21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í D-deild Alþingistíðinda. (3344)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Guðmundur Ólafsson:

Mjer hefir fundist, þegar talað hefir verið um þetta mál, að þá hafi ekki verið byrjað á upphafi þess, því eins og kunnugt er, hefir öllum slíkum málum verið vísað til stjórnarinnar nú tvö síðustu þing, með það fyrir augum, að stjórnin tæki sveitarstjórnarlöggjöfina til nákvæmrar endurskoðunar og kæmi fram með gagngerðar breytingar á henni.

Á síðustu þingum hafa þingmenn komið fram með ýmsar breytingar á löggjöf þessari. Og hafa allsherjarnefndir þingsins æfinlega notað þessa sömu aðferð, að vísa slíkum frv. til stjórnarinnar. Jeg bjóst því við, að hæstv. stjórn legði frv. í þessa átt fyrir þetta þing. Og það því fremur, þegar á þinginu í hittifyrra var ákveðið að leggja þetta mál fyrir allar hreppsnefndir, bæjarstjórnir og sýslunefndir í landinu, til þess að leita álits þeirra. En vitanlega var orðið svo áliðið, þegar það var samþykt, að víða var þá búið að halda sýslufundi, svo að vel má vera, að stjórnin hafi ekki getað lagt frv. í þessa átt fyrir þingið í fyrra, af því að svör hefir vantað frá sýslunefndum. En það hefði þá átt að vera hægt á þessu þingi.

Annars skildist mjer á hæstv. atvrh., þegar hann talaði fyrir frv. sínu um úrskurði í útsvarsskyldumálum, að hann hefði ekki treyst sjer til þess að koma með víðtækari breytingu á þessari löggjöf.

Annars er jeg ekki nærri því eins hissa á þessari framkomu hæstv. stjórnar eins og framkomu hv. allshn. beggja deilda í þessu máli. Þær hafa haft mál þessi til meðferðar og komist einróma að þeirri niðurstöðu, að best mundi að vísa þeim öllum frá og skipa milliþinganefnd til þess að athuga þau öll í heild. Um þetta eru nefndir beggja deilda sammála. En tillagan er ekki fyr komin inn í þingið til umræðu en nefndirnar klofna, og nokkur hluti þeirra, Íhaldsmenn, gengur á móti sinni eigin tillögu. Þegar samheldnin náði ekki lengra en þetta, var svei mjer ekki þess að vænta, að þær hefðu getað komið fram með verulegar breytingar á sveitarstjórnar- eða fátækralöggjöfinni, sem til frambúðar hefðu orðið.

Jeg vissi um tillöguna áður en hún kom fram og bjóst við að geta fylgt henni, enda þótt jeg vissi, að slík nefndarskipun hefði allmikinn kostnað í för með sjer, þar sem það var reynt, að hv. allsherjarnefndir höfðu ekki á undanförnum þingum treyst sjer til að koma með nokkrar nýtilegar tillögur í málinu, og jeg hinsvegar taldi, að stjórnin hefði getað komið fram með meira en þetta eina frv. um breytingu á sveitarstjórnarlöggjöfinni, ef hún hefði haft áhuga fyrir því.

Það er búið að hæla mikið núgildandi sveitarstjórnarlöggjöf okkar, og get jeg tekið þar í sama strenginn, því að þó að farið hafi verið fram á ýmsar breytingar á henni, hafa þær margar verið smávægilegar. Er það mikill heiður fyrir milliþinganefnd þá, er undirbjó hana.

Það, sem mest ýtir undir mig að falla frá tillögunni um nefndarskipunina, er það, að mjer skilst á hæstv. atvrh., að hann beinlínis vilji fá að fjalla um þetta mál og að nokkur undirbúningur sje þegar gerður af honum í þessu efni. Líka á orðalag tillögunnar sinn þátt í því, þar sem hún kveður svo á, að þess sje vænst, að fyrir næsta þing verði aðeins lögð frumvörp um útsvarsskyldu manna og kosningar til sveitar- og bæjarstjórnar. Og jeg get vel fallist á, sje aðeins átt við þann hluta sveitarstjórnarlaganna, að þá sje það ekki stórt starf fyrir milliþinganefnd á þessu ári.

Eftir því sem kom fram í ræðu hv. þm. Vestm. (JJós), þegar hann var að svara hv. 5. landsk. (JJ), virtist mega ætla, að þetta væri flokksmál hjá Íhaldsflokknum. En jeg fyrir mitt leyti treysti mjer ekki til að gera það að flokksmáli. Jeg vil fara þá leið, sem jeg tel skynsamlegasta, sem sje þá, að skipa ekki milliþinganefnd nú, en fela hæstv. stjóra málið í þetta sinn. En fari svo, að hún leggi ekki frv. um þessi mál fyrir næsta þing, þá mun ekki þýða fyrir hana að óska eftir að fá þau aftur, enda mun þá fullreynt, að ekki verður hjá því komist að skipa milliþinganefnd í þau.