21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í D-deild Alþingistíðinda. (3349)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Ingvar Pálmason:

Það er nú búið að tala nokkuð um þetta mál frá ýmsum hliðum. En jeg vil nú samt leyfa mjer að líta á það nokkuð öðrum augum en hjer hefir verið gert, ekki síst vegna þess, að á síðasta þingi flutti jeg hjer mál, sem kom dálítið inn á þetta. Það var mjög lítilfjörleg breyting á sveitarstjórnarlögunum, en eftir minni reynslu af sveitarstjórn í kauptúni, sem er hreppur út af fyrir sig, taldi jeg þá breytingu alveg nauðsynlega. Hv. allshn. þessarar deildar var sammála um frv. þetta, að í því væru nauðsynlegar umbætur, og það var alls ekki af því, að það væri álitið ónauðsynlegt eða ætti að eyða því, að því var vísað til hæstv. stjórnar, því það var tekið skýrt fram í áliti nefndarinnar, að hún væri stefnu frv. fylgjandi, og því var áreiðanlega vísað til stjórnarinnar í þeirri fullu trú, að hún mundi leysa málið. En svo hefir ekki farið. Jeg geri ráð fyrir, að ástæður liggi til þess, að hæstv. atvrh. (MG) hefir ekki leyst þetta mál milli tveggja þinga. Mjer virðist, að til þess geti legið tvær ástæður einkum, önnur sú, að hann hafi ekki haft tíma eða vantað nauðsynleg gögn, hin sú, að hann hafi ekki viljað sinna málinu. Og finst mjer þetta, að nú kemur ekkert frá stjórninni um það mál, einmitt benda á það, að hún hafi ekkert viljað í þessu gera. Jeg spurði hæstv. atvrh. snemma á þessu þingi, hvort von væri á nokkru frá honum í þessu máli, og neitaði hann því alveg. Önnur svör fjekk jeg ekki. Ef hæstv. ráðh. hefði þá sagt, að málið væri í undirbúningi og kæmi sennilega fram á næsta þingi, þá mundi jeg ekki hafa þurft að geta mjer til um ástæður hans. Og það getur vel verið, að hann lýsi þessu yfir nú. En af þeirri reynslu, sem við höfum af því að vísa slíkum málum til stjórnarinnar, þá verð jeg að segja það, að það er ekki mjög ótítt fyrir þá, sem áhuga hafa fyrir því, að einhver breyting komist á í þessum efnum, að þeir verði fyrir vonbrigðum, einkum þegar stjórnin er svo þögul sem nú um það, hvað hún hafi gert eða hvað hún ætli að gera. Nú verð jeg að álíta, af því, sem komið hefir í ljós í þessum umræðum, að annaðhvort hafi hæstv. stjórn ekki viljað láta uppi, hvað hún hafi gert eða gera látið í þessu máli, eða hún hafi ekkert gert til að hrinda málinu áfram. Nú lýsir hæstv. atvrh. því yfir, að það muni vera heppilegast, að stjórnin leysi málið. Og þótt jeg vilji engan veginn fallast á það, þá er það nokkurn veginn víst, að sú leið verður farin. Þess vegna vil jeg nú við þessa umræðu gefa stjórninni nokkrar bendingar um þau atriði, sem jeg tel mestu varða, að verði gaumur gefinn í þessu máli. Fyrst og fremst álít jeg knýjandi nauðsyn bera til þess að taka tillit til þeirra breytinga, sem orðið hafa, er kauptún hafa orðið sjerstök hreppsfjelög út af fyrir sig. Jeg skil það, að hæstv. atvrh. sje slíku ókunnugur, eða hann er a. m. k. furðudulur á þekkingu sína í þessu efni. Þess vegna bendi jeg stjórninni á þetta, þegar hún tekur málið til meðferðar, að hafa það fyllilega í huga að taka þessa bendingu til greina. Mjer er ekki hægt í stuttri ræðu að koma fram með ákveðnar till. að því er snertir þessi hreppsfjelög. En jeg vil mælast til þess, að hæstv. stjórn leiti umsagnar rjettra hlutaðeiganda. Þar með meina jeg stjórnarvöld þessara hreppa, en ekki sýslunefndir, því þessi hreppsfjelög hafa oft talsvert erfiða aðstöðu gagnvart sýslunni. Vil jeg í því sambandi benda á það, að t. d. Neshreppur í Norðfirði greiðir einn milli 1/5 og 1/4 af öllu sýslusjóðsgjaldi Suður-Múlasýslu. En þó eru 15 hreppar í sýslunni og aðeins 800 menn í Neshreppi. Og enn eru tveir hreppar aðrir í sýslunni, sem líkt er ástatt um og greiða nokkru minna. Þetta er mjög alvarlegt mál, og orsökin til þessa er sú breyting, sem nýlega var gerð á skipulagi sýslusjóðsgjaldsins. Í þessu sambandi vil jeg ennfremur minna á það, að áður var svo ákveðið, að þeir kaupstaðir, sem voru hreppsfjelag út af fyrir sig, gætu fengið heimild sýslunefndar til þess að verja öllu sínu vegagjaldi til vegalagninga innan hreppsins. En í fyrra var þessu breytt þannig, að nú geta þeir ekki fengið heimild til nema helmings af gjaldinu. Sýslunefnd Suður-Múlasýslu hefir undanfarið veitt á hverju ári þremur hreppum heimild til þess að verja þessu gjaldi til vegalagninga í hreppunum. Nú má hún ekki leyfa nema hálft gjaldið. Á þetta vildi jeg benda, ef það gæti kastað ljósi yfir fleiri atriði, sem kunna að dyljast hæstv. atvrh. þess ber vandlega að gæta, hversu mjög staðhættir hafa breyst víða hjer á landi á síðustu árum, en einna mest þó sumstaðar í Suður- Múlasýslu og á stöku stað á Vestfjörðum.

