16.03.1925
Efri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

13. mál, smjörlíki

0478Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg ætla ekki að gera þetta mál að kappsmáli; það er ekki svo stórvægilegt. En vegna þess, sem hv. 1. landsk. þm. (SE) sagði um hættu þá, er stafaði af því yfirleitt, að þessar tvær iðngreinir störfuðu í sameiningu, þá verð jeg að taka það fram, að þar með er engan veginn sannað, að þær megi aldrei vera saman. Og benda má á, að það er venja, þegar ný atvinnulöggjöf er sett, að leyfa þeim iðnstofnunum, sem þegar eru fyrir hendi, að halda áfram atvinnu sinni. Það er talin sjálfsögð sanngirni, og ætti því ekki við að láta þetta smjörbú sæta harðari kostum.

Það hefir verið talað um að gefa skuldina eftir, en þingið hefir þegar neitað því. Og satt að segja sýnist harla lítil ástæða til þess að gefa þetta eftir, einungis til þess að fyrirbyggja, að þessar tvær vörutegundir sjeu framleiddar á sama stað. Hið eina, sem getur mælt á móti þessu frv., er það, að Hrunahreppsmenn misbrúki undanþáguna og svíki smjörið, sem þeir selja. En mjer dettur ekki í hug að halda, að þeir geri það, enda væri þeim það verst sjálfum. Hjer er því, að mínu áliti, alls ekki um það að ræða að stofna smjörmarkaðinum í hættu fyrir 5000 kr., eins og hv. 1. landsk. (SE) sagði. En segjum að undanþágan yrði misbrúkuð. Hvað þá? Þá verður hún strax afturkölluð.

Hjer er því engin hætta á ferðum, og önnur lönd munu ekki standa á öndinni, þótt frv. verði samþykt.

Jeg sje enga ástæðu til þess að taka málið af dagskrá. Ef það verður látið bíða fram í þinglok, þá er það aðeins tilraun til þess að koma málinu fyrir kattarnef.

Það er ekkert vit í því í þessu sambandi að bera saman smjörútflutning frá Danmörku til Englands, vegna þess að smjörútflutningur Dana er stór liður fyrir Englendinga, en okkar alls ekki.