27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í C-deild Alþingistíðinda. (2753)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Sigurður Eggerz:

Þar sem mjer virðist það gleðja hæstv. forsrh. (JM), að það kæmi fram í nál., að kennarar hefðu lág laun, og mjer skilst, að hann muni nota þetta sem ástæðu til þess að breyta því og koma fram með frv. í þá átt að bæta laun kennara, þá vil jeg fullvissa hæstv. ráðherra um það, að jeg muni taka því vel, og jeg skil svo þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh., að stjórnin muni koma eins fljótt og henni er hægt með þetta frv. Jeg skal taka því vel, og þykir mjer gott að geta slegið þessu föstu, að stjórnin hugsar sjer bráðlega að endurskoða launakjör embættismanna landsins. Sjerstaklega er nauðsyn á að gera meiri mismun en nú á sjer stað, eftir því, hvort embættin eru erfið og þýðingarmikil, eða hið gagnstæða.

Að því er snertir þreytu kennara og langlífi þeirra, skal jeg játa, að jeg hefi ekki gert eins nákvæma rannsókn og skyldi um þau atriði, enda þyrfti þá að rannsaka skýrslur víðsvegar að, til þess að komast að ábyggilegri niðurstöðu um það. En starf kennara er áreiðanlega mjög þreytandi, og það geta menn sjeð frá okkar skólum, að þeir kennarar, sem kent hafa lengi, þurfa að ljetta sjer upp, til þess að geta rækt embætti sín á eftir með fullum krafti. Jeg er auk þess sannfærður um það, að lærisveinar í mörgum skólum eru látnir sitja of lengi í tímum, þreytan er þeim einnig að óliði. Og einmitt af því að jeg veit af þessu hjá kennurum og lærisveinum, þá er jeg altaf að prjedika leikfimi, sund og aðrar íþróttir, af því að þarna eru meðulin á móti þreytunni.