20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í C-deild Alþingistíðinda. (2643)

54. mál, vegalög Vesturlandsvegur

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það mun nú engan undra, þótt nokkrar brtt. komi fram við vegalög þau, er samþykt voru á síðasta þingi, því undirbúningur þeirra var með þeim hætti, að brátt mátti búast við breytingum. Eins og jeg gat um á þinginu í fyrra, þá hefði verið eðlilegast, að vegalagafrv. hefði verið borið undir sýslunefndir og þær látnar segja álit sitt um það, áður en það fengi samþykki þingsins. Því var nú ekki að heilsa, og því er von, að víða komi að till. um að breyta og bæta.

Jeg skal nú ekki fjölyrða um þær brtt., sem hjer eru bornar fram af okkur þm. Vestfirðinga, aðeins segja, að eins og kunnugt er, munu Vestur-Ísafjarðarsýsla og Barðastrandarsýsla hafa einna minst gagn af því vegakerfi eða vegalögum, er nú gilda, og þó hafa sýslurnar lítils eða einskis styrks notið frá ríkissjóði til að styðja að vegagerðum á landi, eða til þess að bæta samgöngur á sjó. Í Norður-Ísafjarðarsýslu er um enga þjóðvegi að ræða á landi. Sjórinn er þar þjóðbrautin, þó illa hafi gengið að koma háttv. deild í skilning um það í sambandi við styrk til Djúpbátsins. En hjer er um leiðina frá Ísafirði til Dýrafjarðar að ræða, og hún mun ein af fjölfarnari leiðum, svo ekki sje meira sagt. Þörfin er því brýn, að sá vegur sje sæmilega greiðfær En þess ber að gæta, að hjer er og um póstleið að ræða, og þar sem flestar póstleiðir voru næstum alveg þræddar upp í tölu þjóðvega í fyrra, þá er kynlegt, að þessari skyldi vera slept og ætlast til, að sýslufjelögin hjeldi henni við, án nokkurs styrks úr ríkissjóði.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um málið, en leyfi mjer að leggja til, að því, að lokinni umr., verði vísað til hv. samgmn.