23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í C-deild Alþingistíðinda. (2956)

102. mál, mælitæki og vogaráhöld

Bjarni Jónsson:

Jeg kannast við það, að jeg varð dálítið hissa, þegar jeg heyrði, að jafnmætur maður og háttv. þm. Barð. (HK), er hefir svo gott vit á því, að meta verðgildi peninga, skyldi kalla það dýrt, þó það kostaði 40 kr. að senda vog til Reykjavíkur og fá hana lagaða. Jeg held, að ýmsir mætir menn í Flatey mundu telja þetta rjett og sjálfsagt, og alls ekki sjá eftir 40 kr. til þess að vogir þeirra megi vera sem rjettastar, svo að kaupmaður noti t. d. ekki hörðu reisluna, þegar inn er vegið, en hina línu, er hann vegur út. Í þessu efni á ekki að verja kaupmenn, heldur miklu fremur viðskiftamenn þeirra. Í hendur þeim mönnum, sem viðskiftin reka, eru lögð svo mikil völd, að miklu varðar, að fullkomið eftirlit sje með því haft, að rjettlátlega sje með þau farið. En mennirnir eru ekki eins góðir og þeir ættu að vera. (HK: Þetta má maður manni segja.) En jeg veit, að hv. þm. Barð. er svo mætur maður, að hann fylgir máli þessu fyrst og fremst í nefnd og síðan til fullrar samþyktar. (HK: Nei!) Þótt hv. þm. (HK) sje ekki enn samþ. frv., þá er hann að vísu hingað kominn til þess að sannfærast.