21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í D-deild Alþingistíðinda. (3230)

98. mál, Krossanesmálið

Jakob Möller:

Flestir hv. þdm. munu hafa tekið eftir því, þegar hæstv. atvrh. (MG) talaði hjer í fyrsta skifti í gær, að þá saknaði hann sárast árása úr ræðu hv. flm. (TrÞ). En hann var líka sýnilega meira en lítið glaður yfir ræðu hv. 2. þm. Reykv. (JBald), vegna þeirra hörðu orða, er hann ljet falla í garð stjórnarinnar. Allir munu og hafa veitt því eftirtekt, með hvílíkum fögnuði hæstv. forsrh. (JM) tók hótun þeirri, sem fjell hjá hv. flm. (TrÞ) í lok síðari ræðu hans.

Hvernig stendur nú á söknuði hv. atvrh. (MG) yfir hinni hógværu framsöguræðu flm. (TrÞ) og gleði hans yfir árásum hv. 2. þm. Reykv. (JBald) ? Jú, ástæðan er auðfundin. Eina ástæðan, sem hæstv. ráðherrar geta borið fyrir sig og flokk sinn fyrir því að fella þessa till., er sú, að hana beri að taka sem vantraust á stjórnina. Það er eina ástæðan, sem hægt er að bera fram. Því ef hjer væri ekki um vantraust að ræða, þá væri gersamlega óverjandi að fella till.

En nú ætla jeg að taka mjer í munn orð hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) frá í gær: þeir tala mest um Ólaf konung, sem aldrei hafa heyrt hann nje sjeð. Þessi stjórn hefir aldrei haft neitt traust í þessari hv. deild. Það vita allir. Þetta er því ekkert annað en átylla til þess að þvinga flokksmenn sína til þess að fella till., að stjórnin lætur sem í henni felist vantraust. Í till. er ekki að ræða um neitt annað en það, að nefnd verði skipuð til þess að rannsaka málið. það er ekkert sagt í till. um það, að stjórnin hafi vanrækt skyldu sína, þar er ekki eitt orð, sem vantraust geti falist í. En hins gat hæstv. stjórn ekki vænst, að í till. fælist traust, svo sem henni er kunnugt, hversu þessi deild er skipuð.

Enn var annað, sem hæstv. stjórn sagði í sambandi við þetta, harla lærdómsríkt. Hæstv. atvrh. sagði, að engin stjórn gæti lagt sig undir það að láta andstöðuflokkinn sjá skjöl og skilríki í máli eins og þessu. (Atvrh. MG: þetta er ekki rjett). Jú, það er rjett. Hæstv. ráðherra sagði, að stjórnin gæti ekki lagt sig undir dóm andstæðinga sinna.

Hvað er svo sagt með þessu? Það, að það sje skylda stjórnarflokksins að slá skjaldborg um stjórnina, hversu herfilega sem hún fer að ráði sínu. Hvað sem hún hefst að, þá beri að verja hana gegn því, að andstöðuflokkurinn fái að líta á skjöl, sem snerta almenn mál, sem stjórnin hefir með höndum. Jeg veit ekki, hvað hv. Íhaldsflokkur segir um slíkan stjórnarmóral. En jeg veit, hvað þjóðin muni segja.

Jeg sagði hjer í gær, að það, sem fyrst og fremst styddi að því, að sjálfsagt væri að láta rannsókn fara fram í þessu máli, væri almannarómurinn. Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að hann hefðu blöðin skapað. Það er nú svo, að í mörgum tilfellum skapa blöðin almenningsálitið. En í þessu sjerstaka máli vill svo merkilega til, að það er almannarómurinn, sem kemur blöðunum af stað. En þótt nú svo hefði verið, að blöðin hefðu skapað almannaróminn, þá hefir hæstv. stjórn líka blöð, og það sýnir best, hve málið er ilt, að sjálf stjórnarblöðin hafa átt sárerfitt með að fá sig til að mæla því nokkra bót, enda engan árangur borið. Hæstv. atvrh. (MG) hefir ekki neitað því, að þessi almannarómur væri til, og sannleikurinn er sá, að stjórnarblöðin hafa ekkert getað gert til þess að koma í veg fyrir, að hann skapaðist slíkur. Af hverju? Auðvitað af því, að þau hafa ýmist alls ekki treyst sjer til þess að verja málið, eða ekki getað það. þetta er enn ein ástæða til þess að krefjast rannsóknar.

