28.02.1925
Neðri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í C-deild Alþingistíðinda. (2816)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Pjetur Ottesen:

Háttv. 1. þm. Árn. (MT) hefir lagst mjög á móti þeirri breytingu, sem hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) hefir lagt til, að gerð yrði á lögum um bæjarstjórn í Hafnarfirði, og sem rætt hefir verið um nú um hríð. Sú breyting gengur sem sje í þá átt, að Hafnfirðingar fái samskonar heimild og Reykjavíkurbær fjekk í fyrra, til þess að leggja aukaútsvör á menn, sem eru lögskráðir á skip, sem stunda fiskiveiðar frá Hafnarfirði.

Það hefir verið bent á, að brtt. hv. 1. þm. Arn. (MT) við þetta frv. sje engin úrlausn fyrir Hafnarfjörð, því samkvæmt þeim breytingum veitist Hafnfirðingum einungis heimild til að leggja útsvör á útlenda menn, sem á skipum eru, sem gerð eru út þaðan, og auk þess á menn, sem kynni að komast upp um, að ættu hvergi lögheimili. Geri jeg nú ekki ráð fyrir, að byggja megi mikil útgjöld á þeim tekjum, og nær því þessi breyting hv. þm. harla skamt til þess að samræma löggjöf þessara kaupstaða, hvað þetta snertir.

Nú vil jeg spyrja hv. 1. þm. Árn. (MT) um það, hvort það sje meining hans, ef brtt. verður samþ., að koma sjálfur fram með frv. um að fella úr gildi þessa heimild, sem Reykjavík nú hefir? Jeg skildi andmæli hv. þm. gegn þessari breytingu þannig, að hann teldi þetta ákvæði, sem komst inn í lögin um bæjargjöld Reykjavíkur í fyrra, ósanngjarnt, og því bæri frekar að færa þetta í rjett horf en halda lengra áfram á þessari braut, sem mörgum virðist nú koma saman um, að sje ekki heppileg.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, að eiginlega hefðu sveitahjeruðin átt upptökin að öllum þessum eltingaleik, sem á er kominn um það, að ná útsvörum af einstökum mönnum og atvinnurekstri víðsvegar um landið.

Jeg hefi nú síðan áðan verið að athuga þær breytingar, sem gerðar hafa verð í sveitarstjórnarlögum síðan 1905, að því er útsvarsskylduna snertir. Þær breytingar bera það með sjer, að þetta er alveg öfugt hjá hv. 2. þm. Reykv. Forgönguna í því, að færa útsvarsskylduna út, hafa kaupstaðirnir sjerstaklega haft. Þær breytingar í þessu efni, sem hafa verið gerðar með hagsmuni sveitanna fyrir augum, hafa komið á eftir aukinni útsvarsskyldu í kaupstöðunum, til þess að koma á nokkru jafnvægi milli sveita og kaupstaða í þessu efni. Ef hægt er að segja, að kaupstaðirnir og sveitirnar sjeu að togast á, er það því deginum ljósara, að sveitirnar hafa verið dregnar út í þann leik, en alls ekki átt upptökin að honum.