21.02.1925
Neðri deild: 13. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

25. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að innheimta ýmsa tolla og gjöld með 25% gengisviðauka

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg þakka hv. nefnd fyrir meðferð hennar á þessu máli, og sjerstaklega fyrir yfirlýsingu hv. form. nefndarinnar og frsm., sem hann gaf fyrir nefndarinnar hönd, að hún vildi fyrir sitt leyti stuðla að því, að ríkissjóður hjeldi óskertum þeim tekjustofnum, er hann hefir. Það er mjög mikilsvert að hafa fengið samkomulag um þá stefnu, svo hœgt sje að greiða lausaskuldirnar á fáum árum. Um fyrirvara hv. 1. þm. N.- M. (HStef) skal jeg ekki segja margt. Jeg viðurkenni, að vörutollurinn er leiðari tekjustofn en aðrir tollar. Okkar góða gamla stefna var að tolla aðeins munaðarvörur, og það var gott á meðan tekjurnar nægðu ríkissjóði. En þeir tollar skertust, þegar bannlögin voru sett, og nægðu þá ekki lengur. Var þá tekinn upp vörutollur. Þó að jeg álíti hann verstan af tolltekjum ríkisins, má ríkissjóður ekki við því að missa hann. Vona jeg, að hv. deild fallist á till. nefndarinnar og samþykki frv. í þeirri mynd, sem það liggur fyrir.