14.03.1925
Neðri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

62. mál, vegalög Norðurlandsvegur

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg get ekki láð hv. þm. Dala (BJ), þótt hann sjái eftir þessu frv. sínu, ef það fellur, því það er óneitanlega veigamesta frv., sem borið hefir verið fram í þessa átt nú á þinginu. En þar þykir mjer hann taka djúpt í árinni, er hann segir, að samgmn. hafi ekkert sjálfstætt gert í þessu máli, heldur aðeins elt vegamálastjóra og hlaupið eftir till. hans. Nefndin athugaði þvert á móti hvert frv. út af fyrir sig rækilega, og sá þegar, eins og segir í nál., að þau hvert um sig og öll í sameiningu brutu þá stefnu, sem upp var tekin með vegalögunum, að tengja með vegi saman helstu hjeruð umhverfis landið, en hinsvegar binda frv. ríkissjóði alt of þunga bagga, ef samþ. yrði. Vegamálastjóri hefir og látið í ljós þá skoðun við nefndina, að sú þjóðvegahringbraut, sem þegar er ákveðin, muni geta orðið fullgerð á 7–8 árum, og það jafnvel þótt brýr sjeu bygðar á þeirri leið, ef ekki er bætt nýjum þjóðvegarköflum inn í kerfið.

Jeg get rjett bent á það, þótt jeg búist við, að háttv. deildarmenn hafi tekið eftir því, að þessi sjerstaka breyting, að flytja Norðurlandsveginn frá Holtavörðuheiði í Dali vestur, mundi kosta meira en nemur samanlögðum kostnaði af öllum hinum breytingunum, sem beðið er um. Vegamálastjóri telur nýbygginguna eina á þessum Dalavegi 16 þús. kr., auk aðgerðar og viðhalds.

Hv. þm. (BJ) vildi ekki vefengja mælingu vegamálastjóra og skýrslu hans um veginn yfirleitt. Þess þarf víst heldur ekki, því að maðurinn mun fullfær að dæma um þessi mál.

Rjett má benda á það, í þessu sambandi, að þess yrði líklega langt að bíða, að slík vegarlagning um Dali kæmi til framkvæmda. Jeg á ekki von á, þótt þessi vegur yrði tekinn í tölu þjóðvega, að hann yrði með þeim fyrstu, sem lagðir yrðu, heldur með þeim síðustu. Líklegt er því, að vegur þessi kæmist fyr á, ef sýsluvegur væri og notuð væri heimild til styrks úr landssjóði, eftir lögum nr. 10, 1923, um samþykktir um sýsluvegi. Jeg hefi að vísu ekki aðgætt fasteignamat í Dalasýslu. En í þeim sýslum, sem hafa fasteignir fyrir eina miljón króna — og þær eru margar — er hægt að fá úr landssjóði, eftir lögum frá 1923, 9 þús. krónur móti 6000 kr. framlagi úr sýslusjóði og 15 þús. móti 9000 króna framlagi, þar sem reglan er, að greiða þrefalt gjald frá ríkissjóði móti því, sem fer fram úr 6‰ af fasteignum sýslunnar. Þessvegna er tiltölulega mjög greið gata að því, að fá fje úr landssjóði til sýsluvega, með því að gangast undir sett skilyrði nefndra laga. Með því gætu sýslubúar ráðið því sjálfir, hvenær vegarlagningin færi fram, en væri vegurinn í tölu þjóðvega, mundi hann líklega verða látinn bíða betri tíma og fyrst um sinn notaður vegurinn gamli um Holtavörðuheiði.

Meira þarf jeg ekki að segja í bili. Vildi jeg aðeins bera það af nefndarmönnum, að þeir hefðu ekki athugað frv., en farið eftir tillögum vegamálastjóra athugalaust.