13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (2487)

7. mál, sjúkratryggingar

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg hefi í rauninni ekki mikið að segja, því að þær athugas., sem hæstv. atvrh. (MG) gerði, áttu miklu fremur við álitsskjal stjórnar Berklavarnafjelagsins en till. allshn.

Hann sagði að vísu, að sjer hefði skilist sem nefndin hefði tekið málinu þunglega. Það er álitamál. Mjer líst svo sem nefndin hafi aðeins átt um tvo kosti að velja. Annar var sá, að ráða til að fella frv., hinn, að fara að eins og allshn. leggur til. Hitt kom ekki til mála, að samþ. slík lög fyrirhyggjulaust. Mjer virðist því nefndin hafi tekið betri kostinn, frá sjónarmiði hæstv. ráðherra (MG), af þeim, sem um var að ræða, enda kom hæstv. atvrh. að því síðar í ræðu sinni, að hann væri ekki óánægður með þessa afgreiðslu málsins.

Hæstv. atvrh. (MG) sagðist hafa átt von á, að nefndin, eða jeg sem frsm., tæki harðari höndum á frv. en jeg hefi gert, vegna þess, að í nál. stæði, að nefndin væri í flestum atriðum samþykk brjefi Berklavarnafjelagsins. Það stendur í nál. í flestum atriðum, en ekki öllum. Jeg get játað, að frá mínu sjónarmiði er um sumt í brjefinu svo, að of hart er að orði kveðið, og jafnvel ekki laust við, að kenni nokkurra öfga. Hvað snertir það, sem stendur í brjefi Berklavarnafjelagsins, að þessi breyting sje hættuleg og ósanngjörn, þá gat jeg ekki um, að öll nefndin væri samþykk því. En jeg tók fram, að nefndin væri öll samþykk brjefinu um það atriði, að þessi breyting væri ekki til sparnaðar fyrir þjóðarheildina.

Hæstv. atvrh. (MG) gat þess, að ómögulegt mundi reynast að framkvæma dagskrána til fulls, það er að segja, ekki hægt að fá álit bæjarstjórna og sýslunefnda fyrir næsta þing. Jeg held, að þetta sje vel hægt. Álit bæjarstjórna ætti að vera hægt að fá hvenær sem er, og sýslunefndir gætu vel haldið aukafund, til þess að ræða þetta mál. Það hefir oft verið gert áður, þegar landsstjórnin hefir lagt mál fyrir sýslunefndir. Í sjálfu sjer væri heldur ekki nauðsynlegt, að þetta væri búið fyrir næsta þing. Mætti vel við una, þó að það drægist um 2 ár.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þessi skattur, sem farið er fram á, að lagður sje á þjóðina, væri ekki nefskattur nema að formi til, þar sem fátæklingar einir ættu aftur að njóta hlunnindanna. Jeg veit ekki, hvað er nefskattur, ef ekki þetta, að leggja á alla án tillits til efna. Það er auðvitað meiningin, að fátæklingar njóti styrksins, en það er lítil trygging fyrir því í frv., að hann lendi þar, sem þörfin er mest.

Í einum stað í athugasemd við frv. er talað um, að ekki veiti af að ná einhverju gjaldi í þessu skyni af fólki, sem fer landshornanna á milli og ekkert leggur fyrir. Það er satt; að ekki veitti af, að eitthvað af tekjum þessa fólks staðnæmdist því til gagns. En samkvæmt frv. er hætta á, að húsráðendur yrðu oft að greiða þetta, og óvist, að þeir fengju nokkuð í staðinn. Þetta fólk sumt er horfið áður en nokkur veit af, og yrði þá húsbóndinn sjálfur að standa skil á nefskattinum.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að frv. miðaði að því, að safna í sjóð, er síðan yrði til styrktar sjúklingum. Fyrst um sinn mun þó ekki verða komist yfir meira en að styrkja berklasjúklinga. Mjer þykir vafasamt, að þessi sjóður aukist mjög ört. Það má búast við því, að kostnaður við berklavarnir aukist eftir því sem þjóðinni fjölgar. Því miður má gera ráð fyrir, að jafnmörg % verði haldin af veikinni og nú er. En þó að það reynist ekki svo, þarf það ekki að draga úr gildi berklavarnalaganna. Slíkar ráðstafanir býst jeg við, að ekki verki fyllilega gagnvart þeirri kynslóð, sem nú lifir, heldur verði það eftirkomendurnir, sem njóta.

Það, sem mjer finst ranglátast við að taka berklavarnakostnaðinn svona með nefskatti, er það, að samkvæmt berklavarnalögunum að öðru leyti ráða sjúklingar ekki sjálfir í hve mikinn kostnað er lagt. Þeim er skipað á hæli, og ef þeir eiga efni, verða þeir að standa straum af kostnaðinum sjálfir, án tillits til þess, hvort þeir hafa óskað sjálfir, að í þennan kostnað væri lagt.

