16.02.1925
Efri deild: 7. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í C-deild Alþingistíðinda. (3014)

42. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Flm. (Jónas Jónsson):

Þetta mál er ekki nýtt hjer í þessari hv. þingdeild. Fyrir tveimur árum síðan fluttum við hv. 2. landsk. þm. (SJ) og jeg það hjer í deildinni. Í það sinn lauk þessu máli svo, að stjórninni var falið að undirbúa það og rannsaka alt það, er þar að lyti, og það hefir stjórnin ef til vill gert, þó að þingið hafi lítið um það frjett. En hvað um það, þá þykist jeg þess fullvís, að hæstv. núverandi forsrh. (JM) sje þessu máli hlyntur og muni gera sitt til að hrinda því áleiðis. Jeg veit þetta af því, að hann fyrir landsins hönd hefir þegið gjöf til styrktar þessu máli, og hann hefir því fyrir sitt leyti skorið úr þeirri deilu, sem um það hefir risið, innan þings sem utan, hvort gjafabrjef Herdísar Benedictsen sje nokkuð því til fyrirstöðu, að nota megi þann sjóð til skóla á Staðarfelli. Jeg get því eigi öðru trúað en hæstv. forsrh. (JM) sje þessu máli stórlega hlyntur, jafnvel þótt það sje jeg, sem nú ber það fram hjer í deildinni.

Það er alkunna, að ýmsar stofnanir til sjermentunar karlmönnum eru til í landinu, en litt hefir verið til þessa hirt um að koma á fót sjermentastofnunum fyrir kvenfólk, sem þó hafa jafnan rjett og eigi síður þörf til sjermentunar en karlmenn. Það hefir lítið verið gert í þessa átt annað en að starfrækja deild með húsmæðrakenslu, og í litlum stíl þó, við kvennaskólann í Rvík, sem á engan hátt getur fullnægt öllum húsmæðrum eða húsmæðraefnum á landinu. Af stjfrv. því um kvennaskóla í Rvík, sem nýlega hefir verið hjer til 1. umr. í þessari hv. deild, verður eigi sjeð, að neitt sje í ráði að stækka húsmæðradeildina eða auka þá kenslu við kvennaskólann hjer. Jeg held þess vegna, að það sje algert rjettlætismál að stofna þennan skóla að Staðarfelli, og ekki nema sanngjarnt gagnvart húsmæðrum landsins, að hann taki sem allra fyrst til starfa. Það hefir víða brytt á þeirri skoðun, jafnvel í þinginu, að eigi mætti stofna þennan skóla að Staðarfelli að svo stöddu, vegna þess, að skóli norðanlands ætti að ganga fyrir, er búið væri þegar að samþykkja lög um stofnsetningu hans. Norðurlandsskólinn ætti að ganga fyrir skólanum að Staðarfelli. En jeg get fyrir mitt leyti alls ekki fallist á þessa skoðun, og þó jeg að sjálfsögðu vilji á engan hátt tefja fyrir því máli, nje stuðla til þess, að það fyrirheit verði ekki efnt, álít jeg þó, að Staðarfellsskólinn hljóti að koma fyr en skóli á Norðurlandi. Norðlendingar hafa ennþá of lítið fje til umráða til þessa fyrirhugaða skóla þar, en þarna á Vesturlandi er þegar fengin stór og góð jörð fyrir skólasetur og auk þess mikið fje í sjóðinn til styrktar skólanum, sem jeg álít sjálfsagt að nota til þess, sem það var ætlað. Staðarfellsskólinn á því að mínu áliti að ganga fyrir og komast sem allra fyrst á fót, enda þótt ekki sje hægt að svo stöddu að stofnsetja norðlenska skólann, þar sem vantar hús og jörð.

Mjer er kunnugt um, að nú er úr ýmsum áttum ýtt á eftir um framkvæmdir í máli þessu. Vil jeg geta hins helsta: 1) Áskorun mjög almenna frá konum í Dalasýslu, en ekki er mjer fullkunnugt um kröfur þær, sem þar eru gerðar. 2) Gefandi Staðarfells er nú staddur hjer á búnaðarþingi, og má því máske vænta, að þessu máli verði hreyft þar, og má búast við áskorun úr þeirri átt. 3) Önnur áskorun úr Dalasýslu, sem nýlega hefir verið lesin úr forsetastóli hjer í þinginu.

