27.03.1925
Neðri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

1. mál, fjárlög 1926

Pjetur Ottesen:

Það er út af nál. samgmn., sem jeg vildi segja fáein orð, sjerstaklega út af þeirri bendingu, sem nefndin gefur um framtíðarskipulag á ferðum Faxaflóabátsins og tilraun til þess að sameina ferðir hans við ferðirnar á Breiðafirði. Jeg er mjög hræddur um, að sú sameining verði erfið, þó að það hinsvegar væri æskilegt ýmsra hluta vegna að láta eitt skip annast ferðir þessar. Og styður það grun minn í þessu atriði, að reynt var að ná samningum við stjórnendur Suðurlandsfjelagsins um að taka að sjer nú á þessu ári nokkrar ferðir á Breiðafirði ásamt Faxaflóaferðum. Þá var að vísu búið að gefa út áætlun um ferðirnar á Faxaflóa. En niðurstaðan varð líka sú, að þeir treystu sjer ekki til þess, því að það mundi koma í bága við ferðirnar í Borgarnes, sem á áætlun standa. En það er vitanlegt, að þangað þarf að fara margar aukaferðir, einkum vor og haust. Flutningaþörfin krefst þess. Þetta er reynsla undanfarinna ára, og hún bendir til þess, að það muni erfitt, ef ekki ókleift, að sameina þetta. Jeg skal auðvitað ekki segja um það, hvort tök muni vera á því, ef um væri að ræða hraðskreiðara skip til þessara ferða en það, sem nú gengur til Borgarness, en jeg geri ekki ráð fyrir, að það muni svo miklu, að þetta verði framkvæmanlegt. Nú er það vitanlegt, að á Breiðafirði er mikil flutningaþörf, og eigi að fullnægja henni, þá þarf skipið að hafa þar allmarga viðkomustaði. Nú eru sumar af þessum höfnum slæmar og erfitt um afgreiðslu, svo tafir yrðu óhjákvæmilegar, ef nokkuð bæri út af. Gæti þá iðulega svo farið, að þetta rækist hvað á annað og ferðir fjellu niður, öllum hlutaðeigendum til stórtjóns. Eins má benda á það, að ef skipið yrði að hlaupa fram hjá höfnum á Breiðafirði og gæti þar af leiðandi ekki losnað við vörur, sem þangað ættu að fara, þá yrði að skipa þeim vörum upp aftur í Reykjavík meðan skipið færi næstu ferð í Borgarnes, því að þangað er iðulega svo mikið að flytja, sem skipsrúm frekast leyfir, svo að ekki væri hægt að láta þessar vörur liggja í skipinu. Þetta mundi hafa í för með sjer ærna fyrirhöfn og mikinn kostnað.

Það væri í rauninni æskilegt fyrir ýmsra hluta sakir, ef hægt væri að sameina þessar ferðir. Jeg játa það, og það er vitanlega ekkert á móti því, þó að það verði athugað nánar, en jeg hefi enga trú á því, að það leiði til neinnar úrlausnar á þessu máli.

Það þarf ekki að benda á það, að flutningaþörfin til og frá Borgarnesi er mjög mikil, því að til Borgarness er sótt verslun úr Borgarfjarðarsýslu ofan Skarðsheiðar og úr Mýrasýslu allri, miklum hluta Hnappadalssýslu og að nokkru úr syðsta hreppnum í Snæfellsnessýslu. Er þetta allstórt svæði. Ennfremur er rekið þangað fje til slátrunar úr öllum þessum sveitum, og auk heldur stundum vestan úr Dölum og úr vesturhluta Húnavatnssýslu. Svo er vitanlega altaf sífeldur ferðafólksstraumur af Norður- og Vesturlandi til Borgarness, sem svo fer sjóleiðina til Reykjavíkur.

Þá styður það líka skoðun mína í þessu samgöngumáli, að hv. þm. Barð. (HK) hefir skrifað undir nál. samgmn. með fyrirvara, og skil jeg það svo, að hann telji, að með þessu fyrirkomulagi verði ekki uppfylt samgönguþörfin á Breiðafirði. Jeg veit, að hv. þm. Mýra. (PÞ) er líka ósamþykkur þessari till. nefndarinnar, þótt hann hafi ekki skrifað undir nál. með fyrirvara. Eru þarna þá tveir úr nefndinni þessu mótfallnir.

