13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (3149)

130. mál, útvegaskýrslur um kjör útvegsmanna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekki hafa á móti þessari till., en verð að taka það fram, að jeg mun fela Fiskifjelaginu að gera þessar rannsóknir, og það verður að sitja við þær upplýsingar, sem þetta fjelag útvegar, og það verður sömuleiðis að skera úr því, hverjar verða að teljast þessar helstu verstöðvar, sem till. nefnir; en annars vil jeg segja það, að það er náttúrlega ekki skylt þessum verstöðvaeigendum, og ekki heldur þessum útvegsmönnum, að láta af hendi þessa samninga, svo að ef þeir neita að gera það, þá er ekki hægt að knýja þá til þess. Það yrði því aðeins með samkomulagi, og jeg ætlast til þess, að Fiskifjelagið leiti þessa samkomulags. Að öðru leyti þarf jeg ekki að ræða um þetta. En út af því, sem hv. flm. (JBald) sagði um kvaðir, sem lagðar væri á aflann um kauprjett, þá verður erfitt að sporna við því, því að það er samningur, sem þessir menn gera um það, en það getur verið álitamál, hvort slíkir samningar sje heppilegir, en í því, að áskilinn er forkaupsrjettur, þarf ekki að liggja neitt óhagkvæmt fyrir samningsaðilja.

Jeg mun fela stjórn Fiskifjelagsins að leysa þetta starf af hendi og skoða svo, að með því sje fullnægt því, sem er tilætlunin hjá hv. flm.