19.03.1925
Efri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í C-deild Alþingistíðinda. (3023)

83. mál, byggingar og landnámssjóður

Flm. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. er komið inn í deildina fyrir nokkru. En með því að sumir hv. þingdeildarmenn voru þá veikir, en jeg kaus, að sem flestir þeirra gætu verið viðstaddir, er það kæmi til umræðu, þá hefir málið ekki verið tekið á dagskrá fyr en í dag.

Áður en jeg vík að aðalefni þessa frv., þá vildi jeg segja fáein orð alment um málið. Eins og kunnugt er, þá var árið sem leið hið mesta veltiár við sjávarsíðuna, sem sögur fara af. Eftir því sem ráða má af skýrslum um útflutning, þá má gera ráð fyrir því, að Reykjavík ein hafi haft ca. 20 miljónir króna í tekjur umfram það, sein gerist í meðalári. Þetta er að vísu óvenjulegt, en það sýnir samt, að sá skriður er nú kominn á atvinnurekstur hjer, að miklu meiri fjárhæðir safnast á hendur einstakra manna en áður hefir átt sjer stað.

Þessi vaxandi fjárhagslegi máttur í landinu er sjálfsagt alment ánægjuefni manna. En þó að sagt sje frá þessum gróða, er ekki nema hálfsögð saga. Yfirstandandi ár byrjaði nokkuð öðruvísi en hitt. Sjórinn, sem gaf svo mikið á síðasta ári, hefir nú tekið um 150 manns, flesta á besta aldursskeiði, á fyrstu mánuðum þessa árs. Á einum degi, að því er menn álíta, hafa farist um 70 manns af tveim skipum. Jeg ætla ekki að meta þetta manntjón til peninga. Það er ákaflega mikið, því mannslífið er dýrt. En til þess að gefa dálitla hugmynd um það, bið jeg menn að setja sjer fyrir sjónir það tilfelli, ef allir karlmenn, t. d. í Langadal í Húnavatnssýslu, eða í Staðarsveit á Snæfellsnesi, eða Fljótshlið lægju dauðir í hvílum sínum sama morguninn. Mönnum gengur ef til vill betur að gera sjer grein fyrir því ógnartjóni, sem hjer er orðið, ef þeir hugsa sjer stórar, blómlegar sveitir, svo sem þær, er jeg nefndi nú, eyddar af þeim mönnum, sem vinna fyrir heimilunum, eru fyrirvinna, svo eftir væru ekkjur, börn og gamalmenni. Þetta er að því leyti alvarlegt, og kemur við því máli, sem hjer liggur fyrir, að um leið og litið er á gróðann af sjávarútveginum, þá verður líka að gera sjer grein fyrir því ógnartjóni, sem hann hefir oft í för með sjer.

Frv. þetta er fram komið til þess að draga úr þeirri hættu, að bygðin þynnist eða eyðist í sveitum landsins, vegna þess að fólkið streymi þaðan til verstöðvanna, af ástæðum, sem unt er að gera við. Menn hugsa sem svo, að ef ekki eru reiknuð með þessi stóru slys og það miljónatap, sem þeim fylgir, þá sje alt gott. Þeir sætta sig við þá tilhugsun, að allur þorri þjóðarinnar verði öreigar í sjóþorpunum. Sumir halda líka, að fiskimiðin muni altaf halda áfram að vera jafnrík í framtíðinni. Að vísu er ekki hægt að færa neinar stærðfræðlegar sannanir fyrir því, að aflinn hjer við land muni ganga til þurðar. En það má ráða það af líkum. Benda má á, hversu hvalir hafa eyðst í norðurhöfum, og selirnir hafa flúið lengra og lengra norður í ísa og óbygðir heimsskautalandanna, hversu fiskimiðin í Norðursjó hafa gengið til þurðar, þar sem mest hefir verið veitt og best veiðarfæri lengi notuð. Og meira að segja hjer við land hefir veiðin haft sýnileg áhrif. Þannig breyttist fiskigangan á stríðsárunum, þegar lítið var um útlend fiskiveiðaskip og jafnvel innlend líka, þannig, að fiskur varð miklu meiri á grunnmiðum en áður, og síðan er því full ástæða til þess að óttast það, ef mikið verður veitt, að sjórinn hætti að gefa þá björg, sem hann gefur nú. Og sje þá sjávarútvegurinn orðinn höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar, þá verður ekki um annað að gera en að flýja land eða hverfa aftur til landnáms í sveitunum og taka upp aftur þá iðju, sem í meir en þúsund ár hefir verið bjargræði þjóðarinnar: landbúnaðinn. En nú er svo komið, að ekki mun líða langt þangað til segja má um sumar sveitir, að varla geti heitið, að þar sje rekinn búskapur, ef svo heldur áfram sem við horfir. Frv. mitt gerir ráð fyrir, að þjóðfjelagið hjálpi til að stækka og bæta gömul býli og reisa ný, þar sem skilyrði leyfa.

