10.02.1925
Efri deild: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í C-deild Alþingistíðinda. (2718)

11. mál, úrskurður í útsvarsmálum

Ingvar Pálmason:

Jeg geri ráð fyrir, að það sje rjett hjá hæstv. atvrh. (MG), að þörf sje slíkrar lagasetningar sem þeirrar, er frv. þetta gerir ráð fyrir. En hinsvegar finst mjer þó hlýða, að gera nú þegar við það nokkrar athugasemdir. Er þá fyrst, að jeg hefði talið rjettara, að frv. þetta hjeti breyting á sveitarstjórnarlögunum, því að jeg lít svo á, að það feli í sjer að nokkru leyti breyting á þeim. Vil jeg því benda háttv. nefnd á, hvort ekki sje rjett að athuga þetta.

Jafnframt vil jeg benda á, að jeg tel ýmsar aðrar breytingar á sveitarstjórnarlögunum fulteins nauðsynlegar og þær, er frv. þetta fer fram á, og því til staðfestu vil jeg minna á, að fyrir tveimur síðustu þingum hafa legið breytingar á lögum þessum, um að breyta reikningsári sveitarsjóðanna úr fardagaárinu í almanaksárið. Þörfin fyrir þessa breytingu er hin sama ennþá, og er sannarlega miklu meiri en nauðsyn þeirrar breytingar, sem frv. þetta hefir í sjer fólgnar, og má í þessu sambandi minna á afdrif þessa máls á síðasta þingi. Komst allshn. þessarar háttv. deildar þá að þeirri niðurstöðu, að nauðsyn bæri til, að taka sveitarstjórnarlögin til gagngerðrar endurskoðunar, og óumflýjanlegt væri að gera á þeim margar breytingar, og einmitt með þeim forsendum var málinu vísað til stjórnarinnar. Vil jeg því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stjórnar, hvort eigi sje von frá henni á neinu frekara í þessa átt en frv. því, er hjer liggur fyrir. Sje nú svo, að einskis þurfi að vænta frekar frá henni í þessu máli, vil jeg skjóta því til nefndar þeirrar, er málið fær til meðferðar, hvort ekki myndi tækilegt að gera fleiri og víðtækari breytingar á sveitarstjórnarlögunum en þær, er felast í frv. stjórnarinnar.

Jeg mun nú greiða atkv. með frv. þessu til 2. umræðu, þrátt fyrir það, þó jeg hafi töluvert að athuga við ýmsar greinar þess, sem jeg mun ekki taka fram nú.

Annars er það orðið býsna alvarlegt mál, hve mjög sveitarstjórnarlögin eru að mörgu leyti orðin úrelt, og því nær ónothæf fyrir ýmsa hreppa, þó sjerstaklega sje það þó fyrir kauptún, sem eru sjerstök hreppsfjelög og hafa yfir 500 íbúa.