11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (3185)

131. mál, steinolíuverslunin

Jónas Jónsson*):

Það hefir mikið verið rætt um steinolíueinkasöluna, en þó ekki svo, að af því megi sjá, hvernig þeir hafi litið á hana, sem komu henni á. En ef það er ætlun manna að kollvarpa öllu á einu kvöldi, sem unnið hefir verið að umbótum á steinolíuversluninni af Hannesi Hafstein og hans samherjum 1912, og því, sem Alþingi gefði 1917, og nálega öllu, sem gert hefir verið í þessu máli síðan, þá má ekki minna vera en að sagt sje frá því, hvað fyrir þeim vakti, sem fyrstir hófu baráttuna gegn útlenda valdinu, því sama sem nú er að teygja hjer klærnar inn aftur.

Vona jeg, að hæstv. forseti taki mjer það ekki illa upp, þó jeg lesi upp nokkur orð úr tillögum og ræðum sumra þeirra hv. þm., sem mest hafa um málið fjallað, því ýmislegt hefir hjer verið ósatt sagt frá um gang málsins frá byrjun.

þegar á þinginu 1912 kom lands stjórnin með frv. um steinolíuverslunina, sem að vísu náði ekki samþykki þingsins, en sýnir, að þá þegar var byrjuð viðleitni í þá átt að rísa móti ameríska steinolíuhringnum, og stóð Hannes Hafstein þar fremstur í flokki.

En þetta frv. líkaði ekki, svo sem sagt hefir verið, og komu þá þrír þm. með nýtt frv. til laga um einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu. Af flm. þessa frv. eiga tveir sæti hjer enn þá á þinginu, en einn er dáinn (Jón Ólafsson). Frv. þetta er merkilegt fyrir það, að það getur talist forganga þess, er síðar varð. Segir svo í 1. gr. frv.:

„Landsstjórninni veitist heimild til að kaupa svo mikla steinolíu, sem henni þurfa þykir til að birgja landið, og selja hana kaupmönnum og öðrum (kaupfjelögum, sveitarfjelögum o. s. frv.) fyrir það verð, er liðlega svari vöxtum og kostnaði“.

Seinna, meðan frv. þetta var í nefnd, kom annar þm., hv. 2. þm. G.-K. (BK), með brtt. um einkaleyfi handa Landsbankanum til að reka steinolíueinkasölu. Segir þar svo í 1. gr.:

„Landsbankanum veitist heimild til að kaupa svo mikið af steinolíu og öðrum efnum úr steinolíu, sem notuð eru sem aflvaki eða til lýsingar, sem hann álítur þurfa til að birgja landið, og selja hana kaupmönnum og öðrum í heildsölu, fyrir það verð, sem svarar innkaupsverði, kostnaði og hæfilegu álagi fyrir áhættuna“.

Gleður það mig sjerstaklega vegna hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), að samherjar hans og flokksbræður skyldu svo löngu á undan honum hafa komið auga á, að áhættukostnaðurinn hlýtur að verða lagður á steinolíuna. Og jeg efast ekki um, að þar hafi hv. 2. þm. G.-K. haft á rjettara að standa en hann. Og enn má geta þess, að annar hv. íhaldsmaður einn af flm. till. þeirrar, sem hjer er til umræðu nú, háttv. 1. þm. Rang. (EP), dregur það ekki í efa á þinginu 1912, að það geti farið saman, að varan lækki og landið græði á versluninni. Sömuleiðis má marka það af ræðum þessa háttv. þm. þá, að honum hefir verið fullljós kaupmannsgróði steinolíufjelagsins af olíunni. Getur hann þess, að árið áður hafi hluthöfum verið greiddur 145% arður og megi, eftir hækkun olíuverðsins að dæma, búast við, að hann komist upp í 200% á næsta ári. Og hann segir ennfremur, að það sje sannfæring sín „að landinu verði ekki bjargað úr klóm þessa útl. einokunarfjel. með öðru móti en þessu einu, að samþ. Þetta frv.“, nefnilega einkasölufrv. Má kalla, að því víki undarlega við, að sami maður skuli nú leggjast á sveif með þeim, er afnema vilja olíuverslun ríkisins, þar sem engin líkindi eru til annars en að sama okurfjelag, sem þá hafði hjer þessa verslun á hendi, taki hana aftur í sínar hendur, ef ríkið sleppir henni. Það á hjer enn þá ýmsar eignir, hús og girðingar og jafnvel góð ítök í blöðum, kostuðum af erlendu fje, til að tala máli sínu. En jeg hefi ekkert á móti því að láta hv. þm. heyra, hvernig einn af fhn. frv. 1912, Jón Ólafsson, lýsti ástandinu þá. Hann segir svo m. a.:

