24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

1. mál, fjárlög 1926

Forsætisráðherra (JM):

Í rauninni er óþarfi að svara hv. 1. þm. Árn. (MT) fleiru en jeg þegar hefi gert. Jeg hefi áður sýnt fram á, að hann hafi breytt ræðu sinni, og hann viðurkendi það einnig nú, enda þótt hann reyndi að afsaka sig. (MT: Vill hæstv. forsrh. ekki lesa ræðuna?). Jeg trúi eigin játningu háttv. þm. (MT).

Þá talaði hann enn um „hegðun upp á við“, og er það næsta spaugilegt orðatiltæki og hv. þm. til lítillar frægðar, ef hann hefir fundið það upp, og sýnir aðeins fákunnáttu hans. Saga sú, sem vitnað var til í þessu sambandi, er kunn öllum sæmilega mentuðum mönnum, og hefir einn sinni áður verið minst á hana í hv. Ed. Annars get jeg ekki verið að eyða fleiri orðum út af þessu við háttv. 1. þm. Árn. (MT).