Jeg tek það aftur fram, að Norðurlandsskólinn getur alls ekki orðið Þrándur í Götu þessa máls, nje að gjafabrjef Herdísar Benedictsen sje því til fyrirstöðu, að sjóðinn megi nota til Staðarfellsskólans. Og þó að stjórnin vildi auka við hússtjórnardeild kvennaskólans í Rvík, þá er það engin hindrun, því að þörfin fyrir þessa skóla er svo brýn. Í öðru lagi mega skólarnir vel vera tveir, annar sniðinn eftir þörfum bæjarbúa, en hinn fyrir sveitirnar og samkvæmt kröfum þeirra, sem þar búa. Jeg veit, að þessu hefir þegar verið mótmælt og verður ef til vill hjer í þessari hv. deild, en nú vita allir, að menn lifa við mjög ólík kjör í bæjum og sveitum og því er betra, að hafa skólana fleiri og miða kensluna við þarfir hinna ýmsu stjetta.

Það kann að vera, að sumum hv. þm. þyki undarlegt, að jeg hefi í frv. minst á fræðslu um skipulag sveitabæja. Má vera, að ósennilegt þyki, að kenslukonur sjeu alment fróðar um það, er lýtur að byggingum. En jeg geri þó ráð fyrir, að hver sæmileg forstöðukona sje fær um að leiðbeina um alt það, er viðvíkur herbergjaskipun, húsgögnum o. s. frv. Auk þess hefir landsstjórnin tvo ráðunauta í þessum fræðum, og ætti að mega ætla þeim að halda þar fyrirlestra, ef svo ber undir, til leiðbeiningar nemendunum í þeim efnum, sem kenslukonurnar bera minna skyn á. Kvenfólkið þarf líka að bera skyn á heimilisprýði og hið einfaldasta um holla og heppilega húsagerð. Jeg býst við, að því verði haldið fram, að nokkurn kostnað myndi leiða af breytingunni, og verður hann óhjákvæmilega einhver. Jeg hefi í frv. farið eins lágt og hægt er. Meðal annars geri jeg ekki ráð fyrir nema hálfri áhöfn á jörðinni fyrst um sinn. Þetta er aðeins gert í sparnaðarskyni, en jeg hygg, að það komi ekki að sök, þó ekki sje lengra farið, að minsta kosti ekki um sauðfjáráhöfnina. Sömuleiðis er ekki gert ráð fyrir húsaauka; álít jeg þess ekki þurfa.

En altaf, þegar íbúðarhúsi er breytt í skólahús, eru ýmsar breytingar óhjákvæmilegar um herbergjaskipun. Einnig þarf að kaupa margskonar áhöld. Í því efni leyfi jeg mjer að stinga upp á, að eitt skifti fyrir öll verði veittar 8 þús. kr.

Að síðustu vildi jeg segja nokkur orð út af mótmælum frá nábúum Dalamanna, vissum mönnum í Snæfellsnessýslu og Barðastrandarsýslu, gegn því, að skólinn byrjaði á Staðarfelli. Jeg býst við, að það sje afsakanlegt — svona frá almennu sjónarmiði — að menn í þessum sýslum taki þannig á málinu. En litlu skiftir, hvar skólinn er, að því leyti, að engir aðrir hafa beint gagn af honum en þeir, sem þangað koma til náms. Kostnaður myndi sjálfsagt ekki verða minni í þessum tveim sýslum. Og um leið og núverandi hæstv. forsrh. (JM) tók við Staðarfellsgjöfinni, hefir hann í raun og veru skuldbundið landið til að láta skólann standa einmitt þar, annars hefði ekki verið hægt að taka við gjöfinni. Verð jeg þessvegna að álíta, að eftir atvikum hljóti sú hlið málsins að vera útkljáð. Ef Barðstrendingar og Snæfellingar sjá átsæðu til að vera á móti málinu, getur það ekki leitt af sjer annað en drátt á því, sem hlýtur þó síðar að koma fram.

Jeg get hugsað mjer það, að við frekari meðferð málsins komi fram verulegar eðlisbreytingar, t. d. að skólinn yrði rekinn fyrst sem einkafyrirtæki; en að þessu sinni vil jeg ekki fara út í þá sálma. Aðalatriðið mundi lítið breytast fyrir þetta; landið yrði að leggja eitthvað til fyrst, hvort heldur væri.

Ef hv. deild þykir þess vert, að láta málið halda gangi sínum gegnum þingið, er eðlilegast að vísa því til háttv. mentamálanefndar.