13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í C-deild Alþingistíðinda. (2788)

35. mál, löggiltir endurskoðendur

Magnús Torfason:

Jeg verð að segja, að jeg hjelt ekki, að hv. þm. Dala. væri orðinn eins mikið barn og hann er orðinn, samkv. síðustu ræðu hans. Jeg hefi að vísu tekið eftir því, að honum er farið að förlast, en jeg hjelt ekki, að það væru svona mikil brögð að því. Alt, sem hann sagði, var aðeins barnalegur útúrsnúningur á því, sem jeg bar fram. Jeg vil taka eitt. Hv. þm. (BJ) sagði, að jeg hefði sagt, að það væru engin þekkingarskilyrði í frv. En jeg sagði það ekki. Jeg gekk alveg fram hjá þekkingarskilyrðunum. Jeg gerði það viljandi. Jeg get sagt hversvegna. Það er sagt, að þessir menn eigi að hafa vit á verslun og viðskiftum og reikningshaldi. Það þýðir líklega, að þeir eigi að hafa kaupmannsvit. Frekari eru skilyrðin ekki. Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) segir, að aðeins sjeu til tveir endurskoðendur í landinu, og þá ætla jeg, að erfitt sje að fá menn til þess að prófa þessa menn. Þetta skilyrði er því í sjálfu sjer einskisvirði. Satt að segja hefir mjer aldrei dottið í hug, að menn fengju stimpil, fyr en þeir hefðu sýnt það með verkum sínum, að þeir væru færir um að gegna þessum störfum. Orðrómurinn fylgir hverjum verkmanni, og það er vitanlega besta tryggingin. Þessvegna geri jeg ekkert úr þessum ákvæðum.

Það, sem jeg hefi mest á móti frv. er það, að það á að setja strax þennan stimpil á þessa menn og skylda menn til að nota þá í öllum tilfellum, og skylda hið opinbera til þess að nota þá. Sje jeg ekki, hvað er unnið við það, að hið opinbera megi ekki aðeins nota þessa menn, heldur megi það alls ekki láta vera að nota þá. M. ö. o.: það er verið að búa til einskonar einokun í þessu efni, því eins og nú er, getur dómarinn valið á milli manna og tekið þá, er hann telur besta. Og að taka þetta vald af dómendum landsins, það er hrein og bein afturför.

Þá var bæði hv. þm. Dala. (BJ) og hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) að brýna mig á því, að jeg hefði sagt, að það væri altalað í bænum, að þeir endurskoðendur, sem nú eru, hjálpuðu stórgróðafjelögum til að svíkjast undan skatti. Jeg mótmælti því um daginn og geri enn, að jeg hafi sagt, að þessir menn hjálpi mönnum til að svíkjast undan skatti. En hv. þm. virðast ekki vita, að þegar þeir afsaka, þá eru þeir líka að ásaka. Lítur svo út, að samviskan sje ekki betri en það, að þeir þykist þurfa að afsaka þessa menn, sem jeg hefi ekki ákært. Jeg þekki mennina ekkert, og hefir mjer aldrei dottið í hug að koma með slíkar dylgjur í þeirra garð. Það, sem jeg sagði í dag og vildi leggja áherslu á, það er, að þeir eru viðskiftamenn stóru fjelaganna, og þessvegna væri ekki rjett að skylda hið opinbera til þess að nota þá. Jeg hjelt, að hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) ætti að minsta kosti að vita það, að ekki er það siður nokkursstaðar, ef fara á í mál við stofnun, að snúa sjer til málaflutningsmanns hennar eða manns, sem stendur í þjónustu hennar. Hjer er að ræða um menn, sem standa í þjónustu stærri fyrirtækja, og því er það ekki aðeins ekki rjett, heldur beinlínis rangt, að skylda hið opinbera til að snúa sjer sjerstaklega til þessara endurskoðenda. Það er sagt, að endurskoðunin eigi að vera „röksamleg“. Jeg býst við, að það þýði lítið. Það virðist liggja í hlutarins eðli, að hún eigi ekki að vera neitt kák, hver sem framkvæmir hana. Enda verð jeg að halda, að dómendur landsins muni yfirleitt endurskoða röksamlega skjöl þrotabúa. Sem sagt, það er einkum ákvæðið í 5. gr., sem jeg tel algerlega ófært.

Jeg var dálítið hlessa á, að hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) skyldi kasta að mjer persónulegum hnútum. Jeg veit ekki til, að jeg hafi sagt eitt einasta skakt orð til hans nokkru sinni. Hann vildi gera lítið úr mjer, en hefja annan mann upp úr skýjunum. Jeg skal ekki draga úr því hóli, en jeg verð þó að segja, að jeg þykist hafa betra vit á þessu máli en hv. þm. Dala. (BJ). Jeg býst og við, að hv. þm. (ÁJ) geti lítið borið um kunnáttu mína á þessu sviði og því síður kunnáttu hv. þm. Dala. Hann mun vera því hvorutveggja jafnókunnugur.

Hv. þm. (ÁJ) endaði með að segja, að hann hefði ekki fundið neinn botn í minni ræðu. Jeg get vel hugsað, að svo hafi verið, því að honum var svo mikið í skapi, að honum mun hafa reynst erfitt að hlusta á hana með jafnaðargeði. En jeg vil skjóta öðru að hv. þm., því, hvort hann hafi nokkurntíma fundið eða finni botn í sjálfum sjer?