02.03.1925
Neðri deild: 23. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í C-deild Alþingistíðinda. (2873)

70. mál, tilbúinn áburður

Jón Sigurðsson:

Jeg veit ekki, hvort jeg fæ tækifæri til að tala við nefnd þá, sem mál þetta fær til athugunar, en vil einungis skjóta til hennar nokkrum bendingum, til athugunar. Jeg get ekki sagt annað en að málið sje merkilegt, þar sem áburðarskortur hefir verið aðalhemill á framkvæmdum í jarðrækt, og það er vanaviðkvæðið hjá bændum, er þeir hafa verið spurðir um, hvað valdi vanrækslu í jarðrækt, að það sje áburðarskortur. Enda er það víst, að þegar áburð vantar, þýðir ekki að hugsa um ræktun. Jeg vil benda á, að með nágrannaþjóð vorri, Dönum, hefir bændum verið trygður ósvikinn og ódýr áburður, og hefir sjerstakur fjelagsskapur þann starfa með höndum. En svo háttar hjá okkur, að samskonar fjelagsskapur verður að hafa með höndum ýms önnur óskyld störf. Álít jeg best, að Búnaðarfjelag Íslands hafi málið með höndum, þótt það skorti rekstrarfje á við áburðarfjelögin dönsku. Best væri, að Búnaðarfjelag Íslands tæki að sjer málið, og að því yrði árlega veitt fje til þess úr viðlagasjóði, annaðhvort með lágum rentum eða vaxtalaust. Þetta er miklu eðlilegri leið en að fara með málið beint til stjórnarinnar. Kost tel jeg það, að varan verður ódýrari eftir frv., einkum ef Esja fengist til að flytja vöruna annaðhvort frítt eða fyrir lítið gjald.