Frá mínu sjónarmiði er það hin mesta nauðsyn fyrir þjóðina, ef hægt væri að reisa slík nýbýli, því að aukin ræktun landsins getur haldið þjóðinni við og bætt henni að nokkru leyti þá þurkun fiskimiðanna, er stafar af rányrkjunni núverandi. Þar mun um síðir koma að syndagjöldunum. Fyrst eyðist sveitin, og síðan eyðist dáðmagn bæjanna. Sú þjóð, sem eyðileggur land sitt, er sjálf dauðadæmd. Menn vita, að hnignun Grikkja stafaði af því, að fólkið streymdi til bæjanna, og fyrsta Evrópustórveldið, Rómaríki, leið undir lok vegna þess, að sveitirnar urðu undir í samkepninni við borgirnar, en síðan úrkynjaðist borgarmúgurinn. Má sjá þess merki enn þann dag í dag. Hnignunin í Grikklandi og Ítalíu kom meðal annars fram í því, að skógunum var eytt, og hvorki þar í landi nje í Grikklandi hefir tekist að rækta landið upp aftur. Í hvert skifti sem jeg fer yfir England með járnbraut, kemur mjer til hugar, að í eyðing enskra sveita sje fólgið banamein heimsveldisins breska. Danmörk er hið best ræktaða land, og þar er líka styrkust sveitamenning, sem til er í Evrópu. Jeg hygg það fullsannað með reynslu allra menningarþjóða, að sú þjóð, sem á enga sveit eða dugandi bændastjett, sje dauðadæmd. Það getur verið, að bændalaus þjóð geti blómgast um stund, en það verður skammgóður vermir.

Jeg get ímyndað mjer, að háttv. þingdeildarmenn muni segja sem svo, að löggjafarvaldið hafi ekki rjett til þess að jafna skinnaleik atvinnusamkepninnar. Þeim mun finnast ósanngjarnt, að efnamenn í Reykjavík styðji að því, að fjölga nýbýlum í sveitum landsins. En hingað til hefir reglan einmitt verið sú, að þegar einhver stjett þjóðfjelagsins er í hættu stödd, verði hinn hluti þjóðarinnar að koma til. Á Alþingi 1921 var það ákveðið, með góðu samkomulagi allra, að ríkið gengi í ábyrgð fyrir togarafjelög, sem voru illa stödd. Man jeg ekki til þess, að einn einasti fulltrúi sveitanna hefði neitt á móti því. Um sama leyti voru verslunar- og útvegsstjettir landsins í mikilli fjárkreppu. Hvað gerði landið þá? Þingið gaf þáverandi landsstjórn heimild til þess að taka 15 milj. króna lán, á ábyrgð allra landsmanna, sem nú bera okið af þeirri lántöku. Þannig hljóp sveitin í annað sinn undir bagga með þeim stjettum í bæjunum, sem samkvæmt þessu frumvarpi myndu greiða nokkuð mikið í byggingar- og landnámssjóðinn.

