01.05.1925
Efri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í D-deild Alþingistíðinda. (3391)

121. mál, samgöngubætur milli Reykjavíkur og Suðurláglendisins

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg skal játa, að hæstv. atvrh. (MG) hefir svarað allítarlega sumum þáttum í ræðu minni. Stjórnin hefir nú sagt nokkuð frá skiftum sínum við „Titan“, og eins og sjá má af brjefi hæstv. stjórnar, mun ekki vera mikil von fyrir menn eystra um, að fjelagið ráðist í að gera samgöngubætur á Suðurlandi. En maður veit nú, hvað stjórnin hefir lagt til þessa máls.

Háttv. 1. landsk. þm. (SE) bar fram fyrirspurn til stjórnarinnar, sem jeg vil víkja að nokkrum orðum, áður en jeg tek til athugunar svar hæstv. stjórnar við spurningum mínum. Enda þótt jeg telji hugsanlegt, að komið gæti til mála, að samningar næðust milli þingsins og einhvers erlends iðnaðarfjelags, álít jeg þó, að stjórnin sjálf geti ekki samið um slík stórmál, og í því sambandi vil jeg leyfa mjer að finna að forminu á brjefi hæstv. atvrh. (MG), því að bæði jeg og margir aðrir, innan þings sem utan, álítum, að stjórnin hafi enn þá alls enga heimild til þess að veita slík sjerleyfi, hvorki um virkjun nje annað, og geti enga slíka samninga gert, meðan sjerleyfislögin eru ekki gengin í gildi, án þess að spyrja þingið áður um þau mál. Jeg álít, að þingið geti alls ekki sætt sig við, að nokkur stjórn, þessi eða hver sem væri, semji um önnur eins stórmál og járnbrautarlagningu eða fossavirkjun án þess að gefa þinginu tækifæri til að láta álit sitt uppi um það.

Nú má að vísu svara því til, að þingið sitji ekki nema lítinn hluta úr ári og að stjórnin verði að halda þræðinum óslitnum í þeim málum, sem koma fyrir milli þinga.

Jeg þóttist heyra það á svari hæstv. atvrh., að hann áliti, að það gæti komið til mála, að stjórnin veitti leyfi milli þinga til virkjunar á jafnstóru vatnsfalli og Urriðafoss er, eða að hún gerði bindandi samninga um járnbrautarlagningu. Jeg veit, að hæstv. atvrh. skilur vel nauðsynina á því að halda slíkum málum vakandi milli þinga, og að leita hófanna um hitt og þetta getur verið mjög gagnlegt, en hitt veit hæstv. ráðh. vel að er nú mikið deiluatriði meðal margra þm. og annara, hvort stjórnin hafi heimild til að gera bindandi samninga um stórmál eins og þetta án vitundar þingsins. Það má vel skilja af þessum brjefum, að ef aðiljar brjefanna hefðu haft þegar nægilegt fjármagn til að hefjast handa um einhverjar framkvæmdir, þá væri stjórnin reiðubúin til að gera við þá bindandi samninga, hvað sem Alþingi segði, ef aðeins stjórnin sjálf áliti, að þeir samningar væru hagfeldir. En þessar samningaumleitanir „Titans“ hafa í rauninni aðeins „teoretiska“ þýðingu, því markmið fjelalgsins er sem stendur hvorki að virkja fossa nje leggja járnbrautir, heldur aðeins að lifa, því eins og nú er, er ekki glæsilegt útlit þess háttar stóriðju. Ef við lítum t. d. til Noregs, þar sem fossavirkjanir hafa verið allmikið framkvæmdar, sjáum við, að þar eru margar stórar og fullkomnar orkustöðvar, sem standa ónotaðar, vegna þess, að ekki svarar kostnaði að starfrækja þær. Jeg var í Noregi í fyrra, og þar vissi jeg til, t d. í Harðangri, að tvær stórar stöðvar stóðu ónotaðar, og var þó önnur þeirra mjög fullkomin og rjeð yfir mikilli orku. ޜr höfðu verið bygðar á stríðsárunum, en stóðu nú ónotaðar. Það eru því tálvonir einar að ætla, að þeir menn, sem fje hafa, leggi það í slík fyrirtæki hjer, þegar ekki þykir borga sig að gera það erlendis, þar sem öll aðstaða er betri. Jeg skal benda á, að hjer þarf járnbraut áður en til virkjunar kæmi, sem kostar líklega tugi milj. kr. það þarf hafnir, bryggjur, skipastól til inn- og útflutninga o. s. frv. það eru því tálvonir að ætla, að erlend stóriðjufjelög leysi okkur úr samgönguvandræðunum. Þetta getur átt sjer stað sumstaðar erlendis, og þó aðeins þar, sem öll aðstaða er góð, en við sjáum, hvernig það er í Noregi. Það eru því litlar vonir um, að erlent fjármagn komi okkur að nokkrum notum, en það útilokar þó ekki, að stjórnin haldi augum og eyrum opnum viðvíkjandi þessum málum, en hitt kemur ekki til mála, að gera um þau bindandi samninga án vitundar þingsins.