„Fleiri ástæður hafa heyrst fyrir hækkun þessari, hvað sem þar í er hæft. En sú líklegasta er sú, að fjelagið sje með þessu að láta Norðurálfuþjóðirnar, þær sem það hefir náð einokun hjá, borga kostnaðinn fyrir húsbónda sinn, Rockefeller gamla, sem nýlega var í hæstarjetti Bandaríkjanna dæmdur í 40 miljóna dollara sekt, auk málskostnaðar, fyrir óleyfileg einokunarsamtök í Bandaríkjunum. Því að Bandaríkin standa það framar öðrum ríkjum, þau hafa lög í landi hjá sjer, þau er banna einstaklingum og fjelögum að hafa einokunarfjelagsskap til samningasamtaka um að hindra frjálsa verslunarsamkepni og hækka vöruverð fram úr eðlilegu hófi. Steinolíufjelagið danska, sem kallar sig D. D. P. A. og Danir lesa úr: Det danske Petroleums Aktieselskab, en Íslendingar lesa úr: „Danskur djöfull Petroleums andskoti“, er ekki annað en einn angi af einokunarsamsteypufjelagi Rockefellers. Það hefir gert samninga við flestalla íslenska kaupmenn, þá er skuldbinda kaupmennina til að kaupa ekki steinolíu af neinum öðrum en fjelaginu. Fyrst mun það hafa byrjað á árlöngum samningi, svo fór það að gera samninga til fimm ára, og síðan mun það hafa farið að smálengja samningatímann, og er mælt, að síðustu samningar bindi kaupmenn við fjelagið í 40 ár.“ Slíkar og þvílíkar eru þá lýsingar samtíðarmanna fjelagsins. Og jeg býst líka við, að flestir, sem hafa nokkurn veginn óbrjálað minni, muni það óslökkvandi hatur, sem þjóðin bar til þessa fjelags, og þá rótgrónu fyrirlitningu, sem hún hafði á þeim Íslendingum, sem gerðust leppar þess og stungu í sinn vasa miklu af því, er þeim tókst að svæla út af landsmönnum. En nú á á ný að gefa mönnum kost á að ganga á mála hjá þessu sama einokunarfjelagi!

Nú líða nokkur ár uns aftur er gerð tilraun til að losa þjóðina úr þessum okurklóm. Eru þá nýir menn komnir til sögunnar, og ríða þeir á vaðið hæstv. núverandi forseti Nd. (BSv) og hv. núverandi 2. þm. Ám. (JörB). Bám þeir fram á þinginu 1917 frv. um steinolíueinkasölu, sem raunar varð ekki útrætt, en telja má grundvöllinn undir stjórnarfrv. á aðalþinginu sama ár. Þá skipuðu landsstjórnina 3 menn, sem allir eru á lífi, nefnilega hæstv. núverandi forsrh. (JM), hv. 2. þm. G.-K. (B K) og hv. 2. landsk. (SJ). Sá, sem lagði frv. fyrir þingið þá, var hv. 2. þm. G.-K. (BK). Vegna þess nú, að hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) og fleiri hv. þm. hafa orðið til að víta álagningu Landsverslunarinnar á steinolíu, jafnvel þó hún sje aðeins nokkrir aurar á tunnu, þá þætti mjer gaman að minna menn á, hvernig á þetta atriði var litið 1917. Í 3. gr. stjfrv. segir svo:

„Leggja skal árlega 6% á verð aðkeyptrar steinolíu með umbúðum og flutningskostnaði, sem að hálfu leyti renni í landssjóð, en að hálfu leyti í veltufjár og varasjóð steinolíuverslunarinnar.“

Ennfremur lætur stjórnin fylgja skynsamlega skýringu. Þar segir svo m. a.:

„Þar sem ætlast er til, að verslunin byrji algerlega með lánsfje, þykir bæði ótrygt og illa viðeigandi, að verslunin eigi safni sjer veltufje og fje til að standast tap.“

Þá segir stjórnin sömuleiðis:

„Gert er ráð fyrir, að ef landsstjórnin á annað borð tekur í sínar hendur alla steinolíuverslun landsins, þá muni sú verslun eign bráðlega verða lögð niður.“

Og í umræðunum segir hv. 2. þm. G.-K. (BK), en hann var þá fjrh., að „verslunin eigi að standa lengi.“ það verður því ljóst, hvernig menn hugsuðu sjer þetta 1917. Svo sterkur var þjóðarviljinn að baki þessara laga, að menn gerðu ráð fyrir, að stjórnarskifti gætu átt sjer stað, en skoðanaskifti alls ekki. Og það var til þess ætlast, að bygt væri þannig undir verslunina, að hún gæti safnað sjer eignum og veltufje og orðið sterk og langlíf. En nú er annað hljóð komið í strokkinn. Nú vill hæstv. fjrh. (JÞ) láta slátra gæsinni til að ná í eggið. Varasjóðurinn freistar hans svo mjög, og hann vill endilega hirða hann, þó hann á sama þingi leyfi sjer að bera fram frv., sem sviftir ríkið tekjum, sem nema um 600000 kr. á ári.

