02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í C-deild Alþingistíðinda. (2764)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get ekki sjeð, að dagskrá sú, sem hjer er fram komin, hafi neina aðra þýðingu en nál. hvorttveggja leggur til, að frv. sje felt. Þá hefir stjórnin vald til að ákveða þetta að vild sinni, því að löggjafarvaldið hefir með þessu neitað að taka nálið í sínar hendur.

Jeg bar málið undir þingið, af því að jeg leit svo á, að saman ætti að fara fækkun stundafjölda barnakennara og annara kennara í ríkisskólunum. Nú er barnaskólunum lögákveðin lágmarkskensla, en hvað aðra skóla snertir, þá er ákvæðisrjetturinn þar um í höndum stjórnarinnar.

það er alls ekki viðeigandi af hv. 1. andsk. (SE), að tala um ilt hugarfar stjórnarinnar í þessu máli Jeg bjóst fremur við, að viðurkent yrði „loyalitet“ stjórnarinnar í því, að bera þetta undir þingið. — Þýða þessar undirtektir, að löggjafarvaldið vill ekkert hafa með málið að gera?

Jeg skal benda á það, að nýlega hefir verið aukin — mótmælalaust af öllum, að því er jeg veit — skyldukenslan í einum ríkisskólanum, er skólaárið var lengt. Þá var ekki minst á aukin laun. Mjer finst því ekki ástæða til, út úr þessu frv., að fara að ráðast með móði á stjórnina.

Það lætur nógu vel í eyrum, alt þetta tal um þreytu kennaranna, og að kenslan eigi að vera lifandi. En ætli kenslan verði meira lifandi, þó hærra sje borgað, ef um verulega þreytu er að ræða? Og hv. 1. landsk. (SE) og jeg höfum báðir gengið á skóla. Við vitum báðir, að hið sama er kent ár eftir ár, að miklum hluta, og veldur ekki kennara miklum erfiðismunum. Og jeg vil alls ekki viðurkenna, að kensla sje erfiðari en störf sýslumanna og bæjarfógeta í stórum embættum. Þeir verða oft að vinna 12 stundir á dag. Eru störf þeirra oft ekki vandaminni en störf kennara, nje valda minni áhyggjum, þvert á móti. Jeg hygg ekki, að embætti kennara sje yfirleit erfiðara en annara embættismanna, enda hafa kennarar lengra frí frá störfum en aðrir embættismenn, og þá hvíld frá kenslu.

Jeg vona, að dagskráin verði feld. Miklu hreinlegra væri að fella þá frv., ef hv. deild ekki þykir fært að samþykkja það.