01.04.1925
Efri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

86. mál, Landhelgissjóður

Eggert Pálsson:

Jeg ætla ekki að vera langorður. Það á heldur ekki við, vegna aðstöðu minnar til þessa máls, sem mjer og kjósendum mínum kemur svo lítið við beinlínis. En hins vegar þykir mjer viðeigandi, þegar verið er að ganga frá þessu frv. og leggja á það síðustu hönd, að þá sje minst þess manns, sem lagði grundvöllinn að þessu máli, sem sje sjera Sigurðar sál. Stefánssonar. Hann var sá, sem fyrst kom fram með frv. um landhelgissjóðinn. Og sú sjóðstofnun varð vitanlega til þess, að nú er hægt að afgreiða þetta frv. sem lög frá þinginu. Hann er sá maðurinn, sem með fyrirhyggju sinni á stærsta heiðurinn fyrir það, að draumurinn um fullkomið sjerstakt íslenskt varðskip nær nú að rætast. En sem sagt, jeg ætlaði ekki að halda neina ræðu, en þótti aðeins rjett, að þetta atriði kæmi fram nú í umr.