. þm. (SE) færði algildar ástæður fyrir því, svo að það er engin ástæða til að taka þær upp aftur, og það er jeg sannfærður um, að kvennaskólinn hlýtur að verða miklu dýrari, og sömuleiðis sannfærður um, að hann verður ekki betri, og þá virðist mjer það óhyggilegt, að breyta til.

það eru ýms atriði í þessu frv., sem hefði verið ástæða til að gera brtt. við. Jeg hefi leyft mjer að koma með brtt. á þskj. 244, einungis við tvö atriði. Fyrra atriðið er það, að í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir 5 manna skólanefnd. Þetta er í rauninni alveg nýtt fyrirkomulag á ríkisskóla, og jeg veit ekki til, að svona fyrirkomulag sje við nokkurn núverandi ríkisskóla; það eina, sem jeg veit um, er, að það mun vera skipaður eftirlitsmaður við bændaskólann á Hólum í Hjaltadal, en þar stendur töluvert öðruvísi á, með því að ríkissjóður hefir átt þar hagsmuna að gæta, þar sem skólabúið hefir verið eign ríkissjóðs, svo að þar er það eðlilegt, að hafður sje eftirlitsmaður. Jeg sje því enga ástæðu til að hafa þessa skólanefnd.

Í athugasemdum í frv., við 2. gr., stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem hjer er að ræða um sjerskóla fyrir stúlkur, þá virðist eigi óeðlilegt, að stjórnin kjósi nefnd manna sjer til ráðuneytis, er sjerþekkingu hafi á því sviði.“

Mjer er nú spurn: sjerþekkingu á hverju? Mjer skilst, eftir öðrum ákvæðum frv., að hjer sje aðallega um gagnfræðaskólanám að ræða, og þurfi því ekki sjerþekkingu hvað það snertir. Þó að fram yfir hið venjulega gagnfræðanám sje kensla í útsaumi og ljereftasaumi, get jeg ekki skilið, að setja þurfi sjerstaka nefnd fyrir það. Ef svo væri, þá þyrfti líka að setja sjerstaka nefnd bæði fyrir vjelstjóraskólann og stýrimannaskólann, því að varla má ætlast til, að kenslumálaráðherra hafi nægilega sjerþekkingu í þeim fræðigreinum, sem þar eru kendar, þó að hann hefði nægilega þekkingu í almennum fræðigreinum. Jeg sje því enga ástæðu til að hafa nefnd milli skólastjóra þessa skóla og kenslumálaráðherra. Jeg tel nægja, að stjórn þessa skóla sje í höndum skólastjóra og kenslumálaráðherra, eins og allra annara slíkra skóla.

Þegar farið er að brjóta til mergjar, hvað eiginlega liggi til grundvallar fyrir þessu ákvæði frv., hlýtur manni að detta í hug, að fyrir stjórninni og þeim, sem samdi frv., hafi það vakað, að stjórn skólans myndi annars of veik. Hvort það hefir verið af því, að það er kona, sem stjórnar skólanum, skal jeg ekki um segja. En hafi svo verið, tel jeg þá ástæðu ekki rjettmæta, því að það er margviðurkent, að konur sjeu engu síður stjórnsamar en karlmenn. Í þessu sambandi vil jeg minnast á álit háttv. 3. landsk. (HSn), sem hann hefir leyft mjer að hafa eftir sjer, að hann telji það galla á 5. gr. frv., að þar er talað um forstöðukonu skólans. Vill hann, að í stað þess komi forstöðumaður. Það, sem fyrir honum mun vaka, er það, að útiloka ekki, að karlmenn geti orðið forstöðumenn skólans. En jeg fyrir mitt leyti skal taka það fram, að jeg sje ekki ástæðu til að gera slíka breytingu.

Eins og jeg hefi þegar tekið fram, sje jeg enga ástæðu til að skipa þessa nefnd, og legg því til, að það ákvæði verði felt í burtu.

Þá skal jeg með nokkrum orðum víkja að 2. brtt. minni. í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir 4 ára námi við skólann, en jeg legg til, að sá tími verði styttur niður í 3 ár. Ekki af því, að jeg vilji ekki, að nemendurnir fái eins góða fræðslu og kostur er á, heldur fyrir þá sök, að jeg tel 4 ára nám alt of dýrt, að minsta kosti fyrir stúlkur utan af landi. Og jeg sje ekki annað en með svo löngum námstíma verði margt kvenfólk útilokað frá að stunda nám allan skólatímann. En það tel jeg skaða fyrir fólk, að þurfa að hætta námi í miðju kafi, kanske eftir 1 til 2 ár. En á því er hætta í mörgum tilfellum, vegna fjárhagslegra örðugleika. Þess ber og að gæta í þessu sambandi, að þó að nemendur komist í gegnum skólann með 4 ára námi, þá veitir hann engin sjerrjettindi, sem trygt geta þeim lífsframfæri. Nemandinn er því ekki hóti nær en með 3 ára gagnfræðanámi. Er því engin ástæða til að hafa námið lengra við þennan skóla en gagnfræðaskólana.