En það var ekki stjórnin ein 1917, sem leit svo á, að verslunin ætti að lifa lengi. Fjhn. hv. Nd., sem fyrst hafði mál þetta til meðferðar, komst að sömu niðurstöðu. í þeirri nefnd áttu sæti 5 menn, og 4 þeirra tilheyrðu stjórnarflokknum. Var hæstv. núverandi atvrh. (MG) formaður og framsögumaður nefndarinnar, en auk hans voru í henni hv. þm. V.-Húnv. (þórJ), hv. þm. Barð. (HK) og ennfremur þeir þorsteinn M. Jónsson og Gísli Sveinsson.

Nú eiga þessir fyrsttöldu þrír menn úr Íhaldsflokknum sæti hjer á þinginu, og veit jeg, að þeim muni vera ljúft að standa enn þá við skoðun sína í kvöld. Leyfi jeg mjer að lesa nokkrar línur úr áliti þeirra. Þar segir:

„Rjett þykir þó að taka það fram hjer, að nefndin er sammála um að leggja talsvert hærra gjald til landssjóðs á steinolíuna en frv. stjórnarinnar gerir ráð fyrir“.

Leggur nefndin til, að lagt sje 5 kr. gjald á hvert steinolíufat (150 kg.), sem renni að 3/4 hlutum til landssjóðs, en að 1/4 hlut í veltufjár- og varasjóð Landsverslunarinnar. Er þetta þá ein byssukúlan til í skjöld hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), og til að gleðja hann enn meir, skal jeg auk þessa leyfa mjer að lesa nokkur orð enn úr sama nál. þar segir:

„Þegar versluninni hefir safnast svo mikið veltufje, að nægi til að reka með verslunina skuldlaust, þá fellur gjald það, er ræðir um í 1. málsgr. þessarar gr., að öllu leyti í landssjóð“.

Má af þessu sjá, hvernig hæstv. atvrh. (MG) hefir litið á þetta mál 1917. Hann hefir hugsað svo langt fram í tímann, að hann ráðstafar arðinum, þegar svo er komið, að verslunin hefir safnað nægu veltufje. Hann hefir m. ö. o. ætlast til þess, að verslunin stæði lengi. Þetta sýnir ennfremur, að nefndin hefir ætlast til, að verslunin væri rekin með nokkrum ágóða, og hefir hæstv. atvrh. (MG) verið manna djarfastur í að álíta, að leggja mætti á olíuna, þó aðaltilgangurinn í hans augum, sem og annara, væri auðvitað sá, að bjarga olíuversluninni úr klóm hinna erlendu kúgara. — Stjfrv. gekk í gegn í hv. Nd., en var breytt nokkuð í hv. efri deild. Þannig að álagningin var færð niður, en sjálft skipulagið var látið halda sjer. Svo að menn nú að lokum sjái, að það voru engir byltingamenn, sem komu með frv. þetta inn í þingið, þá vil jeg leyfa mjer að lesa brot úr framsöguræðu þáverandi fjrh. (BK). Hann segir:

„Frv. segir sjálft til efnisins. Það felur í sjer heimild fyrir landsstjórnina til þess að taka að sjer alla steinolíuverslun landsins. Sennilega yrði þeirri verslun þá hagað svo, að landið ræki aðeins stórsölu. Auðvitað yrði þá um leið að setja hámarksverð á olíuna. Það mun engum dyljast, að hjer er um mjög umfangsmikið starf að ræða. En til þess að verslunin geti komið að fullum notum og varan orðið sem ódýrust, lítur stjórnin svo á, að gefa yrði versluninni nokkuð rúmt svið, svo að henni yrði hagað eftir því, sem arðsamast þykir, t. d. ef á þarf að halda með skipakaup, húsakaup o. s. frv. Þetta er gert til þess, að verslunin hafi sem óbundnastar hendur, svo að arðurinn lendi sem mestur hjá henni“.

Ennfremur segir þar:

„Stjórnin hefir nú sett hann (þ. e. skattinn) 6%, en auðvitað má altaf víkja því við, ef mönnum líst svo. Helst væri þá, að mönnum kynni að þykja þetta of lágt gjald“.

Nú mundi jeg vilja spyrja hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), hvort honum í raun og veru finnist ekki þessi 27 aur. álagning Landsverslunarinnar harla ómerkilegt atriði, eftir að hann hefir kynt sjer þessar umræður og skoðanir flokksbræðra sinna, eins og þær komu skýlaust fram á þinginu 1917.

Jeg vil segja það til hróss hv. 2. þm. G.-K. (BK), að í sömu ræðu hefir hann tekið fram annað, sem einmitt er í samræmi við álit sjálfs mín um olíugeyma. Hann segir þar, (með leyfi hæstv. forseta):

„Ennfremur geri jeg ráð fyrir því, að ekki verði komist hjá að setja upp olíugeyma hjer á landi“.

Hver kemur svo næst ? Hv. þm. N.-þ. (BSv) talar um, að við höfum lent í einokunarklóm og að ekki sje von á góðu, þar sem fjelag þetta sje angi af ameríska fjelaginu. Hann talar og um, hvernig fjelagið skuldbindi menn með samningum, og yfirleitt er vitnisburðurinn hinn hraklegasti. Litlu síðar segir þáverandi hæstv. fjrh. (BK) um verslunina: „Hún (þ. e. stjórnin) ætti að sjálfsögðu að semja sjálf. Þessa verslun á að standa lengi, og engin ástæða er til að ætla nokkrum manni hag af henni, ef til vill æfilangt, úr því að um einokun er hjer að ræða“.

