08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í C-deild Alþingistíðinda. (3005)

125. mál, sauðfjárbaðanir

Hákon Kristófersson:

Jeg vildi aðeins mótmæla þeim ummælum hv. þm. Dala. (BJ), að þessari böðun, sem kölluð er þrifaböðun, hafi verið þrengt upp á bændur. Jeg hygg, að það fylgdi einmitt með dálítið vel framkvæmdri þrifaböðun, að vinna að því, að fjárkláðinn yrði gerður útlægur. Það er alveg rjett, sem hv. þm. Dala. (BJ) tók fram, að það hafa verið margar óskir um það, að mega nota þetta Coopers baðlyf, og jeg er einn þeirra, sem álít það vel nothæft. En að menn óska að mega nota það, kemur af því, að það er ódýrara en þó maurdrepandi. En eftir að jeg hefi notað þetta innlenda baðlyf, verð jeg að segja það, að jeg sje enga ástæðu til að vera óánægður, þó jeg um leið verði að geta þess, að það er miklum mun dýrara, og jeg býst þessvegna við, að þessar almennu óskir stafi nokkuð af því; líka gátu menn áður notað hvaða baðlyf sem var, en þessi breyting kom á aðeins af því, að talið var nauðsynlegt að nota þrifabað. Jeg vil ekki bregða fæti fyrir frv., en það sjá allir, að það getur ekki náð fram að ganga nú. Annars sje jeg ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta að þessu sinni.