Svar hæstv. atvrh. viðvíkjandi „Titan“ var miklu ítarlegra en um hitt atriðið. Jeg mun síðar víkja að spurningu hv. 1. landsk. (SE). En um hitt atriðið hefir hæstv. stjórn látið minna uppi. Þó tel jeg þá upplýsingu dálitla úrlausn í málinu, að stjórnin lofar að leggja tillögur um samgöngubætur á Suðurlandi fyrir næsta þing; en jeg bjóst við, að hæstv. stjórn mundi fást við að láta uppskátt, hvort hún kysi heldur járnbraut eða nýtískuvegi, því kunnugt ætti þó stjórninni að vera um niðurstöður verkfræðingana um þau atriði. En hæstv. forsrh. (JM) hefir ekki sjeð ástæðu til að fara nánar út í þá hlið málsins fyrir sitt leyti. Jeg get þó ekki betur sjeð en að þingið eigi kröfu til að fá að vita, hvaða aðallínum stjórnin ætlar að fylgja í þessu máli. Landsmenn bíða með óþreyju eftir vitneskju um það, enda á einn fjórði hluti þeirra beinlínis hlut að máli.

Jeg get ekki lýst ánægju minni yfir ræðu hæstv. forsrh. Hjá honum kom engin viðleitni fram til að skýra málið, og það lítið hann sagði var mjög fávíslegt. Hann sagði, að jeg þyrfti ekki að spyrja sig um þetta mál. Jeg verð að taka þessi orð hans svo, að heimskulegt sje að ætlast til, að hann efni loforð sín, eða hafi skoðun um stór mál.

Það er ekki nægilegt að heyra skoðun hæstv. atvrh. á þessu máli. Hæstv. forsrh. hefir oft látið þá skoðun í ljós, að ekki þyrfti að vera samkomulag innan stjórnarinnar um mál sem þessi, heldur gæti einn ráðherranna tekið ákvörðun upp á eigin spýtur — og þá líklega ekki síst sá, sem er þeirra æðstur, sem sje forsrh. Jeg tel það ekki heldur góðan fyrirboða, að hæstv. fjrh. er ekki staddur við þessar umræður. (Atvrh. MG: Hann er bundinn við umræður í Nd.). Hæstv. atvrh. er sá ráðherrann, sem best hefir komið fram í þessu máli, enda þótt hann hafi engu lofað. En ekki tel jeg það næga ástœðu fyrir hæstv. fjrh. að vera fjarverandi umræður í þessu máli, þó að verið sje nú í hinni deildinni að stofna embœtti handa dr. Alexander, sem Íhaldsflokkurinn vildi losa frá háskólanum í fyrra.