Hann er þá orðinn svo stórhuga, að hann álítur, að minsta kosti í aðra röndina, að stjórnin gæti samið sjálf og ætlast til, að verslunin standi lengi, eins og honum gefst tækifæri til að sýna í kvöld, með því að greiða atkvæði á móti hinni vanhugsuðu tillögu hv. þm. Ísaf. (SigurjJ).

Þegar málið kom úr nefnd, vildi svo til, að sá maður, sem nú er æðstráðandi í einkasölunni, hæstv. atvrh. (MG), var framsögumaður. Hann segir í framsöguræðu sinni, að hann álíti, að steinolía sje vel fallin til að reyna einkasölu á henni og bætir við: „Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að landssjóður hafi töluverðar tekjur af einkasölunni. Fjelagið, sem steinolíusölu hefir haft hjer á landi, hefir þótt dýrselt og því verið óvinsælt. Það virðist líklegt, að landssjóður geti, með því að taka að sjer einkasöluna, bæði útvegað landsmönnum ódýrari steinolíu en verið hefir og aflað sjer nokkurra tekna“. Ennfremur segir hann þessi merkilegu orð: „Vjer vildum, að það kæmi skýrt fram, að þegar landsstjórnin væri búin að taka að sjer verslunina, þá hefði hún ekki heimild til að hætta sölunni án samþykkis Alþingis“. Þessi orð býst jeg við að hafi knúð hv. flm. til að bera tillöguna fram. Þeir hafa sjeð, að ætlast var til, að einkasalan stæði lengi.

Litlu síðar í umr. segir hv. þm. N.-Þ. (BSv), að ýmislegt mæli með því, að landsstjórnin fái þegar einkaheimild til innflutnings, þó að hún tæki ekki framkvæmdirnar strax í sínar hendur. Menn þorðu ekki að ráðast strax í framkvæmdirnar, af því að þeir vissu ekki, hvort landið væri þess megnugt að annast verslunina þegar að öllu leyti.

Nokkru síðar segir hv. frsm., núverandi hæstv. atvrh. (MG), þessi merkilegu orð: „ . . . Það er eins og hv. þm. V.-Ísf. (MÓ) tók fram, að það, sem rjettlætir einkasölu landssjóðs á hvaða vörum sem er, er það, að landssjóður geti haft tekjur af henni, og sje þessu grundvallaratriði kipt burt, eða tekjurnar gerðar mjög óverulegar, vil jeg heldur, að frv. sje hreint og beint felt“. Jeg vil spyrja hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), hvort hann hafi lesið þetta og athugað það, að yfirmaður Landsverslunarinnar hefir sagt þessi orð 1917, að hann vilji, að landið græði á einkasölunni, og hugsa jeg þá, að hann komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sje ósennilegt, að hans eigin stjórn eigi hjer hlut að máli og að þessir 27 aurar, sem hann telur lagða á olíuna í heimildarleysi, sjeu ef til vill þannig til komnir, að stjórnin og hæstv. atvrh. (MG) hafi ekki skift um skoðun.

Þegar málið kemur til Ed. á þessu sama þingi, kemur hv. núv. 1. landsk. (SE) til sögunnar. Hann er þar í nefnd, sem hefir málið til meðferðar, og reiknar út og kemst að þeirri niðurstöðu, að hefði gjald það, 4 kr., sem 3. gr. einkasölulaganna ákveður, að leggja skuli á hvert steinolíufat, verið lagt á steinolíu fyrir ófriðinn, hefði það numið að meðaltali 100 þús. kr. á ári, og síðan bætir hann við: „Líkindi eru til, að steinolíuflutningur muni aukast eftir ófriðinn, og ætti gjaldið þá að gefa nokkru meira af sjer. En þó að það næmi meiru, munu allir sjá, að hjer er ekki um mikinn skatt að ræða“. Þá hugsa jeg, að það muni ef til vill gera sumum flm. þungt um hjarta, þegar þeir heyra, hvað Hannes Hafstein sagði þá. Hann sagði: „Jeg hefi ekkert á móti einkasölu á steinolíu. Jeg var sjálfur í nefnd þeirri, er bjó til gott og ítarlegt frv. um þetta efni, er lagt var fyrir þingið 1912“. Jeg hefði haft gaman af því, ef hv. þm. Ak. (BL) hefði verið við hjer í hv. deild, til þess að heyra, hvernig þessir samflokksmenn hans litu á þetta, og hann yrði að senda þeim út yfir gröf og dauða sín eitruðu skeyti, ef hann vildi hnekkja þeim, sem hafa verið með einkasölunni. Jeg vil bæta því við, að það var einmitt Hannes Hafstein, sem fyrstur manna skildi nauðsynina á því, að olían væri flutt hingað í stáltunnum. Það er ofureðlilegt, því að hann var einn af þeim fyrstu, sem rannsökuðu málið.

