07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í C-deild Alþingistíðinda. (2615)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Jakob Möller:

Þar sem hæstv. atvrh. (MG) hefir nú lýst yfir því, að ekki sje hægt að nota lögin frá 1920, þá sje jeg ekkert því til fyrirstöðu, að samþykkja nú dagskrá hv. þm. Borgf. (PO), og best að losna þannig við málið. En hinsvegar hlýtur það þá að liggja í samþ. dagskrárinnar, að eitthvað verði gert í því að varna því, að þessi veiki berist hingað með heyi, og lægi þá líklega næst, að stjórnin gripi til bráðabirgðalaga, til þess að heimila sjálfri sjer þá ráðstöfun. Jeg held, að þá sje málinu vel borgið, svo hv. þm. (PO) megi vel við una, hafi tilgangurinn ekki verið sá, að koma undir öllum kringumstæðum í veg fyrir innflutning á heyi.

Viðvíkjandi ræðu hv. þm. Str. (TrÞ) skal jeg segja það, að jeg gruna hann ekki svo mjög um græsku í þessu máli, þannig, að það hafi vakað fyrir honum að nota óttann við þessa sýkingarhættu til þess að koma í veg fyrir það, að hey flyttist til landsins. En hitt er jeg viss um, að frv. á þessu að þakka mikið af fylgi sínu hjer í deildinni. Verði frv. samþ., þá er auðsjeð, að það verkar sem algert bann. Því þó að hægt sje að fá undanþágu, þá eru á því miklir erfiðleikar, þar sem menn af öllum landshornum verða að sækja um leyfi til stjórnarinnar og hún að snúa sjer til dýralæknis. Þetta eru að mestu óþarfir örðugleikar, því að það er auðsjeð, að þessi sýkingarhætta er mjög lítil, ef hún þá er hugsanleg. Eins og kunnugt er, hefir hjer vefið flutt hey inn áratugum saman og ekki komið að sök. En þó að þessi innflutningur mæli á móti því, að hættan sje mjög mikil, þá skal jeg vitanlega ekki þvertaka fyrir það, að hún sje hugsanleg. En þótt sóttkveikjan geti borist milli hjeraða í Danmörku, þá er ekki víst, að hún þoli svo langan flutning sem hjer er um að ræða. Enn skal jeg taka það fram, að sóttkveikjan getur á sama hátt borist með ýmsum öðrum hlutum en heyi, svo að það er svo sem ekki tekið fyrir alla sýkingarhættu með þessu frv. Hún getur borist í hálmi og ýmsu fóðri, t. d. fóðurkökum. Hinsvegar er það að athuga um höft á innflutningi heys, að það mundi verða mjög erfitt fyrir menn í ýmsum sjávarþorpum hjer á landi, t. d. á Vestfjörðum, að afla fóðurs, því að jeg hygg, að bændurnir í sveitunum sjeu yfirleitt ekki færir um að miðla þeim því fóðri, sem þeir þurfa handa skepnum sínum.