20.03.1925
Efri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

13. mál, smjörlíki

Sigurður Eggerz:

Hv. 2. landsk. (SJ) sagði, að jeg hefði hlaupið í gönur í þessu máli. Slíkt og þvílíkt er hægt að segja, en hvers vegna færði hv. þm. (SJ) engar sannanir fyrir því! Ennþá er alt óhrakið, sem jeg hefi sagt í þessu máli. Jeg hefi vitnað í skoðanir ýmsra fræðimanna, og þær standa óhraktar. Einnig það stendur óhrakið, að 20–30 menningarríki fylgja sama „principi“ og jeg í málum sem þessum. Sömuleiðis að þeir, sem mest skyn bera á þessi verslunarmálefni hjer á landi, líta á þetta sömu augum og jeg. Sá þm., sem talar út frá þeirri reynslu, hann er ekki að hlaupa í gönur. (SJ: Hann hleypur í gönur, þegar hann ásakar nefndina). Nei, jeg hefi afskaplega litla tilhneigingu til þess að víkja óþægilega að háttv. nefndarmönnum, og jeg bað nefndina að rannsaka þetta mál, vísaði henni á mennina, sem hún gæti spurt, og bað hana sjerstaklega að taka ekkert tillit til þess, sem jeg segði um málið frá mínu sjónarmiði, — og hvað gerði hún! Hún hefir ekki spurt einn einasta af þessum mönnum, — og af hverju! Jeg er hræddur um, að nefndin hafi ekki þorað að rannsaka málið vegna þess, að hún hafi óttast, að hún þyrfti að taka afstöðu öfugt við sannfæringu sína. Og hv. nefnd hefir verið mjög stöð í þessu máli; jeg verð ekki sannfærður um annað. Háttv. frsm. (EP) kom aftur með þá merkilegu athugasemd, að það væri ekki mikil hætta við það, þótt smjörið væri blandað; það kæmi þá aðeins á reikning smjörbúsins sjálfs, með því að hvert smjörbú hefði sjerstakt merki á sínu smjöri. En ætli það yrði nú ekki svo, að allar sendingar, sem á markaðinn kæmu, yrðu að bera það! Það þýðir t. d. ekki neitt að segja við fiskútvegsmann á Norðurlandi: Þú mátt verka fiskinn þinn þvert á móti öllum reglum, sem gefnar eru um fiskverkun yfirleitt, — því að þeir góðu menn vita það, að einn illa verkaður fiskfarmur verkar illa á allan markaðinn. (EP: Þetta er alt öðruvísi). Það þýðir alls ekki að segja þetta, því að ef það væri rjett, að smjörbúið ræki sig á, að það gæti ekki selt, og yrði að hætta, þá þyrfti ekki að setja það í lög, að ekki megi blanda smjörlíki í smjörið, og þá ætti hv. frsm. (EP) að koma með till. um, að þessi óþarfa löggjöf yrði upphafin. Nei, það er enginn leikur að gera þá hluti, sem geta stofnað markaði heillar þjóðar í hættu.

Þá sagði hv. frsm. (EP), að þetta væri ekki hættulegt fyrir smjörgerðina; það væri hættulegra fyrir smjörlíkisgerðina. En þetta er sú mesta fjarstæða. Nú eru komnar þrjár smjörlíkisverksmiðjur hjer á landi, tvær hjer í Reykjavík og ein á Akureyri, og þetta lítilræði, sem þessi litla verksmiðja þarna langt uppi í sveit framleiðir, er svo mikill hjegómi, samanborið við framleiðslu hinna, að það getur ekki gert framleiðslunni neitt, enda mun sú frjálsa samkepni, sem jeg mun ávalt vera talsmaður fyrir, ráða öllu þar um. Nei, fyrir smjörlíkisgerðinni þurfa menn ekki að bera neinar áhyggjur, því að það er framleiðsla, sem borgar sig vel, og þótt framleidd sjeu nokkur tonn af smjörlíki af Áslækjarrjómabúinu, þá er engin ástæða til að það geri nokkuð eða hafi nokkur áhrif á markaðinn.

Því hefir verið hvíslað í krókunum hjer, að jeg væri svo fastur fyrir í þessu máli af því að jeg væri hluthafi í smjörlíkisgerðinni hjer. Jeg sýndi fram á, að ef þessi smjörlíkisgerð væri færð, gæti hún orðið öðrum keppinautur, en hún getur aldrei orðið það, af því hve erfitt er að koma vörunni á markaðinn. En, segi jeg, væri hjer talað af eigingirni, þá skulu hv. þm. ekki taka neitt tillit til míns persónulega álits, en aðeins til þeirra rannsókna, sem jeg vísa til. Það getur ekki verið fyrir mín áhrif, að 30 ríki í Evrópu hafa sett svona löguð ákvæði, og ekki er það heldur fyrir mín áhrif, að bæði formaður efnarannsóknarstofu Íslands og formaður Búnaðarfjelags Íslands eru alveg á mínu máli. Þessum aðdróttunum get jeg því alveg vísað á bug, og jeg hefi fært svo sterkar sannanir mínu máli til stuðnings, að ekki er hægt fyrir neina nefnd eða þing að komast framhjá þeim, nema með því að fara í nýjar gönur.

Hjer er um stórt „princip“mál að ræða, Og ef þingið samþykkir þetta, þá er það sama og að leyfa þessu smjörbúi 20 ára „monopol“ til að spilla fyrir smjörmarkaðinum íslenska, en þó að það verði kannske gert á þessu þingi, þá skal það ekki haldast lengi.