Á þessu sama þingi, 1917, kemur hv. 1. þm. Árn. (M. T.) fram á sjónarsviðið í þessu máli og leggur til svipað og Hannes Hafstein. Hann segir: „ . . . eigi þessi steinolíuverslun að verða að gagni, þá er enginn vafi á, að búa þarf til ýmisleg tæki, sem kosta afarfje . . . En að eiga ekki olíugeyma er stórskattur á versluninni“. Og enn bætir hann við, að flutningstækin þurfi að bæta. Hjer kemur nýr þáttur inn í, þegar hugsað er um að gera olíuna sem ódýrasta og láta landssjóð græða. (SigurjJ: Hvað segir hv. þm. um gróða?). Landsverslunin á að græða, til þess að olían geti orðið ódýr. Hitt er aukaatriði, þó að nokkrir þingmenn vildu leggja lítið á. Þeir menn, sem rjeðu mestu, núverandi hæstv. atvrh. (MG) og þáverandi hæstv. fjrh. (BK), rjeðu, hvert gjaldið var.

Jeg hefi þá rakið ítarlega meðferð málsins á þeim tveim þingum, sem lögðu grundvöll málsins. Maður skyldi ætla, að þessu máli, sem búið er að vera á döfinni frá því 1912 og hefir haft svo mikinn byr í þinginu, þar sem ráðherrarnir og mestu áhrifamenn hafa verið með því, stæði ekki mikil hætta af mótblæstri. En það skrítna er, að það lítur út fyrir, að margir menn, sem hafa bygt þetta upp og sagt, að verslunin mundi standa lengi, hugsa sjer nú að svíkja málið. Hvað hefir komið fyrir? 1920 varð landið fyrir slíkum árekstri við Steinolíufjelagið, að varla var þolandi. Því næst byrjar landið samkepni við hringinn og kúgaði hann smám saman, þangað til steinolían loks með einkasölu komst í sannvirði. Það er tvent, sem hefir gerst. í fyrsta lagi hafa menn gleymt gömlu kúguninni, sem eflaust kemur aftur, ef þeir fá vilja sínum framgengt, sem nú vilja afnám, og í öðru lagi hafa nú einmitt menn úr verslunarstjettinni, sem lítil áhrif höfðu á þingið 1912 og enn minni 1917, ráð yfir þeim blaðakosti, sem ekki fáir þingmenn landsins eru háðir, bæði við kosningar og í daglegu lífi.

Jeg ætla að víkja að ýmsum ræðum, sem hjer hafa verið fluttar í kvöld, og byrja á ræðu hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), sem er einn af þeim, sem áður hafa stutt þetta mál hjer á þingi. Hann sagði, að hann hefði rjett til að tortryggja skýrslu Landsverslunarinnar. Jeg skal ekkert um það segja, hvað hann telur leyfilegt, en hann hefir engin gögn fært fram máli sínu til sönnunar, og verð jeg því að telja það marklaust hjal. Hann vildi verja hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) með því, að ekki mætti leggja á fyrir skuldatapi. Jeg vil benda á þrent. Í fyrsta lagi játar hv. þm. (JAJ), að leggja eigi á fyrir tapi í almennum verslunarrekstri. í öðru lagi, hvernig hv. flm. og stuðningsmenn þeirra litu á 1917, og í þriðja lagi, að þar sem stjórnin hefir haft svo nákvæmt eftirlit með rekstri Landsverslunarinnar, að skrifstofustjórinn í fjármálaráðuneytinu hefir endurskoðað reikningana daglega, mundi stjórnarráðinu strax vera kunnugt, ef um afglöp eða misbresti væri að ræða. Jeg vil spyrja hv. þm. (JAJ), hvernig hann álíti hugsanlegt, að stjórnin viti ekki alt um hag Landsverslunarinnar, og svo ánægð hefir hún verið með reksturinn, að hún hefir aldrei fundið ástæðu til að gera neinar athugasemdir. Hjer getur því ekki verið um neinar aðrar línur að ræða en þær, sem stjórnin fylgir. Hafi hún brotið af sjer, eiga hv. flm. að vera með vantrausti því, sem kemur til umræðu víst á morgun.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði, að það væri hart að nefna falska reikninga í sambandi við verðtollinn. Jeg vil minna hann á, hvað samherji hans, höfundur vörutollslaganna, hv. 2. þm. G.-K. (BK), hefir oft sagt hjer á Alþingi. Hann hefir oft tekið það fram, að auðvelt væri fyrir óvandaða menn að svíkja faktúrur, sem verðtollurinn byggir á. Þetta vita allir og hv. þm. (JAJ) líka.

Jeg er hv. þm. (JAJ) þakklátur fyrir eitt, og aðeins eitt, atriði. Hann viðurkendi galla Steinolíufjelagsins. En alt, sem hann er að gera, miðar að því að gefa hringnum sama vald og hann hafði áður.

