01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í D-deild Alþingistíðinda. (3311)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Jón Sigurðsson:

það er nú ef til vill ekki nema ómakið eitt að fara enn af hreyfa hjer andmælum, en þrátt fyrir það sje jeg ekki ástæðu til að fara í felur með skoðanir mínar í þessu máli.

Jeg mun þá fyrst víkja að ummælum hv. frsm. (BSt). Hann talaði margt um það, að þetta mál þyrfti mikilla og margvíslegra athugana við. Jeg skal ekki neita því, að svo sje. En mjer finst nokkuð langt gengið, ef hann ætlast til þess, að nefnd fari sjerstaklega að liggja yfir því, hvort leyfa eigi hreppsnefndum að fá þurfalinga sína heim eða ekki. Víst er um það, að hvort sem slík till. kemur frá nefnd eða ekki, þá stefndi slíkt ákvæði beinlínis til niðurdreps fyrir fjöldamörg hreppsfjelög. Jeg sje því ekki ástæðu til að skipa nefnd í málið, ef þetta eða aðrar álíka þarfar till. eru helsta athugunarefnið.

Þá drap frsm. á ýmsar fleiri tillögur, sem komið hafa fram í þessu máli, eins og t. d. að steypa saman hreppunum og gera sýslufjelög eða jafnvel alt landið að einu framfærsluhjeraði, af því að öll fátækraframfærsla sje alþjóðarmál. Það er og rjett, að fátækraframfærslan kemur allmisjafnt niður á hin ýmsu hreppsfjelög. En má ekki segja hið sama um vegamál og mörg önnur mál? Og ef þetta hefir átt að skoðast sem ábending fyrir nefndina um að fara út á þessa braut, þá vil jeg mótmæla því harðlega, því að jeg tel hana hættulega.

Þessi till., sem hjer liggur fyrir, snýst að því meðal annars, að tekin verði til athugunar og brtt. gerðar við fyrirmæli sveitarstjórnarlaganna um útsvarsálagningu í sveitum og í bæjum. Um þetta atriði hefir talsvert verið deilt, og nokkrar breytingar hafa þegar verið gerðar í þessa átt. Jeg get ekki sjeð, að málið sje svo flókið, að skipa þurfi milliþinganefnd í það. Satt að segja get jeg ekki sjeð, að allshn. hafi verið ofvaxið að ganga frá þessu máli. Þar eiga sæti lögfræðingar og fulltrúar sveita og kaupstaða. Nefndinni ætti því að vera vorkunnarlaust að afgreiða slíkt mál sem þetta, ef hún hefði viljað nokkuð á sig leggja, og víst er um það, að nefndin hefir ekki á þessu þingi afgreitt þarfari mál.

Viðvíkjandi því að breyta álagningartíma útsvara er það að segja, að þar, sem jeg þekki til, og að líkindum um land alt, er alment óskað, að breyting nái fram að ganga. Ekki sýnist það svo flókið mál, að það ætti að þurfa að hóa saman milliþinganefnd til að ráða úr þeim vanda.

Þá má sjerstaklega geta þeirra frv., er takmarka, hvað telja skuli sveitarstyrk. Þetta mál hefir legið fyrir síðustu þingum og verið rætt þar. Bœði stjórn og þing hafa verið knúð til að taka afstöðu gagnvart því atriði.

Jeg geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. mundu skifta um skoðun, þótt milliþinganefnd yrði skipuð í málið og kœmi fram með tillögur. Málið hefir einnig verið rætt hjer svo mjög undanfarið, að ekki er þess að vænta, að nein ný gögn komi fram.

Enn má líta á eitt í þessu sambandi. Hvernig hefir reynslan verið af þeim milliþinganefndum, er hjer hafa verið skipaðar á síðustu árum? Að vísu hafa nefndir, sem skipaðar hafa verið í mál sjerstaks eðlis, sem engin lög hafa verið til um áður, eins og t. d. fossamálið og berklavamamálið, gert allmikið gagn. En að þeim nefndum frátöldum má yfirleitt segja, að árangurinn af milliþinganefndum síðustu ára hafi ekki orðið annar en sá, að þær hafa hrúgað upp lagabálkum, sem enginn vill líta við, með ærnum kostnaði. Og jeg hygg, að svo geti farið hjer, ef milliþinganefnd yrði skipuð. Sje nú litið á kostnaðarhliðina og borinn saman kostnaður við lagasmíði stjórnarinnar og milliþinganefnda á síðustu árum, liggur það þegar í augum uppi, hversu miklu dýrari lagasamning milliþinganefndanna hefir orðið, og ekki síður hitt, að samþyktir hafa verið fjöldamargir merkilegir lagabálkar, sem stjórnin hefir borið fram, en lagabálkar milliþinganefnda hafa átt misjöfnu og litlu gengi að fagna.

Jeg skal ekki vera margorður um þann kostnað, er jeg hygg að slík nefndarskipun mundi útheimta. Þegar skýrslur og fylgiskjöl eru tekin með í reikninginn, mun hann ekki verða minni en 20 þús. kr., einkum þar sem svo er að sjá á ástæðum hv. allshn., að nefndin eigi að starfa, ekki aðeins í ár, heldur næstu ár líka, eða hún eigi með öðrum orðum að treina sjer það í fleiri ár, þar sem ekki er gert ráð fyrir, að hún hafi afgreitt annað fyrir næsta þing en ákvæðin um útsvarsálagningu og kosningar í sveitarmálefnum.

Það hefir verið sagt hjer, að ekki væri minni þörf á að skipa nefnd nú í þetta mál en 1901. Jeg skal ekki segja um, hve mikil þörfin hefir verið þá, enda sannar það ekkert nauðsyn á slíku nú. Þótt vel tækist þá um lagasetningu, er ekki þar með sagt, að svo fari nú. Lögin frá 1905 hafa yfirleitt gefist vel, og almenningur óskar ekki breytinga á þeim. Það eru aðeins nokkrar greinar í þeim, sem þarfnast breytinga, en engar þeirra eru þannig vaxnar, að ekki megi fulltreysta stjórninni til að taka þær til athugunar með aðstoð kunnugra manna, þar sem þess þarf með, og gera í því efni tillögur fyrir næsta þing. En hitt er vafasamt, hvaða gagn mundi leiða af skipun milliþinganefndar, og sú tilraun er alt of dýr, ef hún mishepnast. Jeg vil því leyfa mjer að bera upp og afhenda forseta svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Í trausti þess, að stjórnin íhugi þœr breytingar, sem lagt hefir verið til að gerðar verði á sveitarstjórnar-, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöfinni, og leggi tillögur sínar fyrir næsta Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.