Þriðja dæmið í þessu efni eru berklavarnalögin. Jeg hefi hjer í höndum skýrslu um það, að árið 1924 styrkti landið 664 berklaveika menn. Hefi jeg skilið landlækni svo, að það muni vera um 1 miljón króna, sem heimt var inn með sköttum og skyldum til þess að hjálpa þessum 664 mönnum. Berklavarnalögin eru einn vottur þess, að hinum sterkari í þjóðfjelaginu ber að hjálpa þeim veikari. Það mætti gera margt annað til gagns með einni miljón króna, svo sem að leggja fjeð í vegagerð eða aðrar alþjóðlegar umbætur, og láta þessa 664 menn sigla sinn eigin sjó. En nú er ekki sá andi uppi, heldur hitt, að reyna að lækna eins marga og hægt er af þeim, sem fá þennan þungbæra og hættulega sjúkdóm.

Jeg vil enn nefna tvö dæmi um þetta samræmi milli atvinnuveganna. Í fyrra var talsvert rætt um það, hvort ekki væri rjett að sætta sig við það, þótt kjötmarkaðurinn lokaðist í Noregi fyrir íslenskum bændum, til þess að útiloka norska útgerðarmenn hjer. Er og öllum vitanlegt, að þetta var ekki aðeins lauslegt umtal, því að frv. kom fram um þetta frá stjórninni, og var því útbýtt sem handriti meðal þingmanna í fyrra. Var þar farið fram á, að ef norski kjötmarkaðurinn lokaðist, yrði lagt sjerstakt gjald á sjávarafurðir, til þess að bændum yrði bætt það tjón, er þeir kynni að verða fyrir. Efast jeg ekki um það, að hefðu Norðmenn ekki látið undan að nokkru, þá hefðum við nú búið við þessi kjör. Formaður Fiskifjelagsins hefir sagt, að þetta hefði verið búhnykkur fyrir landið, og ekkert á móti því að eyðileggja kjötmarkaðinn í Noregi, til þess að losna við norska útgerðarmenn. Útveginum væri miklu betra að losna við samkepni Norðmanna hjer, þótt bæta yrði bændum upp lækkað kjötverð með sjerstökum útflutningstolli á sjávarafurðir. Þessar umræður og aðgerðir sanna, að mikill hluti núverandi Alþingis lítur þannig á, að þessi samábyrgð eigi að vera milli atvinnuveganna.

Þá vil jeg minnast á jarðræktarlögin, sem nú eru nokkurra missera gömul. Þau eru undirbúin af Búnaðarfjelaginu og borin fram af landbúnaðarnefnd hv. Nd. par er gert ráð fyrir því, að þjóðfjelagið eigi að borga töluverða upphæð á hverju ári til jarðabóta í sveitum með fje úr landssjóði.

Þessi atriði sýna, að nóg eru fordæmin fyrir því, sem hjer er farið fram á, að færa til fjármagn í þjóðfjelaginu, þannig, að það sje heildinni fyrir bestu. Hygg jeg, að engu þessu máli sje svo háttað, að um sníkjur hafi þótt vera að ræða. Það er ekki litið á berklaveika sjúklinga sem þurfalinga. Þjóðin álítur, að það borgi sig að gera heilbrigðisráðstafanir og verjast veikindum. Ábyrgðin fyrir togarfjelögin var gerð til þess að gera þjóðina sterkari, og sama er að segja um enska lánið, hverjar sem afleiðingarnar kunna þar að verða. — Sama er og að segja um jarðræktarlögin, það sem þau ná, að þau eru tilraun til þess að færa til kraft, þjóðinni til styrks. Og síðan í fyrra, að tilboðið kom um það, að fórna kjötmarkaðinum fyrir betri aðstöðu við fiskiveiðarnar, er af útvegsmönnum viðurkend samábyrgð atvinnulífsins í landinu.