Þá hjelt hæstv. fjrh. (JÞ) ræðu, sem var góð að því leyti, að hún var stutt, en afleit, af því að efnið í henni var svo vont. Hann sagði, að Landsverslunin, sem altaf á að vera að tapa, væri með svo stóran varasjóð, að þessi mikli fjármálamaður knýr á dyrnar og segir: „Opnið, svo að jeg fái peninga til þess, sem ríkið þarfnast“. Er hægt að fá stærra allsherjarvottorð fyrir Landsverslunina en það, að sjálfur „heili heilanna“ finnur ekki annað ráð en varasjóð Landsverslunarinnar til bjargar landinu. Hæstv. ráðherra (JÞ) mun ekki hafa kynt sjer vel, hvað fyrirrennari hans hugsaði um þetta eða hvað fjármálaráðherrann 1917 ætlaðist til, að verslunin stæði lengi.

Mjer þykir leiðinlegt að koma nú að ræðu hv. þm. Ak. (BL), sem hafði engan kost, frekar en annað, sem sá hv. þm. segir eða gerir. Ræða hans var þessi venjulegi grautur og sljóva þvæla, þar sem ályktanirnar eru altaf öfugar við forsendurnar. Hann var móðgaður yfir þessum fölsku reikningum, en kom ekki með neinar röksemdir. Þegar hann veit, að einn af æðstu mönnum landsins hefir leyft sjer að flytja inn vín óleyfilega, ætti hann ekki að vera hissa, þó að fyrir minniháttar menn geti komið lagabrot. Laust fyrir stríðið varð líka að sekta kaupmann hjer í bæ fyrir tóbakstollsvik. Hv. þm. (BL) ætti að hugsa sig betur um, áður en hann með rembingi talar um, að allir sjeu heilagir hjer. Þá sagði hv. þm. (BL), að hægt væri að sanna með tölum, að steinolía væri ódýrari annarsstaðar en hjer. Það gerði hann samt ekki.

Fiskifjelagið komst að þeirri niðurstöðu í fyrra, að það væri til stórra bóta að hafa landsverslun með steinolíu og óskaði eftir, að henni yrði haldið áfram. Það er ekki til neins að halda því fram, eins og mjer skildist hv. þm. (BL) gera, að það hafi verið Framsóknarmenn í Fiskifjelaginu, sem voru á þessari skoðun. Því miður er mjer ekki kunnugt um, að einn einasti Framsóknarmaður hafi verið á Fiskiþinginu. Þar voru nálega eingöngu Íhaldsmenn, en svo samviskusamir Íhaldsmenn, að þeir beygðu sig fyrir staðreyndum, eftir öllum gögnum, sem þeir gátu náð í. Jeg býst við, að hv. þm. hljóti að álíta, að þing Fiskifjelagsins, eins og það er skipað nú, hafi betra vit á þessu máli heldur en hv. þm. Ak. (BL), sem er það vel að sjer, að hann var að tala um að flytja steinolíu á járnskipum út um landið. Hver hefir heyrt aðra eins endileysu? Til þess að þetta hefði nokkra þýðingu yrði að gangá út frá tankskipum; annars er það víst enginn nema hv. þm. Ak. (BL), sem hugsar sjer, að olía verði flutt á járnskipum frá Reykjavík og út um land. (JAJ: þetta var auðheyrt mismæli hjá þm; hann átti auðvitað við járntunnur). Einmitt það! En þetta var þá ekki leiðrjett, og þar sem öll ræða hans var á þessa bókina lærð, þá gat maður ekki haldið annað en að þetta væri eitt af hans stóru götum.

Jeg álít það rjett að segja frá því hjer, að hv. þm. Ak. (BL) fór að dylgja um það, að núverandi forstjóri Landsverslunar myndi stela af olíunni; það væru sögur um það, að hann mundi njóta bakprósenta af innkaupunum. Mjer er það engin hrygð, þó jeg heyri þetta hjer, fyrir það að þessi maður, sem hjer er um að ræða, hefir of langa og heiðarlega fortíð að baki til þess, að það geti verið honum nokkuð annað en „kompliment“, að svona Gróusögur eru bornar um hann í Alþingi af hv. þm. Ak. (BL). Jeg vitna til þess, að í ótal greinum, sem hafa staðið í mörgum málgögnum útlendra mangara hjer á landi, hefir ekki staðið eitt einasta orð um það, að forstjóri Landsverslunar mundi stela af innkaupum, — ekki einu sinni í þessum blöðum, þar sem alt er þó látið fjúka. Og jeg get bætt því við, að jeg hefi ekki heyrt nokkum mann annan leyfa sjer að segja þetta en hv. þm. Ak. (BL), og jeg er persónulega sannfærður um, að enginn lifandi maður hefir sagt þetta nema sá vesalings maður, sem sagði það hjer í dag, og jeg ann honum þess vel að vera sá eini maður, sem ber sjer þetta í munn; einmitt í því er fólgið mikið lof um forstjóra Landsverslunar, sem hefir komist í gegnum hreinsunareld hinnar illvígu mótstöðu án þess að vera nokkurntíma brugðið um óheiðarleik.

