16.03.1925
Efri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

13. mál, smjörlíki

Sigurður Eggerz:

Við 1. umr. þessa máls beindi jeg þeirri málaleitun til þeirrar nefndar, sem fengi málið til meðferðar, að hún leitaði sjer álits sjerfróðra manna í þessum málum, og eins skyldi hún afla sjer upplýsinga um, hvaða stefna væri ríkjandi erlendis í þessu máli, einkum hjá þeim þjóðum, sem lengst væru komnar í þessum iðnaðargreinum, t. d. Dönum. En við athugun nál. verður ekki sjeð, að nefndin hafi gert neitt í þessa átt, og tel jeg það illa farið. Þegar jeg sá, að nefndin hafði ekkert aðhafst í þessa átt, fór jeg til sjerfróðs manns og leitaði álits hans í þessu máli, og ennfremur bað jeg hann um upplýsingar viðvíkjandi því, hvort erlendis væri ekki álitið verulegt atriði í þessum iðnaði, að haldið væri aðgreindri smjörlíkisgerð frá smjörgerð. Maður sá, sem jeg leitaði til, var hr. Trausti Ólafsson efnafræðingur, forstöðumaður efnarannsóknarstofu ríkisins.

Þau svör, sem jeg fjekk, voru þess efnis, að alstaðar erlendis væri það talið mjög þýðingarmikið atriði í þessum málum, að smjör- og smjörlíkisgerð væri haldið vel sundurgreindri. Jeg fjekk hjá honum lista yfir mörg lönd, sem öll hafa mjög ströng ákvæði hjá sjer í lögum um það, að smjör- og smjörlíkisgerðir skuli vera aðskildar, og sýnir það ljóst, að þessar þjóðir allar álíta það raunverulegt atriði að aðskilja þessar iðnaðargreinir, og jafnvel eru í sumum löndum ákvæði í lögum, sem banna að selja smjör og smjörlíki í sömu verslunum. Hjer leyfi jeg mjer að lesa upp þau lönd, sem hafa leitt í lög hjá sjer aðgreining á smjör- og smjörlíkisgerð:

1. Þýskaland +, 2. Austurríki, 3. Belgía +, 4. England, 5. Danmörk, 6. Frakkland +, 7. Holland +, 8. Ungverjaland +, 9. Luxemburg, 10. Noregur, 11. Portúgal, 12. Rússland +, 13. Finnland, 14. Sviss, 15. Svíþjóð, 16. Ítalía.

Síðasttalda landið er þó undantekning að því leyti, að þar er ekki lögleitt að sundurgreina þessar tvær iðnaðargreinir, en það hefir eins og þessi lönd öll lögboðið eftirlit með smjörlíkisgerð. Í þeim löndum, sem á listanum eru merkt með +, er einnig bönnuð sala á smjöri og smjörlíki í sömu verslun.

Þetta var það, sem háttv. landbn. hefði átt að leita sjer upplýsinga um.

Nú er sú hreyfing að vakna með þjóðinni að efla landbúnaðinn meir en gert hefir verið undanfarið, og ætti sú hreyfing að hafa byr undir báða vængi hjer á þingi sem annarsstaðar. Nú er verið að gera tilraunir til þess að koma á fót lánsstofnunum landbúnaðinum til styrktar, og yfirleitt er þjóðin að vakna til þess að gera meira en áður hefir verið gert fyrir landbúnaðinn. En þá skýtur nokkuð skökku við, ef við förum þá að brjóta grundvallarreglur annara þjóða, sem lengra eru komnar í öllum búnaðarmálum en við, og um leið raska með því grundvelli þeim, sem framtíðarmarkaður íslenska smjörsins hvílir á. Það var yfir höfuð mjög óheppilegt, að þingið 1923 skyldi veita þetta lán, og sýnir bæði það, og eins stefna þess í fyrra, er það neitaði eftirgjöf á láninu, hversu einmitt vanþekking þess er og hefir verið mikil í þessum málum. Og það var því síður ástæða til að veita þennan styrk, þar sem smjörlíkisgerð er nálega ávalt gróðafyrirtæki. En þó að þetta misstig hafi nú átt sjer stað, er þó minni ástæða til þess að halda lengra áfram á þessari skökku braut. Það er því miklu betra að gefa heldur eftir lánið að fullu en að stofna smjörmarkaðinum í voða. Það er vissulega óheyrilegt, ef það á að vinna til fyrir einar vesælar 5 þús. krónur! Auk þess hefi jeg þegar við 1. umr. um þetta frv. sýnt fram á það, að jafnvel þó lánið yrði ekki eftirgefið, en smjörlíkisgerðin flytti sig á braut í næsta kauptún, t. d. Eyrarbakka, yrði það samt gróði fyrir þetta fyrirtæki. Þá fyrst fengi það tækifæri til þess að græða svo nokkru næmi. Þetta bann er því í raun og veru alls ekki ilt fyrir smjörlíkisiðnaðinn.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál, en vil aðeins benda á í þessu sambandi, að það er ekki takandi svo mikið mark á því, þótt frv. fengi svo greiða afgreiðslu í Nd. sem það fjekk, því að þar eru nú allmargir þm., sem þegar eru farnir að sjá eftir þessu, er þeir hafa fest augu síðar á því, sem rjett er í þessu máli, og vita um þá reynslu, sem fengin er um þetta annarsstaðar.