14.03.1925
Efri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í D-deild Alþingistíðinda. (3304)

85. mál, orðabókarstarfsemi Jóhannesar L.L. Jóhannssonar og Þórbergs Þórðarsonar

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg get verið ánægður með þær undirtektir, sem tillaga mín hefir fengið, bæði hjá fyrverandi mentamálaráðherra (SE) og núverandi (JM). Að einu leyti get jeg þó ekki verið samdóma hæstv. forsrh. (JM). Honum fanst jeg hafa gert lítið úr hæfileikum Jóhannesar L. L. Jóhannssonar. Þetta er hinn mesti misskilningur. Jeg hefi engan dóm á manninn lagt, hvorki lofað hann eða lastað, enda álít jeg slíkt ekki hægt að órannsökuðu máli.

Þetta mál er ráðgáta, þar til búið er að rannsaka það. Er því alt, sem um það er sagt á þessu stigi, „trú en ekki skoðun“.

Jeg vil drepa örlítið á eitt atriði, sem hæstv. ráðherra vildi vefengja í ræðu minni, það, að hjer væri ekki um sjerfræðinga að ræða á sama hátt og t. d. Geir Zoega, Jón Ófeigsson, og svo jeg nefni ekki hið fræga útlenda dæmi, prófessor Craige. Með þessu finst mjer hæstv. ráðherra óneitanlega vera að nálgast þá skoðun mína, að hægt sje að komast af með aukakenslu við háskólann í íslenskri tungu, svo ekki þurfi að stofna þar nýtt embætti, þegar hann telur nægja að fá gamlan sveitaprest til þess að veita forstöðu jafnþýðingarmiklu vísindastarfi sem þessu.

Þá gat hæstv. forsrh. þess, að meðan feðgarnir unnu saman að þessu verki, hefðu þeir komið fram með uppástungur viðvíkjandi tilhögun þess. Þetta er rjett. En jeg mintist ekkert á þær af þeim orsökum, að aldrei hefir neitt verið farið eftir þeim.

Það, sem jeg fer fram á með till. minni, er ekki annað en það, að þinginu geti gefist kostur á að fá dálitla bráðabirgðaskýrslu um það, hvernig þessu máli er komið, svo að það geti gert sjer hugmynd um það, að nokkru leyti af sjálfsýn.

Jeg skal nú benda á eitt atriði, sem sýnir, að skoðun mín — og hæstv. forsrh. er mjer hjer að mestu sammála — er greinilega rjett hvað það snertir, hversu „planlaust“ hefir verið unnið að þessu verki frá upphafi. Við höfum enga hugmynd um það, hvort nokkur samkvæmni hafi verið í starfi þeirra þriggja aðalmanna, sem að orðabókinni hafa unnið frá upphafi, sem sje þeirra Jóns Ólafssonar, Björns Bjarnasonar og Jóhannesar L. L. Jóhannssonar. Og jeg býst við, að svo hafi ekki verið, því eins og kunnugt er, gaf Jón Ólafsson út 1. hefti orðabókarinnar fullgert. En eins og kom fram í ræðu hæstv. forsrh., þá vinnur núverandi orðabókarhöfundur alt öðruvísi. Hann tekur ekki fyrir heila kafla, en safnar aðeins drögum, orðtekur bækur o. s. frv. Í þessu sambandi vil jeg benda á það, að jeg er sammála hæstv. forsrh. um það, að yfireftirlit með verki þessu hafi mikið að segja. Því sje ekkert slíkt eftirlit, sem stefnir að vissu marki, þá er engin trygging fyrir því, að verkið, sem unnið er, sje í því formi, sem bókin verður loks gefin út í. Verði t. d. hallast að því að fylgja „plani“ Oxfordorðabókarinnar, þá er ekki gagn í öðru en að rekja orðmyndirnar sögulega, eins og þær hafa verið á hverjum tíma. Annað er ónýtt. Og nú skilst mjer á hæstv. forsrh., að vel geti verið, að alt, sem unnið hafi verið, sje ónýtt, vegna „planleysis“. Það má einu gilda, þó maðurinn vinni 6 tíma á dag og þó hann vinni 10 tíma á dag að þessu verki. Það kemur að litlu gagni, ef fyrir honum vakir önnur tegund af orðabók en sú, sem hallast verður endanlega að.

