25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

13. mál, smjörlíki

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Eins og segir í framhaldsnál. landbn. á þskj. 222, þá hefir Ed. breytt frv. þessu lítilsháttar. Gengur breyting sú í þá átt að takmarka enn meir heimild þá, sem hjer er um að ræða, og þar sem það má teljast heldur til aukinnar varúðar gagnvart því, sem helst hefir þótt varhugavert við frv., þá getur nefndin fallist á breytingartill. hv. Ed. og væntir, að hæstv. stjórn og hv. deild geti einnig fallist á þær.

Í frv. hæstv. stjórnar er heimildin bundin við bú, sem framleiða bæði smjör og smjörlíki, en hv. Ed. hefir takmarkað undanþáguna ennþá meir og bindur hana við þau bú ein, er hafa fengið lán úr ríkissjóði til þeirrar framleiðslu, og fellur þá aðeins eitt bú undir þessi lög. Nú er ekki vitað um nema eitt bú, sem framleiðir bæði smjör og smjörlíki, og er frv. því að efni til eins og áður, en orðalaginu aðeins breytt. Þá hefir hv. Ed. ennfremur sett tímatakmark fyrir undanþáguna, þannig að hún gildir ekki lengri tíma en þarf til að endurgreiða lánið. Fellur þá undanþágan úr gildi af sjálfu sjer.

Einn nefndarmanna (HK) hefir skorist úr um fylgi við frv. og vill láta fella það. Um ástæðuna fyrir því er mjer ókunnugt, en tel víst, að hann muni sjálfur gera grein fyrir henni.