06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2279)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. minnihl. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Það vill svo illa til, að jeg er hálflasin í dag, en þótti þó ekki rjett að sitja heima, þá er frv. þetta er til 3. umr.

Við höfum nú við þessa 3. umr. hlýtt á nær klukkutíma langan lestur um, að margt væri við mál þetta að athuga. Liggur því næst að halda, eins og líka er, að hjer sje stórmál á ferðinni.

Jeg hafði, satt sagt, búist við, að þessi umræða yrði eitthvað annað en endurtekning og upplestur á öllu því, sem sagt var um þetta mál við 2. umr. þess, endurtekning á lítt hugsuðum staðhæfingum. En síst bjóst jeg við þessum báglega fram bornu, lítt hugsuðu tillögum, sem háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ) var að enda við að tala fyrir.

Jeg verð vitanlega að láta mjer lynda, þó að mál þetta sje gert að flokksmáli og inn í það komist hin megnasta hreppapólitík.

Háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefir allrækilega skýrt frá tilgangi sníum með tillögunum. Áður en jeg fer inn á einstök atriði þeirra, vil jeg fara um þær fáum orðum frá almennu sjónarmiði.

Hv. þm. fer í tillögu sinni fram á, að ákvæðið um skólanefnd sje felt burtu úr frv. Jeg get sagt háttv. þm., að jeg hefi ekkert sjerstakt á móti því. Að það hafi verið sett inn til þess að lýsa vantrausti á mjer, eins og helst var að skilja á hv. þm., er hinn mesti misskilningur. Ástæðan fyrir því mun miklu frekar hafa verið sú, að ljetta undir störfum skólastjóra og kenslumálaráðuneytisins. Jeg geri því ákvæði þetta ekki að neinu kappsmáli, svo það út af fyrir sig getur ekki valdið ágreiningi okkar í milli.

Þegar maður fer að athuga 1. brtt. háttv. þm., við 3. gr. frv., stendur svo skrítilega á, að hana þarf að bera upp í tvennu lagi, því að hún fjallar um tvö sjálfstæð atriði.

Fyrri liður till. hljóðar svo: „Ríkisstjórnin setur skólanum starfsreglur og hefir öll umráð hans.“ Þessum lið er jeg fyllilega samþykk og hefi ekkert við hann að athuga.

En svo kemur síðari liðurinn. Hann hljóðar svo: „Skal skólinn miðaður við 3. ára nám, og auk þess hússtjórnardeild í tveimur námsskeiðum.“ þessum lið er jeg mótfallin, að því er snertir stytting námstímans úr 4 árum niður í 3. En mjer er ekki, eftir tillögunni, fyllilega ljóst, hvort háttv. þm. vill heldur taka ofan eða neðan af skólanum. Um þetta atriði vil jeg fara nokkrum orðum, frá mínu sjónarmiði.

Stytting námstímans hlýtur altaf að rýra skólann allmikið, þar sem hann stefnir að því, að veita nemendum haldgóða, almenna, bóklega mentun, og auk þess allmikla kunnáttu í handavinnu.

Þetta geta allir sjeð, sem lesa síðustu skýrslu skólans. Því verður ekki neitað, að skólinn hefir mikið verkefni, svo mikið, að jeg fullyrði, að 4 ára námstími sje síst of langur tími. Þó að þessi 3. ára námstími sje ákveðinn, hefir það alloft verið svo, og mun verða fyrst um sinn, að stúlkur; sem hafa þroska og aldur til þess, hafa sest í 2. bekk skólans og jafnvel 3. bekk. Að því er þær námsmeyjar snertir, er því ekki að ræða um nema 2–3 vetra nám, og er það síst of langur tími. Þessu atriði gekk hv. þm. alveg fram hjá, þegar hann var að tala fyrir brtt. sinni, um styttingu skólatímans.

Eigi nú að fella niður 1. bekk skólans, verð jeg, eftir þeirri reynslu, sem jeg hefi fengið í 19 ár sem skólastjóri, og áður sem kennari í 11 ár, að telja það mjög misráðið. Því að foreldrar sækja oft fast að koma dætrum sínum í skólann, strax og þær eru komnar úr barnaskólanum, og færa þau rök fyrir, að ef námið falli niður, þá ónýtist tími. Þetta hlýtur háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ) líka að skilja. Að hætta námi, þótt ekki sje nema í bili, orsakar kyrstöðu og er unglingum oftast tapaður tími, þótt einstaka heilsuveill nemandi kunni að hafa þess þörf, að barnaskólanámi afloknu. Þessi skoðun mín styðst við reynslu mjög merkra skólamanna, að það sje skaðlegt þroska unglinganna að láta þá hætta námi t. d. 1–2 ár.

