13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (2332)

39. mál, vegalög Suðurlandsvegur

Þorleifur Jónsson:

Jeg þarf ekki að vera margorður um þetta litla frv. mitt, sem ætti að vera sjálfsagt, að samþykt yrði umsvifalaust.

Eins og jeg tók fram við 1. umr. þessa máls, er það sanngirniskrafa, að þjóðvegurinn liggi að þessu eina kauptúni sýslunnar, og á þeim vegarkafla, sem hjer ræðir um, er umferðin langmest af öllum vegum sýslunnar, og það er því einkennilegt, að þessi vegur skyldi ekki vera tekinn með, þegar frv. til vegalaga var samið í fyrstu. Það er yfir höfuð eigi sanngjarnt, að sýslan kosti þann hluta veganna, sem mest er umferðin á. Vegamálastjóri segir vegarkafla þennan um 5,5 km. á lengd, en aðgerð og endurbygging muni kosta um 10 þús. kr., og árlegt viðhald um 600 kr. Þetta mun alt vera nærri lagi, en líklega gerir þá vegamálastjóri ráð fyrir, að þetta sje kostnaðurinn við alla endurbyggingu vegarins. Jeg get upplýst það, að í sumar sem leið var lakasti kafli þessa vegar endurbygður, og var kostað til þess um 5 þús. kr., og var það kostað að hálfu af ríkissjóði, en hinn helmingurinn af sýslunni. Þar sem nú hefir verið ákveðið, að ríkissjóður kosti endurbygging allra vega að hálfu, mundi það þá eigi auka útgjöld ríkissjóðs nema um 5 þús. kr., þó að þetta frv. mitt yrði samþ. Þetta er ekki mikil upphæð fyrir ríkissjóð, þó það sje fullerfitt fyrir fátækt sýslufjelag að bæta því á sig. Sýsla þessi hefir nógar skuldir að bera, þó þetta bætist ekki við. Hún hefir áður orðið að taka hátt lán til vegalagningar, lán til byggingar læknisbústaðar, til símalagningar o. m. fl. Auk þess er jeg þeirrar skoðunar, að ef aðeins þetta frv. eitt hefði komið fram, um breyting í þessa átt á veglögunum, mundi það hafa verið samþykt orðalaust, bæði af þessari háttv. deild og af vegamálastjóra. En það, sem kanske aftrar því, að þetta sanngirnismál nái fram að ganga, er það, að ótal önnur frv. hafa hrúgast inn á þing, um allskonar vegi, sem menn vilja fá tekna í tölu þjóðvega. Sje þetta frv. mitt borið saman við ýms ákvæði vegalaganna, sjest, að það er í fullu samræmi við anda og tilgang hinna nýju vegalaga. Það er að vísu von, að háttv. samgmn. hafi þótt allmikið aukast vandræðin, er hún fjekk yfir sig allan þennan sæg af frv., um allskonar breytingar á vegalögunum, og er henni nokkur vorkunn, að fallast á till. vegamálastjóra um þá einföldustu aðferð að greiða úr þessu máli. En jeg fyrir mitt leyti get ekki verið ánægður með, að háttv. nefnd hefir enga tilraun gert til að vinsa neitt úr þessum frv., það sem helst væri lítandi á, eigi síst þar sem annað eins sanngirnismál er, sem hjer um ræðir í þessu frv. mínu; enda kemur það og í ljós í áliti vegamálastjóra, að hann telur langminsta fjarstæðu kröfur þær, sem þetta frv. gerir. Það er alt öðru máli að gegna um mörg hinna frv., enda telur vegamálastjóri það flestalt vera innanhjeraðsvegi, sem þar ræðir um, og komi því ekki til mála að taka þá upp í vegalögin. En þótt þetta frv. mitt eigi nú, samkv. tillögum hv. samgmn., að leggjast í gröf sína, mun það brátt rísa upp aftur, og er jeg þess fullviss, að það muni ná fram að ganga síðar. Það getur vel verið, að forlög

þess sjeu nú þegar ákveðin. En jeg bendi aðeins á, að þetta er hreinasta sanngirnismál og í fullu samræmi við anda vegalaganna.