27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í C-deild Alþingistíðinda. (2749)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg er samdóma hæstv. stjórn í því, að jeg tel nauðsynlegt, að skipað sje um það með lögum, hve fastir kennarar skuli vinna margar stundir á viku. Jeg álít sömuleiðis, að ekki sje of langt gengið í stjórnarfrv. með þessari stundafjölgun. Hitt er annað mál, að launin eru án efa of lág, eins og þau eru nú, og verða því þeir kennarar, sem hafa fyrir fjölskyldu að sjá, neyddir til að leita sjer aukakenslu. Því ættu lög eins og þessi að verða samferða nýjum launalögum, eða að sett yrði ákvæði í lögin um að þau kæmu þá fyrst til framkvæmda, er endurskoðuð launalög væru sett. Mun jeg greiða atkv. með frv. þessu í því trausti, að hæstv. stjórn eða hv. mentmn. komi með brtt. um þetta við 3. umr. Verði það gert, þá greiði jeg óhikað atkvæði með frv., en annars ekki.