08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í C-deild Alþingistíðinda. (2943)

95. mál, kynbætur hesta

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Með því að það er orðinn helsti naumur tími til að koma málum fram hjer í þinginu að þessu sinni, vildi jeg láta þess getið, að landbn. er umhugað um, að þetta frv. nái fram að ganga, ef unt er; en það, sem um hitt er að segja, hversvegna þetta mál hefir dregist svo lengi hjá nefndinni, hefi jeg þegar sagt í öðru sambandi, og tel því áður gerða fullkomna grein fyrir því.

Nefndin leggur nú til, að þetta frv. verði samþykt með nokkrum breytingum, og vil jeg þá strax snúa mjer að hinum einstöku gr. frv.

Þá er 1. brtt., sem nefndin leggur til, sú, að ný grein komi, sem verður 1. gr. frv. í þessari 1. gr. eru þau ákvæði, að bannað er að láta graðhesta ganga lausa, og er það eiginlega ekki annað en það, sem nú er í lögum, en nefndin álítur, að það eigi að vera aðalákvæði laga slíkra sem þessara, að það sje í 1. gr., eins og það er í lögunum frá 1917. Það er þá ekki meira um þessa brtt. nefndarinnar að segja, heldur en þetta, að það er fyrsta og fremsta atriðið, sem þarf að vera í þessum lögum.

Þá er 2. brtt. nefndarinnar, við 1. gr. frv., sem verður 2. gr. par eru ákvæðin nokkuð lík og er í 1. gr. frv., að þar sem ekki eru hrossakynbótanefndir í einstökum hreppum innan hjeraða, samkv. samþ. um kynbætur hesta, eftir lögum frá 1891, þar verður að skipa slíka nefnd, eins og frv. ákveður, og hjer er aðalbreytingin frá 1. gr. sú, að frv. gerir ráð fyrir, að heimildarlögin um kynbætur hesta falli ekki úr gildi, þegar frv. verður að lögum, sökum þess, að frv. ákveður, að slík nefnd skuli vera í hverjum hreppi á landinu. En nefndin áleit, að margir hreppar vildu ekki missa það fyrirkomulag, sem nú er, enda væri ekkert unnið við það út af fyrir sig, jafnvel þó að einhverju leyti væri eitthvað farið að fyrnast yfir það, svo að ef þessi regla er vanrækt, þá mundi það ekki koma að neinu haldi, þótt ákveðið væri eitthvert annað fyrirkomulag til að skipa þessar nefndir; sama vanræksla gæti átt sjer stað fyrir það. Fyrirkomulagið getur komið að sama gagni, hvort sem það er eftir nýjum eða gömlum heimildum. Að öðru leyti er það um þessi ákvæði að segja, að ef hirðuleysi eða vanræksla ætti sjer stað, eins og nú þykir víða við brenna hjá nefndum, sem skipaðar eru eftir samþyktunum, þá eru önnur ákvæði frv. svo, að þau eiga að geta verið fullkomin lækning við þessu hirðuleysi, ef nokkur lækning getur komið til orða; það eru önnur ákvæði frv., sem eiga að tryggja það, að vanræksla geti ekki lengi átt sjer stað, án þess að fullar bætur komi fyrir.

þriðja brtt. nefndarinnar er við 2. gr. frv., og er aðallega um verksvið þessara kynbótanefnda. Aðalhlutverk þeirra ekki ákveðið nákvæmlega í lögum, og því ekki tekið hjer öðruvísi en í stórum dráttum, eða þau atriðin, sem mestu skifta; en í sambandi við þennan hluta greinarinnar er seinni málsgreinin; hún hljóðar aðeins um þá einu undanþágu frá þessu algerða banni, sem er í 1. gr. frv. Fyrsta atriði frv. er, eða á að vera, að áliti nefndarinnar, algert bann, nema aðeins með þessari einu undanþágu, að ef hrossakynbótanefnd hefir ákveðið, hverja hesta nota má sem kynbótahesta, þá getur hún leyft, að þessir hestar gangi lausir. Engin önnur undantekning á að vera heimil.

Þá kem jeg að 4. brtt.; hún er við 3. gr. frv. í henni eru fólgin viðbótarákvæði við frv., til þess að hægt verði að halda fullnaðarskipulagi á þessum umbótum. það er, að allir hestar, sem mega vera ógeltir, skulu vera merktir glöggu merki. En graðhesta, sem ekki hafa þetta merki, má fara með eins og óskilafje, selja þá án innlausnarfrests.

Þá kem jeg að 5. brtt. nefndarinnar. Hún er við 4. gr. frv. Hún ákveður, hvernig fara skuli með þá hesta, sem ganga lausir, hvenær þá skuli gelda o. s. frv. Og hver sá, sem sekur verður um vanrækslu í þessum efnum, er útlægur fjebótum, og skaðabótum, ef tjón hlýst af vanrækslunni.

Sjötta brtt. nefndarinnar er við 5. gr. Hún ákveður, hvernig fara skuli með þá hesta, sem kynbótanefnd hefir heimilað og merktir eru, ef þeir finnast gæslulausir, án heimildar. Þá má taka og setja í gæslu, en gera verður eigandanum aðvart, en ekki má selja hestinn, fyr en liðnar eru 6 vikur frá því, að hann var tekinn.

Við 6. gr. frv. er 7. brtt. nefndarinnar. Hún fjallar um sektir fyrir brot gegn lögum þessum. Er þar tekið upp það nýmæli, að helmingur sektarfjár skuli renna í sveitarsjóð, þar sem brotið verður uppvíst. Þykir þetta að mörgu leyti heppilegra ákvæði.

9. brtt. er aðeins orðabreyting; um hana þarf því ekki að fjölyrða.

10. brtt. nefndarinnar er sú, að þar er ekki gert ráð fyrir að nema úr gildi heimildarlögin frá 1891, um kynbætur hesta, heldur lög frá 14. nóv. 1917 og önnur ákvæði, sem koma í bág við þessi lög.

Jeg held nú, að flest af því, sem fyrir flm. hefir vakað, komi fram í frv. þessu, ef brtt. nefndarinnar verða samþyktar. Með brtt. er við engu raskað, sem máli skiftir í frv. flm., eða því, sem talist getur aðalatriði.

Jeg vil svo að lokum leggja til, fyrir hönd nefndarinnar, að frv. verði samþykt með þeim breytingum, sem hún leggur til.