Þá vil jeg víkja að efni frv. þessa, eins og það liggur fyrir, og um leið taka fram, að jeg geri ráð fyrir, að þess verði ekki langt að biða, að þjóðin sannfærist um rjettlæti málsins. Aðalhugsun frv. er sú, að mikið af burtflutningi fólks úr sveitunum stafi af því, að ekki er hægt að fá hagkvæm lán í bönkunum til þess að búa til ný heimili í sveit, eða til bygginga á jörðum. Fólk, sem vex upp í sveit, vill ekki fastráða sig sem hjú. Það vill eiga sitt eigið heimili. Ábýlisjörðum hefir ekki fjölgað, og endirinn verður því sá, að þar, sem fyr voru hjón með nokkur börn og 3 vinnumenn og 3 vinnukonur, er nú viða ekki eftir af vinnandi fólki nema hjónin, eitthvað af stálpuðum börnum og dálítið af kaupafólki um hásumarið. Jarðirnar notast því ekki og ræktun þeirra fer aftur.

Eins og nú háttar, er óvíða hægt að fá vinnufólk. Annaðhvort verður því fólkið að vera fátt í sveitunum, eða fjölga verður heimilunum. Þar sem 2–3 systkini erfa jörð, verður að gera þeim kleift að færa út ræktunina og hyggja annaðhvort við gömlu bæina, eins og er nokkuð títt í Árnessýslu, eða þá að rækta 1–2 nýbýli, annarsstaðar í landeigninni. Það hefir verið reynt nokkuð í Þingeyjarsýslu.

Þriðja leiðin er sú, að mynda sveitabygð við kauptúnin, garðaborgir, þar sem bæjamenn dreifa heimilum sínum um nágrennið og rækta hver sinn landskika. Jeg geri ráð fyrir, að slíkir menn geti fengið lán úr byggingar- og land- námssjóði. Það er því ekki rjett að segja um frv., að það styðji eingöngu sveitirnar, heldur alla, er lands vilja njóta. Í Vestmannaeyjum má t. d. rækta miklu meira en nú er. Einnig ætti að rækta upp hjer í kringum bæinn og koma upp býlum fyrir sjómannafjölskyldur, þar sem þær geti líka stuðst við landbúnað. Vil jeg í því sambandi minna á hina miklu mannskaða, sem hjer urðu í vetur. Er nú þröngt í búi hjá mörgum eftirlifandi vandamönnum, og munu varla bornar brigður á, að betur væru ekkjurnar stæðar, ef þær hefðu haft aðgang að ræktuðu landi í nánd við bæinn.

Nú gætu ókunnugir spurt, hversvegna ekki sje hægt að koma upp nýbýlum og byggja upp sveitabæi með venjulegum bankalánum. Því er svarað með aths. við frv. það er nauðsynlegt, að byggingarnar sjeu varanlegar, annaðhvort úr steini, eða þá grjóti og torfi á traustri undirstöðu, með járnþaki, svo að þau geti enst mannsöldrum saman. Vilji menn byggja slíka bæi nú, þá verða þeir mjög dýrir. Við vitum um Mælifellshúsið, það kostaði yfir 40 þús. kr. Annað nýbygt steinhús á Mosfelli í Árnessýslu kostaði 20 þús. kr., og er þó ekki nema hæfileg íbúð fyrir eina fjölskyldu. Góðir meðalbæir úr steini kosta nú um 20 þús.kr. Er þetta því vandamál og erfitt viðfangs. Og þótt kotbæir kosti ekki nema 10–12 þús. kr., verða rentur og afborganir af því 1500–2000 kr. á ári. Búskapurinn getur ekki borið það. Þessvegna eru allir, sem um málið hugsa, ásáttir um það, að ef slept er efnaheimilum, þá geti engir þeir, sem byggja fyrir lánað fje, greitt nema með sjerstaklega heppilegum kjörum.

