02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

28. mál, skráning skipa

Frsm. (Ágúst Flygenring):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir til umr., hefir hlotið samþykki hv. Ed., og hefir einungis ein lítil breyting verið á því gerð, sem er í því fólgin, að núgildandi lög um þetta efni — verði frv. samþykt — verða numin úr gildi, er þessi taka við, og er það ekki nema sjálfsagt og samkv. venju. Eins og vikið er að í nál. frá sjútvn., er með frv. þessu bætt úr þeim göllum á gildandi lögum, sem hafa að baga orðið og búast má við, að framvegis þurfi að óttast, en það eru falsaðar heimildir til þess að komast undir skrásetningu. Í fyrirliggjandi frv. eru sett afarströng ákvæði um skrásetningarskilyrði og mjög háar sektir fyrir misbrúkun þeirra. Skýlaus heimild er veitt til opinberrar rjettarrannsóknar. Skilyrði aðilja samkv. 1. gr. eru þannig, að komist verði fyrir allan grun og sjeð fyrir því, að auðvelt verði að framfylgja því, að þeim verði fullnægt eins og lögin ætlast til; m. ö. o. það er reynt að girða fyrir, að farið sje í kringum lögin með fölsuðum skilyrðum. Samkv. 7. gr. getur fjrh. ónýtt skrásetning, þegar honum býður við að horfa, og heimtað frekari rannsókn á skilyrðum fyrir skráningu. Mun þetta ákvæði líklega vera algert nýmæli um skráning skipa. Að minsta kosti held jeg, að það sje ekki í dönskum lögum. Öll þessi ströngu refsiákvæði í frv. eru vitanlega fram komin af ótta við það, og honum ekki ástæðulausum, að framvegis eins og að undanförnu verði reynt að fara kringum lögin. Það er vitanlegt, að ýms svik hafa verið höfð í tafli, þegar skip hafa verið skrásett hjer. Sjerstaklega hefir kveðið að þessu á Norðurlandi um síldveiðitímann, þegar hinum og öðrum aðskotadýrum hefir legið á og verið leyft að koma skipum sínum undir íslenskt flagg. Jeg álít, að þessi lög, svo framarlega að lögreglustjórar láta ekki sitt eftir liggja, nægi til þess að koma alveg í veg fyrir, að þetta hneyksli eigi sjer stað framvegis.

Annars má geta þess, að í öðrum atriðum er þetta frv. alveg sama efnis og þau lög, sem nú gilda hjer á landi; og reyndar sama efnis og löggjöf allra Norðurlandaþjóðanna á þessu sviði; aðeins er gengið nokkru lengra að rannsaka þau skilyrði, sem þurfa að liggja fyrir, þegar hlutaðeigandi vill fá skráning á skipi. En það er hvergi brugðið út af allsherjarreglu um þetta efni, og ekkert heimtað annað en það, sem er sjálfsagt og sanngjarnt. Lögin eru vel og greinilega samin, og vil jeg fyrir nefndarinnar hönd mæla hið besta með því, að þau nái samþykki.