þá ljet hæstv. atvrh. í ljós í ræðu sinni, að það, sem sjerstaklega lægi fyrir stjórninni milli næstu þinga, ef málinu yrði nú vísað til hennar, væri þau tvö atriði, sem tekin eru fram í greinargerð till. En þar er jeg alveg ósammála. Jeg lít svo á, að það sje fyrst og fremst sjálf till., en ekki greinargerðin, sem kemur til greina, ef málinu er vísað til stjórnarinnar, en ekki til milliþinganefndar, því greinargerðin á alveg við milliþinganefndina. Það, sem vísað er til stjórnarinnar, ef svo fer, er að íhuga og undirbúa bæjarstjórnar-, sveitarstjórnar- og fátækralöggjöfina. Þetta er verkefnið, og það verður að koma skýrt fram, að svo sje, því jeg get ekki fyrir mitt leyti sætt mig við það, að vísað sje til stjórnarinnar aðeins þessum tveimur liðum í greinargerðinni. Hitt er spurning, að hve miklu leyti stjórninni endist tími til þess að leggja síðustu hönd á þetta verk alt.

Jeg tek undir það með hæstv. atvrh., að það sje óheppilegt að gera þetta mál að flokksmáli, en því miður dylst mjer ekki, eftir ýmsum sólarmerkjum að dæma, að málið er orðið flokksmál að meira eða minna leyti. Jeg vil benda á það, að flutningsmenn hv. allshn. beggja deilda hafa hvikað frá sínu sameiginlega áliti frá því till. kom fram fyrst, og það lítur sannarlega út í mínum augum sem flokksáhrif. Í þessu sambandi vil jeg benda á það, að ef það hefði t. d. gengið fram í hv. Nd. að vísa málinu til stjórnarinnar, þá er það auðvitaður hlutur, að till. hefði ekki komið hjer til atkvæða.