Frv. byggir á þessum staðreyndum: þörfinni fyrir byggingar í sveitum, hinum mikla kostnaði, sem er við varanlegar byggingar, og nauðsyninni, að geta útvegað nógu ódýrt fjármagn til að rækta nýtt land og fjölga heilsusamlegum heimilum. Vitaskuld er gert ráð fyrir því, að margir bændur geta bygt varanlega, án sjerstakra lánskjara. En hvað margir eru þeir, sem ekki geta hugsað til að byggja, þótt þeir hafi þess sára þörf? Hve mörg eru þau sveitaheimili, þar sem ekkert hefir verið bygt síðan 1914? En þeim, sem kynnu að vilja telja þetta óhóf og eyðslu, vil jeg benda á, að allir læknar, sem fást við berklaveiki eða starfa að berklavörnum á einhvern hátt, telja hin vondu húsakynni almennings eina af aðalorsökum og uppsprettum veikinnar. Þá vil jeg og benda á það, hvort rjettara sje að verja yfir heilli miljón króna árlega til styrktar berklaveiku fólki, en láta kofana standa, sem eru gróðrarstíur þessarar veiki? Það má hiklaust gera ráð fyrir, að tún, sem búið er að fullrækta, muni endurborga síðar þann höfuðstól margfaldlega, sem til ræktunarinnar hefir verið varið, enda þótt eigi megi vænta mikils arðs fyrstu árin, og það tel jeg víst, að nógu margir munu jafnan fást til að búa á jörðum, sem hafa nokkurt tún og eru sæmilega hýstar — hafa húsakynni, er mundu endast mörgum kynslóðum.

Þetta er það takmark, sem frv. stefnir að: auka og bæta hið ræktaða land, bæta gömul húsakynni og reisa ný heimili, sem ekki mundu annars verða bygð, og efla þannig og styrkja atvinnulíf sveitanna, er býlunum fjölgar, svo að sveitirnar geti haldið áfram að vera grundvöllur hinnar þjóðlegu menningar, eins og þær hafa verið það undanfarið í hálfa elleftu öld.

Nú hefi jeg rakið meginatriði frv., en vil þá skýra lítið eitt aðra þætti þess, sem líka skifta nokkru máli. Jeg hefi gert ráð fyrir, að við byggingu húsa á gömlum býlum og við landnám og ræktun landsins verði stuðst við vinnuafl og fje heimilanna sjálfra — landnemanna, eftir því sem kostur er á, líkt og gert er erlendis, þar sem ný lönd eru numin eða nýbýli stofnuð og bygð lands og ræktun aukin, eins og t. d. Í Kanada, Ástralíu og víðar.

Væru landkostir eins góðir hjer eins og á þeim stöðum erlendis, er jeg nefndi, og veðrátta stöðugri, þyrfti ekki eins mikinn fjárstyrk í þessu skyni. En hjer er landið hrjóstrugt, tíðarfar eigi hið ákjósanlegasta, og því verður þjóðfjelagið að hjálpa landnemunum. Frv. þetta þarf eigi að mæta mótstöðu af því, að hjer sje verið að hvetja til að leggja inn á nýjar brautir, eða að engri reynslu sje á að byggja. Reynslan hefir þegar sýnt, að ræktun landsins borgar sig vel.