Hæstv. atvrh. spurði, út af því, að nefndin taldi sig fylgjandi almennum sjúkratryggingum en ekki frv., hvernig við ætluðum að prófa okkur áfram, ef ekki á þann hátt, að byrja á því, sem smátt væri. Jeg hygg að vísu rjett að byrja í smáum stíl, en þó ekki á þann hátt, sem hæstv. ráðherra (MG) vill. Jeg held, að við ættum að byrja á því, að láta tryggingarnar aðeins ná til annara sjúkdóma, en undanskilja berklasjúklinga, af því þeim er nú ráðstafað á annan hátt. Þegar sjóðunum væri vaxinn fiskur um hrygg og þeir orðnir stórir og voldugir, gæti komið til mála að taka berklasjúklinga með.

Þá hjelt hæstv. ráðh. (MG) því fram, að þessi nefskattur, sem leggja ætti á þjóðina samkvæmt frv., væri ekki verulega tilfinnanlegur. Jeg játa, að hann er það ekki svo mjög á þeim, sem litla fjölskyldu hafa og eru efnum búnir. En á fátækum mönnum væri þetta þung byrði. Jeg skal taka dæmi. Bláfátækur nágranni minn á 10 börn og sjer fyrir þeim án sveitarstyrks. Samkvæmt frv. ætti þessi maður að greiða 18 kr. í sjóðinn, 5 kr. fyrir sig, 3 kr. fyrir konuna og 1 kr. fyrir hvert barn. Þetta yrði talsvert tilfinnanlegt fyrir manninn. Má til samanburðar geta þess, að þó að útsvör sjeu í þessum hreppi nokkuð há, þá þykir ekki fært að leggja á þennan mann nema örlítið útsvar, svo þetta yrði miklu hærra. Jeg veit að vísu, að hreppsnefndum er heimilt að greiða gjaldið fyrir svona menn. En því er nú svo farið, sem betur fer, að sumum mönnum er óljúft að láta hreppinn borga fyrir sig, þó ekki sje það talinn sveitarstyrkur, og vilja heldur greiða sjálfir það, sem þeim ber.

Hæstv. atvrh. hjelt því fram, að þetta frv. væri ekki fremur skattafrv. en lög um sjúkrasamlög. En munurinn á þessu tvennu er mikill. Hjer eru lögð gjöld á einstaklingana, sem nú hvíla á ríkissjóði. En þegar sjúkrasamlög eru stofnuð, þá eru menn að tryggja sig gegn veikindum, sem ríkissjóður skiftir sjer ekki af. Þessu frv. fylgja engin aukin rjettindi eða hagsmunir fyrir alla jafnt, í hlutfalli við kvaðirnar.

Það er satt, að kostnaður við berklavarnir er orðinn mikill hjer, samanborið við gjaldþol þjóðarinnar. En jeg hygg þó, að við Íslendingar eyðum ekki meiru til berklavarna eða heilbrigðismála en aðrar þjóðir. Eftir upplýsingum, er landlæknir gaf allsherjarnefnd, verja Danir talsvert meiru fje til heilbrigðismála en við. Jeg hefi því miður ekki tölurnar, sem landlæknir gaf upp. En annar hv. nefndarmaður hefir þær, og gæti hann gefið upplýsingar um þetta.

Þá gat hæstv. atvrh. þess, að honum þætti vanta, að nefndin gæfi til kynna, hvað hún vildi láta samþykkja í þessu máli, þ. e. a. s., hvað sýslunefndir og bæjarstjórnir skyldu leggja til. Þetta er ekki rjett. Nefndin tekur fram í nál., að hún sje með almennum sjúkratryggingum, en álíti þetta frv. ekki ná þeim tilgangi nema að litlu leyti. Hún skilgreinir að nokkru, hvað hún á við með almennum sjúkratryggingum, og hún vill, að framtíðarskipulagið verði það, að menn sjeu trygðir gegn kostnaði, sem leiðir af hverskonar veikindum. Jeg skal taka það fram, að um sjúkratryggingamálið í heild sinni væri æskilegt að fá álit sýslunefnda og bæjarstjórna, en ekki eingöngu um þetta frv.

Jeg skal ekki fara út í það að svara hv. þm. Dala. (BJ) eða hv. þm. Ak., því að til þess er engin ástæða. Hv. þm. Dala. rjeðst ekki á nál. og virtist því samþykkur. En jeg verð að mótmæla kröftulega þeim ummælum, sem hann hafði um sveitarstjórnir, hvernig þær færu með þurfamenn. Hv. þm. (BJ) hefir kanske sjeð þetta í ungdæmi sínu í sinni sveit, en það er víst, að nú þekkist það ekki, að sveitastjórnir reki þurfamenn á undan sjer í frosti og hríð o. s. frv. þetta eru ómakleg orð og algerlega staðlausir stafir, sem hv. þm. gæti með engu móti sannað.