01.05.1925
Efri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í D-deild Alþingistíðinda. (3388)

121. mál, samgöngubætur milli Reykjavíkur og Suðurláglendisins

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hafði fremur haldið, að hv. 5. landsk. (JJ) mundi bera fram fyrirspurn til stjórnarinnar um þetta efni, en ekki koma fram með þáltill. Það er sem sje óþarfa fyrirhöfn að vera fyrst að samþykkja þál. og spyrja síðan. Till. til þál. er því alveg óþörf. Þess vegna tek jeg þetta mál eins og það væri fyrirspurn til stjórnarinnar, og mun jeg svara því, sem jeg get, og gerir svo hv. 5. landsk. (JJ) það, sem hann vill í þessu. Þó teldi jeg rjettast, að hann tæki þessa till. til þál. aftur, til þess að ekki þurfi að ræða málið oftar. (JJ: Jeg er við þessu búinn).

Í ræðu hv. 5. landsk. var aðallega þetta tvent: 1. Hvað væri nauðsynlegt að gera til samgöngubóta á Suðurlandi?

2. Hvað búið væri að gera í þessu, með sjerstöku tilliti til virkjunar á Urriðafossi í þjórsá?

Um fyrra atriðið er það að segja, að það er rjett, sem hv. 5. landsk. nefndi, að vegamálastjóri hefir í smíðum ritgerð um samgöngubætur á Suðurlandi, en þar sem ritgerðin er ekki komin út enn og jeg hefi alls ekki sjeð hana, veit jeg ekki, hvað í henni stendur, og get því ekki tekið afstöðu til tillagna hans, meðan mjer eru þær ókunnar. En prentun þessarar ritgerðar mun verða lokið næstu daga, og mun þá verða reynt að útvega þingmönnum eintök af henni, svo að þeir geti kynt sjer hana áður en þeir fara af þingi. Annars er það svo, að engin ákvörðun er tekin um samgöngubætur á Suðurlandsundirlendinu, enda geri jeg ekki ráð fyrir, að neinn hafi við því búist, þar sem þingið ákvað í fyrra að sleppa öllum verklegum framkvæmdum í ár, og af fjárlagafrv. fyrir árið 1926 sjest, að til járnbrautarlagningar er ekki heldur ætlað fje það ár. Hinsvegar get jeg getið þess, að stjórnin hefir rætt þetta mál og hefir fullan áhuga á því, en þar sem engin ákvörðun er tekin, ræður af líkum, að jeg finn enga ástæðu til að skýra frá því, sem á góma hefir borið hjá stjórninni. Jeg geri ráð fyrir, að einhverjar tillögur muni ef til vill verða bornar fram um þetta mál á næsta þingi, enda er Flóaáveitunni, sem hv. þm. setti rjettilega í samband við þetta mál, ekki lokið enn, en ráð er fyrir gert, að henni verði lokið á þessu ári, svo að þétta sumar verði hið síðasta, sem Flóinn verður áveitulaus. En svo er að vita, hvernig áveitan reynist. Sumir hafa spáð vel fyrir þessu fyrirtæki og vænta góðs af, en aðrir hafa spáð illa um það. Jeg er einn af þeim, sem vel hafa spáð um þessa áveitu og vona, að hún reynist vel, en meðan henni er ekki fulllokið er of snemt að kveða upp nokkum dóm um það, hvernig hún muni reynast.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) talaði um, að bændur á áveitusvæðunum mundu flosna upp af jörðum sínum, ef samgöngur austur þangað yrðu ekki bættar eða annað gert til að ljetta þeim að bera byrðamar af áveitunni. En þetta tel jeg ástæðulausan ótta, því að jeg geri ekki ráð fyrir, að ríkissjóður muni ganga fast eftir greiðslum af lánum bænda til áveitunnar, nema víst sje áður, að þeir sjeu færir um að greiða. Jeg er því ekki eins hræddur um afkomu bænda þar eystra framvegis eins og hv. þm. (JJ). En aðalatriðið í þessu máli er það, að áveitan beri sig, og eitt af því, sem vantar til þess, að það geti orðið, eru bættar samgöngur. En það er fleira, sem gera þarf, en samgöngubætur. Það þyrfti t. d. nauðsynlega að koma þar á fót stóm rjómabúi o. fl. (SE: Og margarineverksmiðju). Hún er til austur í Hreppum, og það ætti að nægja hv. 1. landsk. (SE).

Þá er hitt atriðið, sem hv. flm. (JJ) spurði um, samningarnir við „Titan“. Jeg held, að jeg geti ekki svarað því betur með öðru en að lesa upp tvö brjef, sem stjórnin hefir látið rita til tveggja manna hjer í bænum um þetta mál, þeirra kaupm. Sturlu og Friðriks Jónssona. En þar eð jeg hefi lesið bœði brjefin áður fyrir hv. Nd., vænti jeg, að skrifararnir þurfi ekki að taka þau upp hjer, því að nóg er, að brjefin sjeu birt einu sinni í þingtíðindunum. Brjefin hljóða svo: (Sjá B-deild 1660–1661).

Jeg skal geta þess, að ástæðan til síðara brjefsins var sú, að þessir menn komu til stjórnarinnar og skýrðu henni frá, að óhugsandi væri að ætlast til, að Urriðafoss yrði tekinn til virkjunar, nema járnbraut yrði lögð austur þangað áður. Það þyrfti að flytja þangað austur ýms tæki og vjelar, sem væru svo þung og erfið í flutningum, að ómögulegt væri að flytja þau nema á járnbraut. Svar við þessari málaleitun hefi jeg nú lesið hjer fyrir hv. deild, og sjest af þvf, að málinu er mjög skamt komið enn þá. Þar segir ekki annað en að ráðuneytið er fúst til að taka upp samninga um þetta mál.