11.02.1925
Neðri deild: 4. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

5. mál, skiptimynt

Fjármálaráðherra (JÞ):

Með þessu frv. er farið fram á það, að slegin sje innlend skiftimynt. Það er, að slegnir verði peningar, er gildi 2 kr., 1 kr. og svo niður eftir, eftir því sem þurfa þykir. Á þessi nýja skiftimynt að koma í stað þeirrar skiftimyntar, sem áður hefir verið löglegur gjaldeyrir manna á milli hjer á landi, þ. e. hinna dönsku silfurpeninga og smámyntar og í stað krónuseðlanna íslensku, en núgildandi lagaákvæði um innlenda 10-eyringa og 25-eyringa eru tekin upp í frv. Frv. þetta er í samræmi við sama háttar löggjöf annara Norður- landaríkja, sem áður höfðu öll samskonar skiftimynt, en eftir að gengi Norðurlandapeninganna varð svo mismunandi, sem nú er orðið, hafa þau öll horfið að því ráði að gera skiftimynt hvert fyrir sig, þannig, að þeir peningar gilda aðeins í því landi, sem þeir eru slegnir í eða fyrir, en alls ekki í hinum Norðurlandaríkjunum. Að því er undirbúning þessa frv. snertir hefir stjórnin notið aðstoðar og upplýsinga frá peningasláttu danska ríkisins um alt það, er snertir stærð, gerð og útlit peninganna o. s. frv.

Samkvæmt viðauka við myntsamninginn milli Norðurlandaríkjanna, sem við einnig höfum gengið að, þarf hvert ríkið fyrir sig að gæta þess, að gera ekki sína sjerskiftimynt svo líka samskonar peningum neins hinna ríkjanna, að um þá verði vilst eða hætta á misgripum, og hefir gerð þessara peninga því verið borin undir stjórnir hinna ríkjanna, en svör frá Noregi og Svíþjóð ókomin enn. Upp í þetta frv. eru tekin ákvæði um að halda óbreyttri þeirri 25 og 10 aura skiftimynt, sem við höfum þegar fengið, og þarf engrar breytingar við að því er þá peninga snertir. Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að ræða þetta frv. frekara að þessu sinni, og geri jeg það að till. minni, að því verði að aflokinni þessari umr. vísað til allshn.