Hæstv. atvrh. (MG) mótmælti því, í sambandi við ræðu sína frá í gær, að síldarmál væru löggildingarskyld, vegna þess, að í lögunum um þetta efni væri ekki talað um stærri mælikerin tveggja lítra. En í 1. gr. þessara laga standa þau almennu ákvæði, að öll tæki, sem notuð eru til að vega eða mæla í viðskiftum manna á meðal, skuli vera löggilt. Það er augljóst, að ekki verða upp talin í lögunum öll slík tæki, sem þannig kunna að verða notuð, af þeirri einföldu ástæðu, að þegar lögin eru sett, þá eru ekki til öll tæki, sem nauðsyn krefur að notuð verði síðar. Þess vegna kveður 1. gr. svo á alment, að öll slík tæki skuli vera löggildingarskyld. Nú skal jeg játa það, að löggildingarskyldan er ekki aðalatriði í þessu efni, það er rangt hjá hæstv. atvrh. (MG). það er ekki aðalatriði, að málin voru ólöggilt, heldur hitt, að þau voru röng, vísvitandi röng. Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að víðar hefðu mál verið röng, og er sjálfsagt ekki ástæðulaust að athuga það, ef hann veit um slíkt. En ráðherrann hefir ekki getað afsakað Krossanesverksmiðjustjórann frá því, að hann vissi, að málin voru röng. Hann vissi, að þau voru of stór, og játaði að hafa haft þau of stór, til þess að tryggja sig fyrir því að verða ekki fyrir halla vegna þess, sem út úr málunum færi við uppskipunina. Þetta er vitanlega ekkert annað en fyrirsláttur, því vitanlegt er, að margir menn hafa keypt síld með rjettu máli, eða því sem næst, og látið sjer það vel lynda. En þessi maður hefir sýnilega útispjót til þess að fá meira en hann átti að fá að rjettu, og það varðar við lög að svíkja mæli eða vog vísvitandi, til þess að mæla sjer meira en með rjettu máli.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að staða þessa manns og traust, sem hann nyti, sannaði, að hann væri hafður fyrir rangri sök. Þó er víst, að ýmsir menn hafa gegnt mikilsverðum störfum, en síðar komið í ljós, að þeir hafa ekki verið maklegir þess trausts, sem þeir hafa notið — og misbrúkað. (Atvrh. MG: þetta er ekki rjett hermt). Jú, jeg hefi það skrifað eftir hæstv. ráðherra. En hvorki staða mannsins nje traust sanna nokkum skapaðan hlut um þetta. Slíkt er þýðingarlaust, þegar um er að ræða jafnfellandi vitnisburði og fram hafa komið í þessu máli.

Hæstv. atvrh. (MG) þóttist góður af því að brigsla mjer um að hafa farið með rangt mál gagnvart Krossanesverksmiðjustjóranum, og bygði það á upplýsingum frá honum sjálfum. En dettur hæstv. atvrh. (MG) í hug, að þeim manni sje treystandi, sem, þegar vikið er að umsókninni um innflutningsleyfi fyrir verkafólk, bregst ókunnuglega við og læst aldrei hafa sent eða vitað um slíka umsögn? Trúir hæstv. ráðherra því, að maðurinn hafi ekki munað eftir því, að hann fól öðrum manni að sækja um þetta leyfi fyrir sig? Hvað er það annað en fláttskapur að láta sem hann viti ekkert um þetta? það er auðsjeð, að hann er með þessu að koma sjer undan því að játa að hafa sótt um leyfið, og sýnir slíkt greinilega innræti mannsins. En það er öllum ljóst, að þó hann hafi ekki sent umsóknina sjálfur, þá hefir hann þó hlotið að vita um hana.

En nú ætla jeg að tilfæra annað dæmi, sem sýnir, hve mikils trausts þessi maður sje maklegur.

Árið 1922 var skip tekið við veiðar í landhelgi fyrir Norðurlandi, sem Rolf hjet, og var farið með það til Siglufjarðar. Upplýstist það, að það sigldi undir íslensku flaggi, en hafði norskt þjóðernisskírteini. Þegar skip þetta kom til Siglufjarðar, þá hringdi bæjarfógetinn á Akureyri þangað og skipaði svo fyrir að láta það koma til Akureyrar, þar sem mál þess heyrði undir sig. En málið var síðan aldrei tekið upp. Hafði skipið siglt hjer undir íslenskum fána á sumrin í átta ár, en á vetrum undir norskum fána í Noregi. Þetta skip var gert út af Holdö, framkvæmdarstjóra Krossanesverksmiðjunnar, og það var bróðir hans, sem stýrði því. Heyrst hefir nú síðast, að framkvæmdarstjóri Krossanesverksmiðjunnar ætli að gefa skip þetta verkstjóra sínum, sem nú sækir um íslenskan ríkisborgararjett.