Hvernig það hefir verið á Möðruvöllum, veit jeg ekki, en víst er það rjett, sem hv. þm. (EÁ) tók fram, að þangað hafi aðeins sótt þroskaðir nemendur, sem auðvitað komust þá af með styttri námstíma. Að því er hjúkrunarnámið snertir, er það álit hv. flm. brtt., að það sje eitt af þeim námsgreinum, sem hægt sje að skaðlausu að fella niður. Jeg verð nú að segja það, að mjer virðist það vera að fara heldur aftan að siðunum hjá hv. flm. (EÁ og HSn), því nauðsynlegri námsgrein hygg jeg tæpast, að hægt sje að kenna uppvaxandi kvenkynslóð okkar.

Geta má þess, að þær þjóðir, sem fremst standa í skólamálum, t. d. Þjóðverjar og Englendingar, eru altaf að verja meiri og meiri tíma til hjúkrunarnáms og meðferðar ungbarna við kvennaskóla sina. Hjá þessum þjóðum er, eins og víðar, misbrestur á, að nemendur úr barnaskólum sæki framhaldsskólana, og er því farið að taka kenslu í þessum greinum upp í barnaskólunum.

Bandaríkjamenn gera slíkt hið sama. En hjerna hjá okkur leggja tveir hv. þm. til, að leggja þetta nám niður, vilja eyðileggja lítinn vísi hjúkrunarnáms og ungbarnameðferðar við þann eina skóla á öllu Íslandi, sem þetta er kent í.

Auðvitað urðu námsmeyjar kvennaskólans ekki lærðar hjúkrunarkonur, svo hægt væri að benda á þær á eftir og segja: Þessi hefir lært hjúkrun í kvennaskólanum! Þær lærðu aðeins það nauðsynlegasta, til þess eftir á að geta betur en fólk flest gætt þess, að framkvæma fyrirskipanir lækna og stundað sjúklinga, meðan ekki næðist til læknis. Og þó þetta nám væri ekki lengra en 16–20 stundir, þá hefir reynslan sýnt, að þær stúlkur, sem þess nutu, hafa reynst betur færar að hjúkra sjúklingum í heimahúsum og fara eftir fyrirmælum lækna en þeir, sem ekkert höfðu lært í hjúkrun sjúkra. Þetta segi jeg óhikað, og gæti sannað það með mörgum vottorðum. En þegar dýrtíðin skall á, þá varð þessi kensla að falla að mestu niður, þannig, að hún hefir á síðustu árum aðeins farið fram í 4. bekk skólans.

Teikning er, eins og hv. flm. vita, lögboðin í öllum barnaskólum, enda álitin eitt hið besta uppeldismeðal. Þetta vita hv. flm. brtt., og þarf því ekki að greiða frekar úr því. Teikning er einnig lögboðin í framhaldsskólum, og víða kend í unglingaskólum, og jeg veit ekki betur en gert sje ráð fyrir því í frv. um unglingaskóla, sem flutt er í Nd., að þar sje kend teikning. Er það atriði tekið í frv. úr áliti mentamálanefndarinnar frá 1922. Teikning gerir menn, ef svo mætti segja, „rjettsýnni“. Ef maður hefir lært teikningu, þá sjer maður betur, er maður lítur á hlutina, hvort þeir horfa rjett eða skakt við. Þannig verður maður næmari fyrir því, hvað fagurt er, maður verður skarpskygnari, rjettsýnni — meðal annars á skynsamleg rök. Rjettsýni er góður hlutur að eiga í fórum sínum.

Skrift er eitt, sem hv. flm. brtt. á þskj. 250 vilja fella burtu úr frv. Það er nú svo, að skrift er þögboðin í fræðslulögunum, og það væri æskilegt, að sú kensla bæri þann árangur, að unglingar þyrftu ekki að tefjast frá öðru námi til þess að læra að skrifa, eftir að þeir hafa gengið gegnum barnaskólann. En þannig er það samt, því miður, að mikið skortir á, að unglingarnir alment skrifi þolanlega, er þeir hafa lokið sjer af í barnaskólanum. Ef þeir alment skrifuðu eins vel og t. d. hv. flm. till., þá skyldi enginn verða fyrri til en jeg, að leggja þessa kenslu niður. Hún er nú oftast lögð niður í 4. bekk, en ekki fyr, því jeg álít sjálfsagt fyrir hvern, sem notið hefir nokkurrar mentunar, að hann kunni sæmilega að skrifa. En það verður ekki sagt alment um unglinga frá 12–16 ára. Þó skal jeg játa það, að undantekningar eru frá þessu, ekki síst um suma unglinga, sem koma úr sveit.