Sami hv. þm. talaði um það, að það væri fjarstæða að ímynda sjer, að Landsverslun hjer á landi gæti staðið á móti hringum eins og Standard Oil. Það er samt sem áður ekki meiri vitleysa en það, að Landsverslun hefir gert þetta. Hún byrjaði á því 1920, þegar stjórnin varð fyrir þessari ósvífni, sem jeg gat um, af fulltrúum þessa fjelags, en Landsverslun kúgaði fjelagið stig af stigi niður í heimsmarkaðsverð. Því það, sem hv. 1. þm. Rang. (EP) sagði 1912 um gróða Standard Oil, þessar 145%, sem það þá lagði á, — í því er fólgið það, sem er fram yfir markaðsverð. Það er það, sem jeg býst við, að hv. þm. Ak. (BL) vanti lengst af greind til að skilja.

Það, sem Landsverslun hefir verið að gera, er það að færa í vasa landsmanna og landssjóðs nokkuð af gróðanum, hliðstætt við það, sem sagt var 1912, að Steinolíufjelagið innbyrti árlega með því að kúga fólkið. Sami hv. þm. vjek að því, að það væri ekki svo hættulegt, þó einhver hringur kæmi hjer, því kaupfjelögin og Sambandið mundu náttúrlega taka í taumana. Jeg vildi mega spyrja hv. þm. Ak. (BL), hvort hann haldi, að fjelögum, sem eru stofnuð fyrir ákveðna fjelagsmenn, beri skylda til að inna af hendi starf fyrir alt aðra menn. Kaupfjelögin eru samtök ákveðinna manna, þeirra, sem álíta það skipulag sjer til gagns. Það eru svo fáir olíukaupendur í kaupfjelögunum, sem nokkuð um munar, að þeir hafa enn þá enga kröfu gert til kaupfjelaganna um að hjálpa þeim. Þá mintist hann á vjelbátaeigendur. Þeir hafa ekki skilið það enn þá, að þeir geta verið sterkir, ef þeir standa saman. Þeir hafa engin kaupfjelög, engin sölufjelög, og vegna þess, að þeir hafa ekki borið gæfu til þess, hefir landið orðið að hjálpa þeim. En að halda því fram, að kaupfjelögin eigi að hjálpa, það sýnir ekki annað en frámunalega fáfræði, meðan nálega engir, sem eru á þennan hátt illa haldnir, eru í kaupfjelögunum.

Jeg hefi nú fyrst leitt rök að því, hvernig þessi lög, sem nú er talað um að láta hætta að starfa, urðu til, hvernig þeir straumar voru, sem báru meiri hluta notenda olíunnar og meiri hluta þingsins 1917 inn á þá braut að koma á landsverslun með steinolíu. Í öðru lagi hefi jeg hrakið nokkur af þeim fánýtu atriðum, sem niðurrifsmenn steinolíueinkasölunnar hafa haldið fram hjer í kvöld. Vil jeg nú bæta við fáeinum orðum um það, hvers vegna jeg get ekki greitt atkv. með þessari till. Í fyrsta lagi af því, að hún er algert brot á þeirri varnarstarfsemi, sem jeg nú hefi lýst, að hún er svik við hugsun þeirra, sem gerðu heimildarlögin 1917, hún þverbrýtur þann hugsunarhátt, sem lögin þá voru bygð á. (Rödd í salnum: En forstjóri Landsverslunar?). Jeg skal taka það fram, að forstjóri Landsverslunar er svo vitur maður, að þegar hann fór að hafa meiri afskifti af þessum málum, þá sá hann, að sú leið, sem hann ljet í ljós 1917, að fara ætti í málin” var ekki rjettasta leiðin. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að til þess að geta með krafti barist við steinolíuhringana, þá er miklu sterkara að hafa einkasölu. Jeg býst við, að maður, sem kemst að rjettari niðurstöðu við nánari rannsókn, sje maður að meiri, heldur en ef hann, að fenginni rannsókn, reynir að skjóta sjer undan ábyrgð fyrri skoðana sinna, sem ekki bygðust á nægilegri rannsókn.

Annað atriðið, sem fyrir mjer er aðalástæðan, er það, að jeg veit, að þetta er röng leið. Jeg veit, að þegar verið er að glíma við hringana, þá eru hinir dreifðu kraftar gagnslausir. En við Íslendingar erum svo fáir og smáir, að þegar við dreifum kröftum okkar með samkepninni, þá reisir enginn rönd við hringunum. Það stendur enn þá óhaggað dæmið frá 1912, Standard Oil er sami hringurinn og ekki fátækari, heldur ríkari, og hann hefir ennþá víða í þjónustu einni þá sömu menn, sem unnu fyrir hann 1912 og síðar, en urðu að beygja sig 1917 og 1922. Það, sem þess vegna hlýtur að gerast nú, er það, að þessi hringur, sem jeg þykist vita að sje hjer að verki óbeinlínis, — ekki þó hjá öllum, því sjálfsagt eru einhverjir í góðri trú með þessari tilhögun verslunar — nái hjer aftur fótfestu, ef tillagan nær fram að ganga, Jeg dreg ekki í efa, að hjer eru menn, sem standa í sambandi við þann, sem barði í borðið í stjórnarráðinu 1921 og sagði: „þá viljum við ráða olíuverðinu“. Þeim nægði ekki að flytja inn olíuna með skaplegu móti, heldur vildu þeir ekkert annað en fá að kúga landsmenn.

