20.03.1925
Neðri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (3221)

98. mál, Krossanesmálið

Forsætisráðherra (JM):

Jeg þarf ekki að vera margorður um þetta mál. Það snertir mig ekki nema að litlu leyti. Kæruatriðin virðast mjer einkum vera tvö.

Annað er það, að ekki var hafin sakamálsrannsókn gegn forstöðumanni Krossanesverksmiðjunnar. Hitt, að útlendum verkamönnum hafi verið leyft að starfa þar, eða hafi að minsta kosti verið liðið það.

Um fyrra atriðið, sakamálshöfðun eða sakamálsrannsókn gegn forstöðumanni verksmiðjunnar, ætti jeg í raun og veru ekki að þurfa að segja neitt. Það mál hefir ekki einu sinni komið til minnar stjórnardeildar. Það hefði eftir venjulegum og eðlilegum hætti getað komið til minna kasta á þennan hátt.

Í fyrsta lagi hefðu þau stjórnarvöld, sem hafa á hendi eftirlit með því, að mælitæki og vogaráhöld sjeu rjett, forstöðumaður mælitækjaskrifstofunnar og stjórnardeild atvrh., getað kært það fyrir dómsmálaráðuneytinu eða tilkynt henni, að hjer væri um sviksamlegt atferli að ræða.

Í öðru lagi hefði sýslumaður, sem bar skylda til að rannsaka málið, ef hann taldi svik framin, getað leitað úrskurðar dómsmálaráðherra um sakamálshöfðun, svo framarlega sem hann var í efa um það sjálfur.

Í þriðja lagi hefðu þeir menn, sem höfðu viðskifti við verksmiðjuna og þóttust verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna rangs mælis, getað kært fyrir dómsmálaráðuneytinu, ef þeir hefðu talið svik vera höfð í frammi.

Um fyrsta atriðið þarf ekki annað en vísa til ummæla hæstv. atvrh. (MG). Þegar eftirlitsmaður mælitækjanna tilkynnir atvinnumálastjórnardeildinni, að mælitækin í Krossanesi sjeu ólöggilt, seinast í júlí f. á., þá símar stjórnardeild hans til sýslumanns og leggur fyrir hann að rannsaka málið og sjá um, að rjettur mælir sje hafður. Þetta var sama daginn og hæstv. atvrh. (MG) lagði af stað norður. Að þessi stjórnarvöld sneru sjer beint til sýslumanns um rannsókn var bæði rjett leið og hin beinasta. Sjálfur kemur atvrh. (MG) norður, athugar málavöxtu og sýslumaður með honum. Þeir komast að þeirri niðurstöðu, að hjer sje ekki um svik að ræða. Ekki gat því hæstv. atvrh. (MG) farið að kæra afbrot eða glæp, sem hann ekki taldi framinn.

Um hið annað atriði, að sýslumaður færi að snúa sjer til dómsmálaráðuneytisins, er óþarfi að orðtengja. Hann hafði fengið fyrirskipun um að rannsaka málið. Hann athugar það áður en hæstv. atvrh. kemur norður, og síðan enn frekar með ráðherra, og telur ekki svik framin. Hann gat því enga ástæðu haft til þess að snúa sjer til dómsmálaráðuneytisins.

Þá kem jeg að þriðja atriðinu, kæru frá viðskiftamönnum til dómsmálaráðuneytisins. Þeir hefðu átt að geta haft fjárhagslegan hagnað, og það sennilega fyrirhafnarlítið, ef svik hefðu sannast. Nú hefði því verið líklegt, að einhver þessara manna hefði snúið sjer til dómsmáladeildarinnar og heimtað rannsókn, ef hann hefði álitið svik í frammi höfð. Fjárhagslegur hagnaður er vanur að vera svo þungur á metunum, að það er fjarska ólíklegt, að enginn af viðskiftamönnunum hefði reynt að fara þessa leið, þótt hæstv. atvrh. benti á hana, ef menn ekki vildu treysta hans áliti og aðgerðum.

Um engan þessara vega kemur málið til stjórnarinnar. Ekki kæra viðskiftamennirnir, ekki kemur nein tilkynning frá sýslumanni, og ekki frá stjórnarvöldum þeim, sem um mælitækin eiga að sjá. Gat þá verið nokkur ástæða til þess, að dómsmálaráðuneytið færi að hefjast handa? Nei, sannarlega ekki.

Þá er hitt atriðið eða hinn hlutinn af Krossanesmálinu, hinir erlendu verkamenn, enda þótt minna hafi þótt til þess atriðis koma. Því hefir þó verið haldið fram, að þá hefði átt að reka úr landi samkv. lögum frá 18. maí 1920, um eftirlit með útlendingum.

það verður þá að athuga það, hvað lög þessi segja þar um. Nú vill svo vel til, að ekki er um að villast, hvað meint er með þeim.

Á þingi 1919 var samþykt þál. frá allshn. Nd. um atvinnulöggjöf eða atvinnurjettindi útlendinga m. m. Stjórnin var þá ekki við því búin að koma fram með svo víðtækt frv., en til þess að sýna nokkum lit á því að verða við tilmælum þál., þá ljet jeg semja frv. til nefndra laga.

