09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

1. mál, fjárlög 1926

Klemens Jónsson:

Jeg flyt hjer eina brtt. á þskj. 515. Af því að jeg býst við, að hv. þm. þekki ekki vel, hvernig á stendur, skal jeg skýra það með nokkrum orðum. Steinn Dofri, sem nefndur er í brtt., er sami maður og Jósafat Jónasson ættfræðingur, sem mörgum er kunnur og nú hefir dvalið í Ameríku í full 20 ár og hefir þar kent sig þessu nafni og vill ganga undir því. Þegar þessi maður fór til Ameríku, hafði hann þegar getið sjer mikinn orðstír fyrir ættarrannsóknir sínar, og var viðurkent, að hann hefði komist allra manna lengst í því að rekja ættir manna hjer á landi á miðöldinni. Lífskjör þessa manns hafa síðan verið ákaflega ömurleg. Í einu brjefi sínu til mín segir hann: „Jeg á ekkert heimili, og hefi aldrei átt það á æfi minni síðan jeg var 7 ára drengur.“ Og í öðru brjefi segir hann: „Jeg hefi flækst vestur og norður í land (Canada), og jafnvel yfir til Asíu (Síberíu) og Alaska, þessi útlegðarár mín hjer. Jeg hefi mest stundað veiðar í óbygðum.“ Þrátt fyrir þessa hrakninga og örðugleika hefir hann haldið við sitt gamla lífsstarf. Þrátt fyrir bóka- og umfram alt handritaleysi hefir honum tekist að leysa ýmsar gátur í ættfræði, svo viðurkent er af fræðimönnum. Hann hefir, eins og jeg drap á áðan, rannsakað betur en nokkur annar ættir á miðöld, sjerstaklega á 14. og 15. öld. Þegar kemur fram um 1330, þá er sagnaritun hætt, og ekki önnur gögn frá þeim tíma en þurrir annálar, mest nöfn, og svo brjef þau, sem nú eru prentuð í Fornbrjefasafni. Eftir þessum gögnum hefir honum tekist að taka saman ýmsar merkar ættir, þannig að nú getur mikill fjöldi Íslendinga rakið ætt sína til landnámsmanna, sem það gátu ekki með vissu áður. Þessum rannsóknum hefir Steinn Dofri safnað í bók, sem hann nefnir og komin er út í Winnipeg. Þar hefir hann meðal annars fært sönnur á það, sem stappa nærri fullu gildi, hvaðan hin svonefnda gagnmerka Longsætt er runnin. Áður vissu menn ekkert um framætt Jóns Longs, en eftir þessum rannsóknum má rekja hana til merkustu landnámsmanna. Sama er að segja um hina merku konu Grundar-Helgu. Um ætt hennar er ekki til einn einasti stafur, hvorki í annálum nje fornbrjefum; hún er þar hvergi nefnd á nafn, og þó lifir minning hennar enn hjer á landi þann dag í dag. Fyrstu sagnir um hana eru aðallega í hirðstjóraannálum Jóns Halldórssonar. En Steinn Dofri hefir fyrstur fært sönnur á það, hver hafi verið faðir hennar, og hafa allir ættfræðingar, það jeg veit, fallist á þá ættfærslu; en hann hefir gengið ennþá lengra. Í fyrnefndum ritlingi, sem jeg hefi hjer í höndunum, hefir hann líka fundið móður Helgu og ættfært hana, og það á þann hátt, að lítill vafi er á, að hann hefir rjett. Jeg skal annars ekki fara neitt út í ættfræði hjer, þó að sumir hv. þm. mundu að sjálfsögðu hafa gott af að kynnast þeim fræðum. En ritið læt jeg heimilt hverjum, sem það vill sjá. — Steinn Dofri byrjaði á því þegar hann var ungur að semja registur við V. bindi Fornbrjefasafnsins, og þar hefir hann ættfært menn, svo að fræðimenn á þessu sviði hafa jafnan tekið það eftir honum síðan. Nú verð jeg að segja það, að það er hart, ef þessi landflóttamaður, sem sýnt hefir svo miklar gáfur í þessa átt, verður að veslast upp á eyðimörkum Vesturheims og öll hans drög til íslenskrar ættvísi að eyðileggjast og koma engum að gagni. En það er hjer um bil víst, að svo fer, ef honum kemur ekki hjálp hjeðan. Hann hefir sjálfur drepið á þetta og segist vera sannfærður um það, að ef það verði sín forlög að bera beinin vestra, þá þá muni engin örmul af verkum sínum og drögum komast til Íslands. Þess vegna viljum við útvega honum styrk nokkurn, svo að hann geti sest hjer að aftur og stundað vísindi sín í friði. Fyrir tveim árum kom bónarbrjef til Alþingis frá 12–15 mönnum hjer, þar á meðal var dr. Jón Þorkelsson og ýmsir kunnir fræðimenn, bókaverðir og háskólakennarar. Var þar farið þess á leit, að þessum manni væri veittur nokkur styrkur til þess að hann gæti sest hjer að. En eins og kunnugt er, var þá byrjuð hjer fjárkreppan mikla, og sá jeg mjer ekki fært að mæla fram með þessu. Sama var árið 1924. En nú, þegar öllum virðist vera að rakna fram úr fjárkreppunni, þá hika jeg ekki við að flytja hjer þessa till. ásamt þeim hæstv. forseta (BSv) og háttv. þm. Str. (TrÞ). Þótt hv. þm. þekki ekki mikið til mín sem fræðimanns á þessu sviði, þá veit jeg, að ýmsir hv. þm. bera það gott traust til þessara manna og þekkingar þeirra í þessu efni, að þeir treysti því, að verðleikar Steins Dofra sjeu hjer ekki of mjög fram dregnir og ekki fremur en vert er. Jeg veit það, að þessi maður er mjög nægjusamur og honum mun borgið sæmilega, ef hann fengi þessar 1500 kr., því ætlunin er sú, að hann komi heim, fái hann þennan styrk, og sömuleiðis, að safn hans, sem hann á, verði eign ríkisins eftir hans dag, og eins það, sem hann kann að safna síðar. Það má líka búast við, að hann fái eitthvað að starfa við samning registra og annars þvílíks.