Það er orðið alvarlegt athugunarefni, hversu lítið hefir verið gert að húsabótum í sveitum hin síðustu undanfarin 10–12 ár. Fáein efnaheimili hafa bygt, en allur fjöldi heimilanna hefir staðið í stað eða hrakað. Þar sem jeg hefi farið um landið, sýnast mjer húsakynnin yfirleitt hafa staðið í stað síðan fyrir ófriðinn mikla. En búnaður okkar stendur ekki svo föstum fótum, að bændur yfirleitt þoli að bæta á sig 10–20 þús. kr. útgjöldum, og því verða búandmenn að láta gömlu kofana standa áfram, hversu hrörlegir sem þeir eru. Af þessu leiðir, að bújarðirnar verða óvistlegri með hverju ári, sem liður. Jeg skal benda á það, að í einu hjeraði hjer allnærri er á flestum bæjum engin eldavjel til. Í sama hjeraði vildi það til fyrir stuttu, að embættismaður var að flytja burtu. Konan hans fór á bæina í kring til að kveðja nágrannakonur sínar, sem verið höfðu. En hún sá sjer ekki annað fært en að hafa með sjer kaffi, sykur, brauð o. fl. til þess að leggja á borð með sjer, því að hún vissi, að kunningjakonum hennar mundi ekki falla vel, að geta ekki tekið á móti á þann hátt að bera henni kaffi, en það áttu þær ekki til, það vissi hún. Fátæktin var svo mikil. Jeg skal að vísu játa, að þetta var í óvenjulega fátækri og niðurníddri sveit, þar sem kaupfjelaganna hefir ekki enn notið við. En þetta dæmi bregður þó ljósi yfir ástandið, eins og það er í sumum hjeruðum hjer á landi.

En hvað viðvíkur því, sem jeg þykist vita, að margir vilji spyrja um, hvar eigi að taka peningana til þessa, þá held jeg, að vart sje um betri leið að ræða en hjer er farið fram á. Jeg tel víst, að margir fallist á þessa hugmynd mína í aðalatriðum, vilji auka ræktaða landið og fjölga býlunum, en sjá ekki, hvar eigi að fá fjeð til þess. Jeg hefi hugsað þetta mál allmikið, og fundið hliðstæðu í jarðræktarlögunum og berklavamalögunum. Það fje, eins og önnur venjuleg útgjöld landssjóðs, er tekið með einskonar nefsköttum, tollunum. En þeir eru orðnir nógu þungir, að flestum finst

Hjer á landi bera efnamennirnir tiltölulega langljettastar byrðar. Því fanst mjer, að hjá þeim yrði nú að bera niður. Að vísu hefði jeg heldur kosið að hafa þetta sem beinan tekjuskatt, auka tekjuskatt á háum tekjum. En það er nær ómögulegt að undirbúa frv. á þeim grundvelli, því að hjer eru engar opinberar skýrslur til, til þess að byggja á. Í þeim skýrslum, sem til eru, er líklegast framið lagabrot í því, að greina ekki tekjuskatt frá eignaskatti. þessu er öllu ruglað saman, og eru því engar ábyggilegar skýrslur til um efnahag manna. Jeg hefi gert ráð fyrir, að þessum skatti yrði jafnað niður á allar meiriháttar tekjur og eignir, á svipaðan hátt og gert er með útsvörin, þ. e. eftir efnum og ástæðum. Þetta verður að vera svo, meðan hagskýrslur eru ekki til; en við nánari athugun og þegar skýrslur fara að koma út, sem byggja má á, mætti eflaust breyta þessu, ef það sýndist þá hagkvæmara. Viðvíkjandi því, ef einhverjir vildu kalla slíkan skatt rán eða eignarnám, skal jeg geta þess, að í Englandi komst tekjuskatturinn á hæstu tekjum upp í 80% á stríðsárunum. Þannig hefir t. d. Zöllner stórkaupmaður í Newcastle sagt mjer, að hann hafi orðið að greiða um 80% í tekjuskatt á þeim árum, og datt engum í hug að nefna það eignarnám. Og það, sem Englendingar lögðu á sig til þess að vinna ófriðinn, til þess að verja fjör og frelsi, getum við verið þektir fyrir að gera til að viðhalda í góðu gengi þeim atvinnuvegi okkar, sem okkur hefir borið gegnum aldirnar.

Jeg hefi svo ekki fleira, sem jeg þarf að taka fram að þessu sinni. En jeg geri ráð fyrir, að ef þessi hv. þingdeild álítur málið þess vert, að láta það fara til annarar umræðu, þá verði því einnig vísað til nefndar, og yrði það þá annaðhvort fjvn. eða fjhn., og læt jeg yfir höfuð hæstv. forseta úrskurða um það, hvaða nefnd skuli taka við þessu frv.