Þá kem jeg að þeim lið í ræðu hæstv. forsrh., er hann sagði, að þingið væri bundið við það að borga lífeyri til þessa manns, af því hann hefði verið tekinn úr embætti til þess að vinna þetta verk, að undirlagi þingsins. Skildist mjer hann telja annað vera svik við manninn. Mjer þykir satt að segja mjög ólíklegt, að þessu sje svona varið, þar sem öllum er ljóst, að málið er þannig til komið, hvað snertir tvo hina fyrri orðabókarhöf., að þeim var þetta verk falið sýnilega vegna þeirra sjálfra, en ekki málsins sjálfs. Það er ákaflega ólíklegt, að þingið, sem falið hefir þetta starf tveimur mönnum áður aðeins þeirra vegna, sem form fyrir persónulegum styrk — því það er ómögulegt að neita því, að dr. Björn Bjarnason tók við þessu starfi vegna þess, að hann var heilsulaus maður — það er ólíklegt, segi jeg, að þingið fari þá að láta spyrjast fyrir úti um land, t. d. hvort ekki muni vera prestur vestur í Dalasýslu, sem vildi halda verki áfram, sem þingið hefir notað til þess að veita sjerstökum mönnum lífsuppeldi. Einmitt þetta sögulega tilefni orðar bókarstarfsins sýnir, að það er óhugsandi, að þingið hafi farið að veiða prest vestan úr Dölum til þess að knýja fram verk, sem því hefir aldrei verið ljóst hvað liði eða hvernig ætti að vera. Hitt skilur maður vel, að gamall embœttismaður í sveit, sem farinn er að þreytast á starfinu, en hefir hinsvegar áhuga fyrir líkum efnum, leiti eftir þessu starfi. Og þótt þessu sje mótmælt og þótt engin skjöl sjeu til, sem sanni þetta, þá er því samt svona varið. Við þekkjum t. d. lækna, að þeir vilja fá hæg embætti, t. d. í kaupstað, er þeir eldast. Það skilur maður vel. Og það er fjarska skiljanlegt um gamlan sveitaprest, sem hefir löngun til þess að fást við málfræði, þó hann freistist til þessa. En þá held jeg, að hæstv. forsrh. verði að játa það með mjer, að siðferðilega bandið sje veikara, ef maðurinn á sjálfur sök á því að hafa blandað sjer í þetta. Jeg skal játa það, að jeg lít öðrum augum á skyldur ríkisins í slíkum efnum en hæstv. forsrh. Jeg lít svo á, að ef hæstv. stjórn telur sig hafa siðferðilegan rjett til þess að fella niður styrk Þórbergs Þórðarsonar til orðasöfnunar úr alþýðumáli, án þess að það teljist svik, þá sje það rjett, einkum hafi maðurinn ekki unnið nógu mikið. Jeg hygg nú samt, að hann hafi einmitt unnið talsvert, því hann hefir að minsta kosti viljað sýna þinginu verk sitt. Mjer virðist mótsögn í því að taka fjeð af Þórbergi, en kalla hitt svik, að láta hinn orðabókarhöf. hætta. Eins og sjest á hinni frægu bók Þórbergs, sem hjer hefir verið minst á, þá telur hann, að þingið hafi svikið sig. Þeir eru því sammála, Þórbergur, hvað snertir sjálfan hann, og forsrh., hvað snertir Jóhannes L. L. Jóhannsson. Þeir líta svo á, að þingið sje bundið af sínum fyrri fjárveitingum. En jeg lít svo á, að það sje ekki bundið af slíku, nema a. m. k. fullkomin vinna komi á móti. Og till. mín fer einmitt fram á að upplýsa það.

Hæstv. forsrh. sagði um aðalorðabókarhöfundinn, Jóh. L. L. Jóhannsson, að þar sem hann hefði tekið við starfi þessu samkvæmt tilmælum þingsins, þá yrði hann að halda launum um sína daga. Jeg get ekki neitað því, að mjer virtist allur hugsanagangur hæstv. forsrh. benda til þess, að verkinu væri meir haldið áfram sem lífsuppeldi heldur en að það væri alvarlega meint sem vísindastarf. En sje það nú hin raunverulega meining aðeins að gera þessum manni fært að lifa án fjárhagslegra sorga, þá er rjett að gera þegar út um það, hvort gefa eigi út þetta verk eða ekki. Sje það rjett hjá hæstv. forsrh., að þetta sje aðeins ellistyrkur gamals manns, og ekki komi til mála að gefa verkið út, og það sje með öllu ónýtt, þá virðist mjer þarflaust, að maðurinn búi hjer í Rvík. Það væri sparnaður, ef hægt yrði að komast hjá því að hækka styrk hans um tvö þús. kr. vegna Rvíkurdýrtíðar. Og ef endilega á að tengja eitthvert orðasöfnunarstarf við þennan framfærslustyrk, þá er vert að athuga, hvort ekki muni unt að orðtaka t. d. Fornbrjefasafnið alt að einu í Búðardal eða Hafnarfirði eins og hjer í Rvík.

