23.02.1925
Neðri deild: 14. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Forsætisráðherra (JM):

Það er alveg rjett hjá hv. þm. Dala. (BJ), að óheppilegt gæti verið, að stjórnin mætti ekki færa styrkinn dálítið á milli ára, en ef gengið er mjög langt í því efni, mundi þó frv. ekki ná þeim tilgangi sínum, að ekki yrðu fleiri en 16 stúdentar styrksins aðnjótandi í einu. Annars held jeg, að þetta sje atriði, sem myndi lagast í hendi. Hv. þm. Dala. hafði eftir mjer, að nú væru aðeins 16 menn við nám við erlenda háskóla. Þetta er ekki rjett. Jeg taldi upp 18 stúdenta, sem mjer var kunnugt um, hvaða nám stunduðu, en í alt munu þeir vera nokkuð yfir 20. Stjórnin bar þetta frv. fram fyrst og fremst vegna stúdentanna sjálfra, til að veita þeim tryggingu fyrir styrknum. Hinsvegar þótti sjálfsagt að takmarka töluna, vegna háskólans hjer meðal annars. Jeg hefi þegar tekið fram, að jeg er þakklátur háttv. mentmn. fyrir það, hvernig hún hefir tekið í málið, og get ekki sjeð, að nefnd sú, er hún leggur til að skipuð verði, geti nokkurn skaða gert. Annars hefi jeg áður í dag látið í ljós álit mitt á henni. Jeg sje ekki, að neitt sjerstakt hafi komið fram í málinu síðan við háttv. þm. Dala. töluðum um það seinast við 1. umr., og sje því ekki ástæðu til að fara lengra út í það að sinni.