03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

13. mál, smjörlíki

Tryggvi Þórhallsson:

Það hefir verið veist þó dálítið að mjer, svo að jeg verð enn að taka til máls, en það verður aðeins stutt aths.

Jeg tók alls ekki til mín það, sem hv. þm. Mýra. (PÞ) sagði, og þykkist alls ekki við hann að heldur, þótt hann hafi nú lýst yfir því, að jeg hafi átt sumt af.

En viðvíkjandi því, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði, að þetta kæmi ekki beinlínis Búnaðarfjelagi Íslands við, þá þykja mjer það undarleg orð af manni, sem átt hefir um tíma sæti í stjórn fjelagsins. Jeg skal aftur minnast á þessa þrjá menn, sem Búnaðarfjelagið ráðgaðist við. Einn af þeim er efnafræðingur landsins, annar Gísli Guðmundsson, er reglurnar samdi á meðan hæstv. atvrh. átti sæti í Búnaðarfjelagsstjórninni, og þriðja persónan var Anna Friðriksdóttir, er allan þann tíma, sem hæstv. atvrh. sat í Búnaðarfjelagsstjórninni, hefir verið ráðunautur rjómabúanna og ferðast á milli þeirri til leiðbeiningar um smjörgerð. (Atvrh. MG: Er hún það enn, og hvaða laun hefir hún?). Já, hún er það enn, en um launin man jeg ekki; hygg þó, að hún fái aðeins kaup þann tíma, sem hún starfar, um sumarmánuðina.