Sem sagt, ef blanda á þessu saman í þeirri von, að verkið verði að einhverju gagni, því þá ekki að láta manninn búa á einhverjum ódýrari stað? því verður ekki neitað, að 7 þús. kr. er nokkuð hár ellistyrkur, ef ekki kemur því meiri vinna þar á móti. Það eru ekki nema hæstarjettardómarar, sem eiga rjett til svo hárra eftirlauna, að fullum launum nemi.

Hv. 1. landsk. (SE) sagði, að hann treysti sjer ekki að gera neitt í nefnd viðvíkjandi þessu máli. En jeg vil benda honum á það, að sem þm. verður hann að greiða atkvæði um það, og mun hann betur fær um það að rannsökuðu máli en órannsökuðu. Hann hefir heldur engan rjett til þess að skorast undan að gera það, sem þingið leggur fyrir hann sem þingmann. Við verðum oft að gera ýmislegt, sem við teljum okkur hafa lítið vit á, af því að skyldan býður, að það sje gert, eftir því sem kraftar leyfa.

Háttv. 1. landsk. skaut hjer fram þeirri uppástungu að vísa þessu máli til stjórnarinnar. Mjer virðist þingið engu nær fyrir það. Eins og jeg hefi tekið fram, og hæstv. forsrh. hefir raunar fallist á, þá er það rjett leið og eðlileg, að þingið sjálft geri sjer grein fyrir því, hvernig þessu máli er í raun og veru komið og hvernig því á að haga. Það er ljóst orðið, að þingið hefir aldrei gengið inn á neitt „plan“ í verkinu, svo verkið svífur og hefir svifið í lausu lofti. En athugun mentamálanefndar eða annarar þingnefndar ætti að geta orðið fyrsta sporið í þá átt að fá eitthvert ákveðið skipulag. En ef þessi till. verður feld, þá hefi jeg hugsað mjer að nálgast málið með öðrum hætti. Jeg get strax lýst yfir því, að jeg mun nú eða á næsta þingi koma með aðra þátill., sem fer í þá átt að skora á landsstjórnina að fela háskólanum eða íslenskudeild hans að rannsaka verkið og leggja skýrslu fyrir næsta þing, og verði þá skorið úr því, hvort verkið sje alvarlegs eðlis eða bara ellistyrkur. Jeg hygg, að mjer hafi tekist að sanna, að það yrði til bóta fyrir málið að rannsaka það strax. Það hefir aldrei verið gert. Aðeins frá öðrum manninum hefir komið lausleg skýrsla til fjvn. Nd., en hún hefir haft svo mikið að gera, að hún hefir ekki gefið sjer tíma til þess að rannsaka hana.

Nú er það kunnugt, að hæstv. landsstjórn hefir skorið annan vænginn af starfi þessu, án þess að nokkur rannsókn lægi þar að baki. Hæstv. stjórn álítur, að annar maðurinn megi hætta, af því hann er ungur, en hinn eigi að halda áfram, af því hann er gamall. Þetta bendir greinilega til þess, að hún skoði starf þetta sem form fyrir ellistyrk. En þá kemur til mála, hvort ekki mætti spara með því að láta styrkþegann búa á ódýrari stað en Rvík er.

Jeg býst ekki við að tala fleira um þetta mál að sinni. Jeg held, að málið hafi líka skýrst nokkuð við umr. það, sem nú verður að ákveða, er tvent. Í fyrsta lagi, hvort þingið vill halda áfram að veita fje til orðabókarstarfsins, án þess að hafa hugmynd um, hvað verið er að gera; og í öðru lagi ef það er meiningin að halda því áfram, þá verður að gera út um það sem fyrst, hvort þessi ellistyrkur eigi að halda lengur áfram undir grímu orðabókarinnar. Eða á að segja það strax hreinlega, að það geti ekki komið til mála að gefa þetta út? Hjer sje aðeins verið að hjálpa gömlum manni.