Á Möruvallaskólanum var námstíminn aðeins tvö ár, og jeg held jeg þori að leggja ýmsa þá, sem þaðan útskrifuðust, til jafns við marga, sem nú eru búnir að vera 3 ár í gagnfræðaskólum. En það er mín skoðun, að sá mismunur stafi af því, að það voru að eins þroskaðir piltar, sem sóttu þann skóla, og gátu því miklu betur hagnýtt sjer það, sem kent var, en lítt þroskaðir unglingar.

Þá höfum við háttv. 3. landsk. (HSn) komið fram með brtt. á þskj. 250, og skal jeg víkja að þeim örfáum orðum. Er þá fyrst brtt. okkar við 4. gr.

Í 4. gr. eru taldar upp námsgreinar skólans, og telst mjer svo til, að þær sjeu 19. Jeg get ekki að því gert, að mjer finst þær óþarflega margar, jafnvel til skaða margar. Og jeg er ekki í neinum minsta vafa um, að það væri best fyrir skólann að fækka þeim, til þess að nemendurnir fengju betri fræðslu í hinum.

Í samræmi við þessa skoðun höfum við flutningsmenn tillögunnar lagt til að fella þrjár námsgreinarnar niður, sem sje: hjúkrun, teiknun og skrift. Um hjúkrunarnámið skal jeg taka það fram, að við teljum það í sjálfu sjer ekki stórt atriði, en lítum svo á, að nám í þeirri grein geti tæplega orðið kent við svona skóla, svo að gagni megi verða. Slíkt hið sama má segja um teiknunina. Öðru máli er aftur að gegna með skriftina. Úr því að hún er námsgrein, virðist það benda til, að þarna eigi að vera unglingar, sem ekki sjeu búnir að læra að skrifa. En jeg lít svo á, að skrift eigi að vera inntökuskilyrði í unglingaskóla og eigi því ekki að kennast í slíkum gagnfræðaskólum sem þessum.

Þá kem jeg að síðari brtt. okkar, að yngri nemendur en 16 ára skuli ekki fá inntöku í skólann. Það var einmitt skriftin, sem sjerstaklega kom okkur til að halda, að þetta ætti að vera framhaldsbarnaskóli. En jeg er þeirrar skoðunar, að á síðari árum sje farið að gera alt of mikið að því, að þreyta börn með þungum námsgreinum og löngum skólasetum. Og jeg er viss um, að börn hefðu yfirleitt gott af því, að hvíla sig 1 til 2 ár eftir sinn barnaskólalærdóm, áður en þau byrjuðu á þyngra og erfiðara námi. Með því gætu þau orðið betur þroskuð, þegar þau kæmu t. d. í gagnfræðaskóla, og hefðu því miklu betri not af náminu. Annars er jeg sannfærður um, að ef gagnfræða- og kvennaskólar tækju ekki nema þroskaða nemendur, þá gerðu þeir yfirleitt miklu meira gagn. Í sambandi við þetta vil jeg minna á auglýsingu, sem jeg las nýlega. Var hún frá skólastjóra unglingaskólans að Laugum í Þingeyjarsýslu, og hefir sá maður kynt sjer allmjög skólamál erlendis. Í auglýsingu hans stóð, að hann tæki enga yngri en 17 ára í fyrsta bekk skólans. Þetta tel jeg rjett spor í rjetta átt, og legg því mikla áherslu á, að í þennan skóla, sem hjer er um að ræða, verði ekki teknir yngri nemendur en 16 ára.

Að jeg flutti ekki þessar brtt. við 2. umr., var fyrir þá sök, að jeg bjóst ekki við, að frv. yrði samþykt, því að jeg þóttist þá vera búinn að kynna mjer svo hugi háttv. deildarmanna gagnvart því, að jeg þóttist viss um, að til þess myndi ekki koma. En þar sem svo undarlegir hlutir gátu skeð, að það var þó samþykt, gat jeg búist við, að svo yrði áfram. Vildi jeg því ekki láta það fara svo úr deildinni, að jeg gerði ekki þessar athugasemdir við einstök atriði í frv.