Þá er hækkun aldurstakmarksins. Jeg verð að telja það mjög óheppilegt. Það mætir mjer ekki annað oftar, er jeg á tal við foreldra, en þetta: Er alveg ómögulegt að koma dóttur minni í skólann nú strax í haust? Hún er nú 14 ára og hefir lokið sjer af í barnaskólanum. Jeg veit ekki, hvað jeg á að gera af henni, því að hafa hana heima, við spil og þvíumlíkt, er að miklu leyti tapaður tími. — Já, jeg játa, að það er misnotkun á tímanum, að biða í 2 ár með nám, frá því barnaskólanum er lokið og til 16 ára aldurs. Lífið er ekki svo langt, og þreytan af náminu í barnaskólanum ekki meiri en það, þar sem fríið er svo langt, að engin hætta er á því að unglingamir sjeu ekki búnir að ná sjer, þegar framhaldsskólar byrja að haustinu. Meðan enginn milliliður er milli barnaskólans og framhaldsskóla, eins og kvennaskólans, þá sje jeg ekki betur en að það sje afskaplegt ógagn að þessari till. Þessi eyða er ekki auðfylt, nema með skóla, fyrir þá, sem vilja afla sjer frekari mentunar, því hætt er við að öðrum kosti, að það gleymist, sem numið var í barnaskólanum. Það verður hverjum list, sem hann leikur, og það er hægt að stirðna í námi eins og öðru, sem lagt er á hilluna, þó ekki sje um lengri tíma. í þessu sambandi vil jeg nefna það, að mentaskólinn setur ekkert slíkt aldurstakmark, svo að í hann geta unglingar gengið úr efstu bekkjum barnaskólans. Hjer er því hvorki sanngirni nje nein fulgild ástæða til að setja slíkt aldurstakmark.

Hv. flm. brtt. á þskj. 244 (EÁ) talaði mest um samnám og gagnfræðaskóla, sem allir ættu jafnan rjett og aðgang til o. s. frv., og er margbúið að tala um þetta. Jeg vil ekki lengja þingtíðindin með því að vera að endurtaka neitt af því, sem jeg hefi áður um þetta sagt. Hv. þm. (EÁ) veit, að það sækja ekki nema fáar stúlkur gagnfræðaskólana, og þeim er líka nauðsynlegt að verja nokkrum tíma til þess að nema kvenlegar mentir. Enda held jeg, að það sje holt fyrir stúlkur á aldrinum frá 14–18 ára, að verða fyrir áhrifum af kvenlegri handleiðslu.

Hjer var talað um forstöðumann og forstöðukonu. Jeg held, að það sje rjett, að það sje forstöðumaður við skóla fyrir pilta og forstöðukona við skóla fyrir stúlkur. En helst bæði forstöðumaður og forstöðukona við samskóla.

En þar sem hv. þm. (EÁ) talaði um það, að kvennaskólinn ætti að halda áfram eins og hingað til, studdur af konum og styrktur af ríkinu, og að hann væri ágætur eins og hann væri og gæti ekki betri orðið, þá verð jeg að telja það hjegómalofsyrði í þessu sambandi. það, sem hjer er um að ræða, er ekki annað en það, að það fáist viðurkent, að konur eigi að ráða mentun dætra sinna, að þær fái að halda þessum skóla framvegis, og Blönduósskólanum, og þriðja skólanum verði bætt við, þegar sjóður Herdísar Benedictsen er orðinn nógu stór til þess, að sá skóli verði stofnaður.

Hv. þm. (EÁ) hneykslaðist á því, að skólanefnd hefði ráðið orðalagi frv., og ekki jeg. Jeg get bent hv. þm. (EÁ) á það, að ekki lakari maður en prófessor Eiríkur Briem vann að því, að semja frv.

Þeir, sem eru í andstöðu við frv. þetta, eru að tala um sjerþekkingu, og jeg er ekki frá því, að það þurfi sjerþekkingu til þess að leiða uppeldi og nám ungra stúlkna. En það er eins og þeir hafi ekki athugað það, að ef kvennaskólinn verður gerður að ríkisskóla, sem jeg vona að verði, ef ekki nú, þá áður langt líður, þá kemur hann auðvitað til með að standa beint undir kenslumálaráðuneytinu. Og þetta, um forstöðumann, sem hv. 3. landsk. (HSn) leyfði að hafa eftir sjer, tek jeg heldur alls ekki illa upp. Jeg er nefnd hjer í þinginu hv. 6. landskjörinn og þingmaður, og í fornöld var sagt um konu, að hún var drengur góður. Jeg skammast mín því alls ekki, þó jeg falli undir þessa „kategoriu“.

Loks vil jeg segja eitt, sem mjer hefir komið í hug undir öllum þessum umræðum, og vegna framkomu ýmsra hv. þm. gagnvart þessu frv., að hvernig sem um það fer — segi jeg það ekki sem neina hótun, heldur sem eðlilega afleiðing af því, sem gerist og gerst hefir í sambandi við þetta mál — að konur, bæði nær og fjær, munu gefa því gætur, hvernig atkvgr. fellur um þetta mál. Þetta er, sem sagt, engin hótun, aðeins eðlileg afleiðing af því, hve mikið hefir verið gert að því hjer í hv. deild, að bregða fæti fyrir málið, líklega aðeins í gamni og leik, ekki með mikilli alvöru, að jeg nefni ekki illvilja.

Nú sker atkvgr. úr. En eftir 2 ár höfum við aftur atkvgr., og þá meðal annars líka um þetta mál.