07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (2617)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil ekki rengja það, sem hv. þm. Str. (TrÞ) hefir sagt eftir útlendu blaði, sem hann treystir. En við þurfum að fá mikið hey á ýmsum tímum og annað fóður. Í Noregi eru gerðar þær ráðstafanir, að það er hjer um bil ómögulegt, að veikin berist þangað. Þar eru varðmenn á landamærum og ýmsar aðrar ráðstafanir gerðar. Jeg hygg því, að óhætt muni vera að flytja hey frá Noregi. En vera má, að það sje ekki óhætt frá Skotlandi, en jeg veit þó til þess, að hey hefir komið þaðan til landsins, þó að það hafi kanske ekki komið í land, nefnilega með skipum, sem sækja hesta. En þetta frv. á þskj. 293 gengur nokkuð langt, og væri heppilegra, að tilgreind væru þau lönd, sem flytja mætti hey frá, svo að almenningur vissi um það og ekki þyrfti að sækja um undanþágu í hvert skifti; það yrði erfitt, og menn gætu sætt sektum án þess að vilja brjóta. Bæði hv. þm. Borgf. (PO) og hv. þm. Mýra. (PÞ) hafa tekið aftur sínar rökstuddu dagskrár, en út af því, sem fram er komið, vildi jeg bera fram svohljóðandi dagskrá:

Í trausti þess, að ríkisstjórnin með bráðabirgðalögum banni innflutning á heyi frá þeim löndum, þar sem gin- og klaufasýki er landlæg, ef það að áliti dýralæknis er nauðsynlegt til að fyrirbyggja sýkingarhættu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.