23.02.1925
Neðri deild: 14. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get ekki annað en verið nefndinni þakklátur fyrir meðferð hennar á þessu máli. Nefndin fer ekki fram á aðra breytingu en þá, að farið skuli að till. sjerstakrar nefndar við úthlutun styrksins, og við það hefi jeg ekkert verulegt að athuga, enda þótt jeg hefði kosið, að starfstími nefndarinnar hefði verið nokkru lengri en ákveðið er í nál. Jeg tel heppilegra, að kjörtími nefndarinnar yrði nokkur ár, t. d. sex ár. Annars skal jeg ekki orðlengja þetta meira. Jeg býst annars við, að hvaða mentamálaráðherra sem væri myndi leita sjer upplýsinga um stúdenta, er um styrk þennan sækja, áður en hann er veittur.