Ennfremur er jeg á móti þessari till. af því, að hún eyðileggur möguleikana á því í náinni framtíð að stíga það stóra spor, sem við áttum eftir til þess að gera steinolíusöluna heilbrigða, nefnilega að halda áfram landsverslun og bæta svo flutningstæki og geymslu á þann hátt, sem núverandi 1. þm. Árn. (MT) lýsti 1917, með því að við eignuðumst tankskip og olíugeyma. Og þegar við vitum, að við getum endurborgað kostnaðinn við olíuhlöðurnar á tveim árum, þá er það meira en lítil ljettúð að kasta þessu frá sjer.

það kom berlega í ljós hjá hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), að fyrir honum vaka sjerhagsmunir, sami hugsunarháttur og sá, sem liggur bak við stjórnarfrv. um tekjuskatt. Samkv. því áttu liðlega 30 fjelög í Reykjavík og grend að fá gefnar eftir yfir 600 þús. kr. af tekjuskatti. Jeg segi, að hv. þm. byggir á sama hugsunarhætti. Hann reiknar með því, hvað einstakir menn, sem besta hafa aðstöðu, kynnu að geta náð í olíuna fyrir undir sjerstökum kringumstæðum. En hvernig heldur hv. þm. að fari fyrir ljelegri og afskektari höfnunum, ef þetta skipulag kæmist á? Hvernig heldur hann að olían verði flutt heim til þeirra? Heldur hann, að það verði hugsað um smáu hafnirnar — en þær eru margar — þegar Björgynjarskipin koma? Nei, það sem í raun og veru er barist um hjer, er líka rjettur þeirra, sem veikari eru í þjóðfjelaginu. Því um leið og þetta nýja ástand kemst á, þá verða þeir, sem á smáhöfnum eru, að borga sjerstakt gjald fyrir olíuna frá betri höfnunum; svo verða þeir að lofa fiskinum sínum og gera ýmsa ókjarasamninga við þá, sem yfir þeim hafa að ráða í þessu efni, eins og oft hefir brunnið við áður. Jeg get skilið það, að undir vissum kringumstæðum kynnu einstakir menn að geta fengið smáslatta af olíu fyrir eitthvað lægra verð en í ríkisversluninni, og væri það augnablikshagnaður. Ef t. d. hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) hefði skútu í förum til útflutnings og skipið hefði ekkert heim að flytja og kæmi til Bergen, þar sem eru tankar, þá gæti hv. þm. náttúrlega grætt eitthvað á því að taka olíu, þar sem ekki þarf að reikna flutningsgjaldið. En er nokkurt vit í að ráða þessu máli til lykta eftir þessum undantekningum ? Það eru sárfáir af vjelbátaeigendum okkar, sem geta notið þessara tilviljunarkjara.

Jeg held þess vegna að öllu samanlögðu, að þessi till., sem auðsjáanlega er borin fram í samráði við hæstv. stjórn, sje eitt af því, sem rjettlætir það vantraust, sem bráðum á að ræða í hv. Nd.

Hæstv. atvrh. (MG), sem átti þátt í að koma á þessu skipulagi, hefir ekki komið hjer fram í kvöld. Hann hefir ekki stöðvað „kollega“ sinn, sem hefir látið í ljós, að hann ætlaði að innbyrða meiri hluta varasjóðs Landsverslunar í daglega eyðslu 1926. Þessir hæstv. ráðherrar eru — þótt þeir hafi ekki sagt það nema óbeinlínis með þögninni — í nánu sambandi við flm. þeir eru að brjóta í bág við þá, sem reistu okkur múrvegg gegn hættunni af steinolíuhringunum; þeir eru að loka fyrir okkur möguleikunum fyrir því að geta notið olíuverslunarinnar betur en annars á næstu árum, með bættum flutnings- og geymslutækjum. Það er hörmulegt, sem hjer er að gerast í dag. Annarsvegar hefir verið eyðilagður fyrir þjóðinni gróði, sem hún hefir um nokkur ár haft af vissum óhófstegundum. Nú er um það að ræða, hvort þessi alræmdi steinolíuhringur megi rjetta sínar klær aftur inn í þjóðfjelag okkar, í skjóli þeirra, sem áhrifin hafa hjer á landi, í blöðum og víðar; og lítur út fyrir, að þessi áhrif sjeu búin að beygja stjórnina, og maður getur óttast, að þau áhrif sigri hjer í nótt.

*Óyfirlesin ræða.