Jeg mun nú ekki tala mikið frekar um þetta, en þó geta þess, að sú aðferð, sem hann notar til þess að tengja saman ættbálka, er nú alment viðurkend sú eina rjetta, þar sem ekki er um alveg vissa heimild að ræða. Það er alkunnugt, að höfuðbólin hjeldust í sömu ættum öldum saman að fornu fari. Það má því telja víst, að svo framarlega sem hægt er að benda á það, að eitthvert höfuðból hafi verið í eign viss ættleggs á einhverjum tíma, og svo 50–60 árum síðar er kunnugt um nafn þáverandi eiganda, þá er nokkurnveginn full vissa fyrir því, að hann muni tilheyra eða vera á einhvern hátt tengdur þeirri ætt, sem óðalið hefir áður tilheyrt. Skal jeg hjer til dæmis minna á það, að hin nafnkunna Hrólfsætt, sem mikill fjöldi manna er kominn af, hefir altaf verið rakin ranglega fram til landnámsmanna. En eftir að Fornbrjefasafnið var út komið, var hægt að sanna með fullum rökum, að Hrólfur sá, sem ættin er við kend, er kominn af Lofti ríka Guttormssyni. Skúli sonur Lofts hafði keypt ákveðna jörð á Norðurlandi, og mátti sanna þetta með því að rekja samband ættarinnar við þá jörð.

Jeg treysti því, að hv. þm. unni svo þessari ment okkar Íslendinga, ættfræðinni, sem er stofninn undir allri okkar sagnaritun, að þeir vilji leggjast á eitt með okkur flm. þessarar till. og samþykkja hana. Jeg býst við því, að ef þessi maður fengi þennan 1500 kr. styrk og kæmi hingað heim, þá mundi honum vera borgið fjárhagslega. Hann mundi vera sjálfsagður maður til þess að vinna ýms verk, svo sem að semja registur við Alþingisbækur, Fornbrjefasafn og fleira slíkt. Jeg get sagt eins og einn hv. þm. (HK) sagði í öðru sambandi, að þegar komnar eru inn í fjárlögin svo margar brtt., og sumar alls ekki verðugri til þess að standa þar en þessi till., þá muni hún eins sóma sjer í fjárlögunum og þær.

Jeg læt svo útrætt um þessa till. En jeg vil aðeins lýsa yfir því, að jeg mun nú sem fyr fylgja hv. fjvn. að mestu leyti. Það hefir komið fram brtt. á þskj. 486, IX, frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), við eina brtt. fjvn., um styrk til frú Soffíu Guðlaugsdóttur. Leggur fjvn. til, að henni sjeu veittar 1000 kr., en hv. 3. þm. Reykv. leggur til, að þessi styrkur sje hækkaður upp í 1500 kr. Þess var getið hjer, að leiklistin hefði ekki átt upp á pallborðið hjá þinginu undanfarið í samanburði við skáldskap og aðrar listir, og er það satt. Að vísu hefir leikfjelagið hjer verið styrkt í nokkur ár. En leikendur hafa aldrei fengið styrk til þess að leita sjer fullkomnunar í list sinni, nema frú Stefanía Guðmundsdóttir, okkar ágætasta leikkona, í eitt skifti, og veitti þó fullerfitt að fá því framgengt, þótt styrkur sá væri lítill. Var meiningin þá, að sú fjárveiting stæði áfram, en það varð ekki nema eitt fjárlagatímabil.

Þessi kona, sem hjer er um að ræða, hefir ótvíræða ágætisleikhæfileika. Og þar sem hún er ung, mundi hún hafa mjög gott af því að sigla og kynnast leikment utanlands. Þessi tillaga er því á góðum rökum bygð, og vona jeg, að hún verði samþykt, og það hærri upphæðin. Jeg tel það eiga vel við, að þingið sýni leiklistinni meiri rækt en verið hefir að þessu.