Þá vildi jeg minnast á Hvalfjarðarbátinn og tillögur og bendingar nefndarinnar um styrk til smærri bátanna yfir höfuð. Í nál. er gefin bending um það, að þremur þessara smærri báta mundi hæfilegt að ætla 500 kr. til hvers. Þessir bátar eru Hvalfjarðarbátur, Lagarfljótsbátur og Rauðasandsbátur. Jeg skil þetta sem bendingu um, að hver þessara báta eigi að áliti samgöngumálanefndar að fá 500 kr. á yfirstandandi ári. (JAJ: Nei). Þetta stendur hjer á fyrstu síðu í nefndarálitinu, og meinar nefndin sjálfsagt eitthvað með því. (JAJ: Hjer er aðeins að ræða um meðaltal). Jæja, þá það. Viðvíkjandi styrk til Hvalfjarðarbátsins vil jeg geta þess, að síðastliðið ár var hann 600 kr., og lækkaði hann frá því, sem áður var, um 300 krónur, en um eitt skeið var hann 1000 kr. Þessar Hvalfjarðarferðir hefir sami maður haft á hendi um nokkur ár, og hefir verið almenn ánægja meðal manna um ferðir þœr. Maður sá, er ferðunum hefir haldið uppi, hefir reynst viss og áreiðanlegur í öllum viðskiftum. En þegar stýrkurinn lækkaði síðastl. ár, neitaði hann að taka að sjer ferðirnar. Í fyrra var svo reynt að fá bát til ferðanna, og tókst það eftir allmikla fyrirhöfn, án þess þó, að hann gæfi neina von um að halda ferðunum uppi framvegis. Því er svo varið um ferðirnar, að þær koma ekki að notum, nema því aðeins, að báturinn hafi fasta afgreiðslu í Reykjavík. Þessu lyktaði nú svo síðastl. ár, að eigandi bátsins varð að bæta 100 krónum við þann 600 króna styrk, sem hann hafði til ferðanna, fyrir afgreiðslu hjer. Og fáist nú ekki 1000 kr. styrkur til þessara ferða, fæst enginn bátur til þess að halda uppi þessum ferðum.

Til glöggvunar fyrir hv. þdm. og hv. samgmn. vil jeg geta þess, að í Hvalfirði er rekin verslun beggja megin fjarðarins; sækir þangað öll Kjósin, Hvalfjarðarströnd, Svínadalur, Skilmannahreppur, nokkur hluti Skorradals og Lundareykjadalshr. og að nokkru leyti Leirár- og Melahreppur og Innri-Akraneshreppur. Sjest á þessu, að það er stórt svæði, sem sækir verslun í Hvalfjörð, og auk þess er mikil þörf samgangna við Reykjavík að öðru leyti.

Nú áœtlar samgöngumálanefnd 700 kr. til bátaferða í Hvalfjörð næsta ár, en Lagarfljótsbát eru ætlaðar 500 kr. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þá er það aðeins einn heill hreppur, sem nýtur Lagarfljótsbátsins, og partar úr 3 öðrum hreppum. Af þessum samanburði er það ljóst, að ekki er tekið fult tillit til Hvalfjarðarbátsins. Jeg segi ekki, að styrkurinn til Lagarfljótsbátsins sje of hár, en jeg álít, að það væri ekki of mikið, þótt Hvalfjarðarbáturinn fengi helmingi meira, eða 1000 kr.

Það hefir oft heyrst, þá er talað er um samgöngur á sjó, að mönnum vex í augum, hvað mikið fer til flutningabáta innfjarða, og þá einkum á Faxaflóa. Jeg vil benda á, að það er eiginlega ósköp lítið, sem veitt er til bátaferða fyrir hjeruðin við Faxaflóa fram yfir það, sem nauðsynlegt er vegna póstflutninga milli Reykjavíkur og norður- og vesturlandsins. Eftir upplýsingum, sem póstmálastjóri hefir gefið mjer, þá telur hann, að landflutningur á pósti upp í Borgarfjörð mundi kosta um 20 þús. kr. á ári. Nú eru veittar 23 þús. kr. til Borgarnesferða, og skilst mjer því, að um mjög litla upphæð sje að ræða sem beinan styrk til samgöngubóta fyrir þá, er búa við Faxaflóa. Og ef ekki væri hægt að sameina póstflutninga og aðra flutninga, mundi þessi upphæð ekki nægja. Það ber og líka á hitt að líta, að allur suðurkjálkinn verður útundan, því að ekkert er veitt til samgöngubóta á sjó til suðurhafnanna við Faxaflóa. Sje tekið rjett tillit til þessa, þá er það misskilningur, að hjeruðin við Faxaflóa fái meiri styrk en önnur hjeruð, heldur bera þau þar þvert á móti skarðan hlut frá borði. Og í sambandi við þetta má ekki ganga fram hjá því, sem veitt er til Esjuferðanna, en hjeruðin við Faxaflóa njóta einskis góðs af því mikla fje, sem verður að greiða úr ríkissjóði í rekstrarhalla á þessum ferðum, því að það skip kemur ekki á neina höfn innan Faxaflóa, nema Reykjavík.

Það var svo ekki fleira, sem jeg ætla að drepa á í þessu sambandi, og skal jeg ekki frekar blanda mjer í umræðurnar.