Ýmislegt fleira gæti jeg talið, sem er síst þess eðlis að styrkja þá umsögn hæstv. atvrh. (MG), að þessi útlendingur sje alls trausts maklegur, en jeg get þó látið staðar numið.

En kyndugt er það, að hæstv. ráðh. (MG) skuli hafa það á móti nefndarskipun, að ekki sje hægt að yfirheyra Holdö, þar sem hann sje erlendis og geti hann því ekki komið vörnum við. Jeg sje enga ástæðu til að óttast, að sú hlið málsins, sem að honum snýr, muni ekki njóta fullrar verndar, eins og ef hann væri hjer staddur. Alt, sem upplýst hefir verið í þessu máli af hæstv. atvrh. (MG), er sjeð frá þeirri hliðinni, sem að Holdö snýr. Þess vegna er það einmitt aðallega hin hlið málsins, sem rannsóknar þarf. Sjálfur hefir Holdö auðheyrilega gagnvart hæstv. ráðh. (MG) teflt öllu því fram, sem á einhvern hátt gæti orðið honum til málsbóta, og svo langt hefir verið gengið í því efni, að afsakanirnar hafa jafnvel í höndum hans snúist upp í ásakanir.

Það væri herfilegur misskilningur að halda, að væntanleg nefnd eigi að koma í stað rannsóknardómara. Hinsvegar getur svo farið, að óhjákvæmilegt verði að hefja sakamálsrannsókn, og þá á venjulegan hátt. Nefndin úrskurðar ekki annað en það, hvort slík rannsókn skuli fara fram. En undir slíkri rannsókn mundi málsaðili vitanlega geta komið að öllum sínum málsbótum.

Jeg hefi þá víst svarað öllum þeim athugasemdum, sem hæstv. atvrh. (MG) gerði við ræðu mína í gær, og get jeg þá snúið máli mínu frá honum.

Hvað viðvíkur því, sem jeg sagði um hæstv. forsrh. (JM), þá held jeg enn þá fram því sama og þá um sök hans sem dómsmálaráðherra í þessu máli. Eða til hvers heldur hann, að hann sje orðinn dómsmálaráðherra ? Er það til þess eins, að skerða hæstarjett og stuðla þar með að því, að rjettaröryggið og rjettarvirðingin haldist uppi í landinu? Nei, það var vafalaust í verkahring hæstv. dómsmálaráðh. (JM) að ákveða, hvort sakamálsrannsókn skyldi fara fram eða ekki.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) aumkaði mig sökum fákunnáttu minnar í útvegsmálum. En nú get jeg frætt hv. þm. (SigurjJ) á því, að jeg hafði afskifti af síld áður en hann þekti síld frá þorski. Hinsvegar skal jeg viðurkenna, að það, sem hann sagði um mælikerin, var mjög spaklega mælt, en það kom bara málinu jafnmikið við eins og ef hv. þm. Borgf. (PO) eða hv. þm. Barð. (HK) færu að tala um sýrukerin sín. Það hefir enga þýðingu í þessu máli, hvað talin eru tunnumál á Ísafirði, og jafnvel þó hann hafi einhvern tíma selt síld í vögnum, þá var honum það auðvitað heimilt, ef svo var um samið. (Raunar hefir heyrst, að þeir vagnar hafi seinna verið lokaðir inni og bannað að nota þá sem síldarmæliker). Hitt er annað, að mæla sjer 150 lítra af síld í tunnur, sem raunar taka 180 lítra. Verksmiðjustjórinn í Krossanesi samdi um ákveðið 150 lítra mál, en ekki sænska tunnu, norska tunnu, skotska tunnu eða sýruker. En þessa 150 lítra mældi hann sjer í kerum, sem tóku alt að 180 lítra. Hann hefir með öðrum orðum notað stærri kerin að yfirlögðu ráði, til að fá meiri síld úr þeim en honum bar. Og það er þetta, sem er saknæmt. Og þegar hæstv. stjórn hefir viðurkent, að málið sje órannsakað, og þegar hæstv. atvrh. (MG) hefir sagt við Holdö, að hann mætti búast við sakamálsrannsókn, þá virðist sem það væri engin goðgá, þó þessi nefnd yrði skipuð.

Að lokum er hjer alls ekki um neitt vantraust á hæstv. stjórn að ræða, þó ekki væri nema vegna þess, að hún nýtur alls ekki trausts þessarar hv. deildar hvort sem er.