Þegar jeg lagði málið fyrir deildina, sagði jeg með berum orðum, hvað í frv. fælist og hvað ekki, og jeg tók það fram, að í því fælist ekki ákvæði um takmörkun á atvinnurjetti útlendinga, og síðar undir umræðunum ljet jeg þess getið, að „frv. um atvinnurjettindi einstaklinga, í einstökum greinum og alment“ yrði að bíða þar til síðar. Hv. þm. Dala. (BJ) tók í þetta, fanst eðlilegt, að ekki yrði lengra farið að sinni, vegna þess, að hitt væri vandamál. Hann leggur áhersluna á það, að sem fyrst verði gerð lög um atvinnurjettindi útlendinga. Framsögumaður nefndar þeirrar, sem með málið fór, skýrði og nokkuð efni frumvarpsins á sama hátt.

Aðrir töluðu ekki um frv. eða sama sem ekkert. En ekki var þar um að villast, að menn skildu þar, að þetta frv. átti ekki að setja reglur um atvinnuhliðina. Er því satt að segja spaugilegt, að nú skuli eiga að setja nefnd eftir stjórnarskránni til þess að rannsaka, hvað í þessu frv. felist. í því felst ekkert annað en það, sem jeg hefi bent á, og hverjir sem þá nefnd skipuðu myndu aldrei komast að neinni annari niðurstöðu.

Nú kann einhver að segja, að ákvæði laganna nái lengra en tilætlað var, og færa þar til 3. gr. 4. tölul., þar sem sagt er, að dómsmálaráðherra geti bannað mönnum að dveljast hjer, ef þeir eru komnir hingað til starfa eða athafna, sem hættulegar væri hagsmunum ríkisins og almennings. En hvað langt sem menn vildu teygja þetta, þá kæmist þetta Krossanestilfelli ekki undir lögin, að minni skoðun. Ekki gat vera þessara 40–50 norsku verkamanna verið hættuleg ríkinu, en hún ætti þá að hafa verið hættuleg hagsmunum almennings. Eftir minni skoðun er ekki hægt með nokkurri skynsamlegri lögskýringu, hversu langt sem maður teygir sig, að segja, að vinna þessara manna, ekki fleiri en þeir voru, hafi getað skoðast skaðleg eða hættuleg hagsmunum almennings. Til þess þarf eflaust meira eftir þessari löggjöf. Er því ómögulegt að koma málinu áfram þessa leið.

Í þessu sambandi vil jeg minnast á þál., er samþ. var í þessari hv. deild í fyrra, sem fer fram á það, að stjórnin, samkv. heimild umgetinna laga, setji reglugerð, þar sem girt sje fyrir, að útlendingar geti leitað sjer atvinnu hjer, á meðan atvinnuvegirnir fullnægi ekki atvinnuþörf landsmanna. Þessi þál. er eflaust bygð á of lítilli athugun eða misskilningi á oftnefndum lögum. Þar er hvergi veitt heimild til slíkrar reglugerðar. Þar er að vísu á fleiri stöðum en einum talað um, að dómsmálaráðherra geti sett reglur eða reglugerð um eða út af ákvæðum frumvarpsins, en það er út af ákvæðum 1., 2., 4. og 6. gr., en ekki um það atriði, sem þál. ræðir um. Ákvæði þau, sem hún ræðir um, verða aðeins sett með nýjum lögum eða nýrri lagaheimild þál. fór fram hjá mjer í fyrra, jeg kom ekki í deildina, er hún var rædd.

Um nauðsyn eða ekki nauðsyn til þess að koma fram með frv. um atvinnurjettindi útlendinga hjer, eins og um var talað á þinginu 1920, ætla jeg ekkert að tala. Það er mikið vandamál, og þessu ráðuneyti hefði ekki unnist tími til að búa frv. út um það, þótt þörf hefði þótt til vera. Hvort þörf sje á slíku, skal jeg ekkert um segja, en hitt er víst, að þingnefnd slík, sem hjer um ræðir, getur ekkert hjálpað því máli áleiðis. Það er ómögulegt. Slíkt mál verður ekki rannsakað til hlítar á stuttum tíma. Hinsvegar mætti koma með áskorun á stjórnina eða tala um, að slíkt verði gert, en til þess þarf enga nefnd, og ekki er heldur hægt að ætlast til þess, að núverandi stjórn komi nú fram með slíkt frv. Allir viðurkenna, að þetta er mjög erfitt mál og vandasamt að setja lög um það, og sýnir sig líka, að um slíkar takmarkanir er mjög lítið að ræða hjá skyldum þjóðum. Helst hafa verið settar varnir gegn miklum innflutningi Rússa og Mið-Evrópumanna, og það mest hjá Englendingum. Hafa menn þó í hvívetna gætt hinnar mestu varúðar í þessu efni.

Skal jeg svo ekki segja meira um málið að svo stöddu. Hv. flm. (TrÞ) þóttist vera ósköp góður í máli, en jeg ætla, að ekki hafi verið hægt að taka meininguna eins ljett og hann virtist vilja vera láta.