20.03.1925
Efri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

13. mál, smjörlíki

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg skal ekki halda hjer langa ræðu. En viðvíkjandi því, sem kom til tals við 2. umr., hvort ekki væri hægt að liðsinna aðstandendum Áslækjarrjómabúsins með því að gefa þeim eftir viðlagasjóðslánið, sem á þeim hvílir, að upphæð 5 þús. kr., þá er því að svara, að landbn. leitaði fyrir sjer til hv. fjvn. beggja deilda með tilmælum um, að þær gerðu till. í þá átt, en fjekk afsvar. Skal jeg, með leyfi hæstv. forseta (HSteins), lesa upp brjef nefndarinnar til hv. fjvn. Nd. og svarið, sem hún gaf:

„Að gefnu tilefni leyfir landbn. efri deildar sjer virðingarfylst að beina þeirri fyrirspurn til hv. fjvn. neðri deildar, hvort hún sjái sjer fært að flytja tillögu um, að Áslækjarrjómabúi í Hrunamannahreppi verði gefið eftir viðlagasjóðslán það, að upphæð kr. 5000,00, sem því samkv. heimild í fjárlögum fyrir árið 1923 var veitt til þess að koma upp smjörlíkisgerð við búið.“

Brjef þetta er dagsett 17. mars. Sama dag fær nefndin svo hljóðandi svar:

„Fjárveitinganefnd neðri deildar sjer sjer ekki fært að flytja till. um, að Áslækjarrjómabúi verði gefið eftir viðlagasjóðslánið.“

Samskonar brjef var fjvn. Ed. sent, og kom þaðan samskonar svar. Það má þannig telja útsjeð um, að ekki verður hægt að koma á móti sanngjörnum kröfum þessa rjómabús með öðru móti en að samþykkja þetta frv. En hinsvegar væri það hin mesta óbilgirni að ætlast til þess, að búið endurgreiði þessar 5 þús. kr. án þess að það megi njóta þeirra áhalda, sem fyrir það hafa verið keypt — en öðruvísi verður ekki tekið atkvæði þeirra manna, er greiða það á móti frv. þessu.